Meiri áhætta að elta ekki drauminn

Sigrún Birna Kristjánsdóttir er að læra að verða doula.
Sigrún Birna Kristjánsdóttir er að læra að verða doula. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigrún Birna Kristjánsdóttir er að læra að verða doula. Sigrún lauk meistaragráðu í lögfræði en fann köllun sína seinna þegar vinkona hennar sagði henni frá heimafæðingu sinni. Sibba segir doulunámið hafa verið heilandi en hún var hrædd við barneignir þegar hún byrjaði í náminu. 

„Þegar ég var komin að gatnamótunum var aldrei neinn vafi hvora leiðina ég ætlaði að velja. Þegar kom að því að læra lögfræðina og svo bókarann var ég að nota allt annan hvata til að halda mér við efnið. Það var vegur sem ég fetaði með rökhugsun á forsendum hagnýtni. Þegar ég byrjaði að læra douluna og áttaði mig á hvað fólst í því að vera þátttakandi í töfrum fæðingarheimsins fann ég að ég átti erfitt með að hætta. Ég hafði óvart fundið uppsprettu djúpstæðrar ástríðu sem ég vissi ekki ég byggi yfir. Það að finna áhuga og eld innra með mér eftir að hafa fundið mig í doulufræðunum var til þess að brenna upp þann vott efasemda sem lúrði innra með mér um það hvaða skref ég ætlaði að taka næst. Vissulega fylgir öllu áhætta en mér fannst stærri áhætta vera fólgin í því að þróa þetta ekki áfram. Fólkið sem stendur mér næst fannst þetta eiga vel við mig, en þau tóku eftir muninum á mér sem varð þegar ég byrjaði að læra og hvöttu mig áfram,“ segir Sibba. 

Var uppfull af ótta

„Þegar ég lít til baka var það samspil margra þátta sem varð til þess að ég fór í doulunám. Það sem þó velti hlassinu var samtal við Öldu, vinkonu mína, fyrir tveimur árum. Ég kynntist henni þegar við þríeykið Alda og Sólveig hófum samstarf okkar vegna Þorpsins tengslaseturs. Þegar ég kynntist Öldu var ekki langt liðið frá heimafæðingu dóttur hennar. Ég yfirheyrði hana og spurði spjörunum úr uml það hvernig upplifun hennar hafði verið. Ég var blaut á bak við eyrun og þekkti enga á þeim tíma sem hafði stigið svo rosalega róttækt skref frá norminu, að mér þá fannst, að fæða barn utan sjúkrahúss. Eftir kaffiheimsóknina fór ég beint heim og í tölvuna þar sem ég gúgglaði allt sem mér datt í hug og sökkti mér ofan í rannsóknarvinnu sem stendur enn yfir í dag.“

Sigrún Birna lærði margt um sjálfa sig þegar hún byrjaði …
Sigrún Birna lærði margt um sjálfa sig þegar hún byrjaði í doulunámið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þegar Sibba hóf doulunámið hafði hún tekið ákvörðun um að barneignir væru ekki fyrir hana. Í dag hlæja þær vinkonurnar yfir þessari skoðun Sibbu. 

Ég er á annarri skoðun í dag. En á þeim tíma, þá gat ég ekki útskýrt það sérstaklega af hverju mér leið eins og mér leið. Það var ekki fyrr en ég byrjaði að lesa mér til um forsögu sjúkrahúsfæðinga, tilkomu fæðingarlækninga í þeirri mynd sem við þekkjum í dag og hvernig fæðingarþekkingin fór úr höndum kvenna og heimilanna og til sérfræðinga í hvítum jökkum, sem ég fór að setja þessa afdrifaríku ákvörðun mína í víðara samhengi og skilja á hverju hún byggðist.  

Það sem ég sé skýrt í dag er að ákvörðun mín var byggð á ótta sem átti rætur að rekja í utanaðkomandi áföll kvenna sem stóðu nær mér á mótunarárum mínum, sem áttu margar ákaflega traumatíska fæðingareynslu, eða fæðingareynslu sem ég man að mér þótti óþægilegt að hlusta á. Þegar ég hugsaði til baka þá mundi ég ekki eftir að hafa heyrt fæðingarsögu sem var jákvæð í uppvextinum og það var nóg af slíkum fæðingarsamtölum til að hlera. Það setti punktinn fyrir ofan i-ið þegar móðir mín lenti í bráðakeisara til að bjarga lífi hennar og litla bróður míns sem var fluttur með sjúkraflugi suður. Þarna setti ég samasemmerki á milli hættu og fæðinga og hafði ómeðvitað ákveðið að það væri áhætta sem ég ætlaði aldrei að taka.  

Að átta mig á þessu var rosalegt „a-ha“ augnablik. Núna, eftir djúpstæða rannsóknarvinnu síðustu ár, sem hefur skilað sér í auknum skilningi á fæðingarferlinu, hormónakerfi kvenna og frjósemi, fann ég að óttinn bráðnaði áreynslulaust í burtu. Ég hefði ekki trúað því að svo mikil heilun fælist í einföldum skilningi. Í dag hefur óttinn því fengið að víkja fyrir lotningu, því ég skil hvernig náttúran virkar.“

Veitir stuðning

„Doulunám er ekki formlegt nám. Það eru engar leyfisveitingar, engir staðlar, engin opinber skilyrði. Þetta er eitt af mörgum þáttum við námið sem heillar mig. Námskeiðið sem ég sótti er undir handleiðslu Soffíu Bærings sem hefur doulast hér á landi hvað lengst. Hennar námskeið er sett upp í tveimur hlutum, bóklegum og verklegum. Formlega hef ég lokið bóklega hlutanum, en óformlega þá heldur rannsóknarvinnan alltaf áfram. Til að ljúka verklega áfanganum þarf ég að þjónusta þrjár konur á meðgöngu og í fæðingu. Það hefur reynst þrautinni þyngra að klára verklega hlutann þar sem mikill meirihluti kvenna fæðir á sjúkrahúsi. Landspítalinn er enn með strangar Covid-reglur sem gerir það ómögulegt fyrir konur og maka þeirra að njóta stuðnings doulu í fæðingu. Reglurnar hafa tafið töluvert fyrir mörgum doulunemum að ljúka námi. Ég er þó þolinmóð og hef alla trú á því að þetta hafist fyrir rest.“

Doulur fara í gegnum allt fæðingarferlið með nýjum foreldrum.
Doulur fara í gegnum allt fæðingarferlið með nýjum foreldrum. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Sibba segir mikilvægt að hafa í huga að doulur veiti ekki klíníska ráðgjöf og þær komi ekki í stað ljósmæðra. 

Það sem doula gerir er að hún veitir samfelldan stuðning, allt eftir þörfum og óskum móður. Hún tekur ekki vaktaskipti, víkur ekki frá. Hún hughreystir, peppar og veit hvenær hennar er þörf. Þungamiðja doulustarfa er andleg og líkamleg líðan móður. Hlutverk heilbrigðisstarfsfólks er líkamleg heilsa móður og barns. Hvort um sig er mikilvægt, en hvorugt má á skorta. Það er misjafnt eftir doulum hvaða þjónustu þær veita, en almennt er um að ræða tveir til þrír fundir á meðgöngunni sjálfri, viðvera og stuðningur í fæðingu og að jafnaði einn fundur eftir fæðingu. Á þessum fundum er misjafnt hvað er rætt og hvaða þjónusta er veitt, en ég held að við flestar eigum það sameiginlegt að veita einstaklingsmiðaða þjónustu. Hvort sem það sé fæðingarfræðsla, almenn aðstoð með einstök atriði, jafnvel fótanudd og leidd slökunarhugleiðsla. Allt  fer þetta eftir því einstaka sambandi sem myndast milli móður og doulu hverju sinni.“

Sá vinkonu sína rólega og yfirvegaða 

Í náminu hefur Sibba séð fjöldann allan af fæðingum í gegnum netið sem hún hefur lært mikið af. Áður en hún hóf doulunámið var hún hins vegar viðstödd sína fyrstu fæðingu. „Það var þegar besta vinkona mín, Sólveig, fæddi strákinn sinn 2017. Sá kom öllum að óvörum þegar uppgötvaðist að hann var í sitjandi stöðu, þegar sást í rass í staðinn fyrir koll. Mér er eftirminnilegast hvað hún var róleg og yfirveguð, þrátt fyrir skyndileg umskiptin í andrúmsloftinu. Á núll einni fylltist herbergið af spennu og undirliggjandi ótta, þar sem herlið fæðingarlækna, ljósa og fleira heilbrigðisstarfsfólki sem ég kunni ekki skil á kom askvaðandi, með stálborð í eftirdragi sem á lágu tangir, hnífar, sög og fleira dót sem veittu mér gæsahúð niður í tær að líta á.

Síðar þegar við ræddum þetta kom á daginn að vinkona mín hafði séð umrætt borð en ákveðið að hundsa það. Hún spurði lækninn hvort þetta væri eitthvað ólíkt venjulegri fæðingu og fékk það svar að svo væri ekki. Hún ákvað því að þetta væri bara eðlilegt, hún andaði djúpt í gegnum þetta, þremur hríðum og korteri síðar fæddist heilbrigður drengur. Eðlileg fæðing, án allra inngripa. Það var svo ekki fyrr en í eigin rannsóknarvinnu sem ég uppgötvaði það að sitjandi fæðingar, þó að mörgu ólíku sé að huga að, eru í heildina ein útgáfa af flóru fjölbreytileikans innan ramma eðlilegra fæðinga. Það er hreinlega búið að hræða það í margar konur að sitjandi sé hættuleg stelling, þegar svo er sjaldnast.“ 

Kona endurfæðist sem móðir

Hvað þarf að hafa í huga þegar maður er að fara í jafnviðkvæmt og innilegt ferli og fæðingu?  

„Hvort um sé að ræða móður sem er að fara inn í fæðingu, eða stuðningsfólk á borð við maka eða doulu, þá finnst mér persónulega að andlega vinnan sé mikilvægust. Fæðing brýtur niður allar varnir og brynjur og skilur fátt eftir nema hráan sannleikann. Fæðing er umbreytingarferli, þar sem kona fæðir ekki aðeins barn, heldur endurfæðist sjálf inn í hlutverk móður. Slíkan hreinsunareld er hægt að upplifa sem miskunnarlausan ef andlega vinnan sat á hakanum. Ef áhorfanda og stuðningsfólki líður ekki vel með að horfa á móður öskra og urra barnið í heiminn er eitthvað sem þarf að skoða. Ef þú sem móðir hræðist einhverja þætti varðandi fæðinguna, þá þarf að skoða það. Það er aldrei of seint að byrja. Því fer þó fjarri að það þurfi að vera leyst úr öllum heimsins hnútum og áföllum til þess að eiga farsæla fæðingarreynslu. Aðalatriðið er að fara inn í ferlið með meðvitund og sjálfsmildi.“  

Sigrún Birna segir andlega vinnan mikilvæg þegar kemur að fæðingum.
Sigrún Birna segir andlega vinnan mikilvæg þegar kemur að fæðingum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Maður les um doulur erlendis en finnst það ekki jafn algengt á Íslandi. Er að verða breyting? 

„Ég held að það sé að verða breyting. Ég skynja út undan mér aukna forvitni og löngun til að læra. Það er þó talsverður minnihluti þeirra sem hefja doulunám sem ljúka því og ekki eru allar sem klára námið starfandi sem doulur. Brottfallið er mikið. Ástæðurnar eru held ég jafn ólíkar og þær eru margar. Það er einnig sérstök áskorun sem hefur orðið á síðustu tveimur árum með þann flöskuháls sem Covid-reglur hafa valdið. Afleiðingin er að við erum margar strand eftir að hafa lokið bóklega hlutanum.“

Þarf að bæta aðstæður fyrir doulur á Íslandi? 

„Það væri strax mikil bót ef fjölskyldur gætu sótt um endurgreiðslur eða styrk til stéttarfélaga fyrir þjónustunni til að gera hana aðgengilegri, en douluþjónusta kostar jú peninga og hún er því miður ekki niðurgreidd. Það að douluþjónusta sé ekki niðurgreidd, sem og að doulur hafi ekki fengið leyfi til að mæta á fæðingardeild Landspítalans síðustu rúm tvö ár í nafni Covid-reglna, er finnst mér til vitnisburðar um að aukinnar vitundarvakningar á mikilvægi doulu-starfa sé þörf.“  

Sibba bendir á að erlendar rannsóknir bendi til þess að móðir og maki hennar hafi fengið jákvæða upplifun ef samfelldur stuðningur doulu var til staðar í fæðingarferlinu. „Þ eitt að hafa samfelldan stuðningsem er til staðar fyrir móðurina og makann skiptir sköpum á eins miklum umbrotatímum og fæðing er. Ég hef trú á því að við séum hægt og rólega að mjakast í rétta átt með vitundarvakningu um mikilvægi stuðnings fyrir mæður í fæðingarferlinu.“  

Sibba heldur úti Instagram-síðunni Ástfóstri þar sem hún deilir fróðleik um meðgöngu og fæðingarferlið. Þar er einnig hægt að hafa samband við Sibbu. 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda