Það getur verið yfirþyrmandi tilhugsun að ferðast með börn. Jen Campbell Boles, stofnandi Explore More Family Travel, kannast vel við það, en þegar hún komst að því að hún ætti von á tvíburum sá hún engin ferðalög í náinni framtíð. Það breyttist þó fljótt og hefur hún nú öðlast mikla reynslu af því að ferðast með tvö börn. Boles gaf lesendum Today nokkur góð ferðaráð fyrir haustið.
„Fólk er svo hrætt við ferðalög með ung börn, en það er mikilvægt að venja börn á að ferðast frá unga aldri,“ sagði Boles. Til að byrja með þótti henni best að ferðast utan háannatíma, en maí og september voru í sérstöku uppáhaldi þegar kom að ferðalögum með drengina hennar tvo þegar þeir voru yngri.
1. Byrjaðu á styttri ferðum
Boles, sem er búsett í Bandaríkjunum, segist hafa byrjað á styttri ferðum innan Bandaríkjanna áður en hún fór að fljúga milli landa. Þetta gerði hún til þess að byggja upp sjálfstraustið áður en hún fór að fara í lengri ferðir.
2. Pakkaðu aukahlutum fyrir börnin
Boles rifjar upp atburð þar sem hún sat úti við sjóinn á ferðalagi um Ítalíu þegar tvíburarnir hennar voru eins árs, en á augabragði tók annar sonur hennar upp eina vatnsbrúsann sem þau höfðu pakkað og henti honum út í sjó.
3. Pantaðu gistingu með auka herbergi eða rými
„Börn fara fyrr að sofa og foreldrarnir þurfa tíma til að hlaða batteríin eftir annasaman dag og tengjast hvert öðru,“ segir Boles.
4. Stilltu af væntingarnar
Ferðalög með börn geta tekið lengri tíma, og það er allt í lagi. Að sögn Boles er óraunhæft að ætla að sjá og skoða allt í ferðalaginu, en þess í stað sé mikilvægt að staldra við og njóta stundarinnar.
5. Hafðu eitthvað að gera fyrir barnið
„Ef barninu finnst gaman að synda, bókaðu þá hótel með sundlaug. Ef barnið elskar að hreyfa sig, finndu þá pláss þar sem þau geta hlaupið um eða finndu skemmtilega leikvelli eða garða,“ útskýrir Boles.
6. Hugaðu að svefninum
Boles mælir með því að fólk reyni að bóka flug sem er um kvöld eða nóttu. Þá eru börnin líklegri til að sofa í flugvélinni og þar af leiðandi eru minni líkur á að þau verði pirruð í fluginu.