Ilmur reif blaðið frá skólanum

Ilmur Kristjánsdóttir leikkona gagnrýnir að í skólum á Íslandi sé …
Ilmur Kristjánsdóttir leikkona gagnrýnir að í skólum á Íslandi sé lögð áhersla á leshraða frekar en gæði lesturs og lesskilning. Eggert Jóhannesson

Leikkonan Ilmur Kristjánsdóttir gagnrýnir harðlega þá stefnu í íslenskum grunnskólum að börn séu látin taka svokölluð leshraðapróf og að aðeins sé lögð áhersla á að börn lesi hratt. Sonur Ilmar er í 3. bekk og tók nýverið leshraðapróf þar sem kom í ljós að honum hafði farið aftur í hraða. 

Ilmur tjáir sig um málið í færslu á Facebook sem hefur fengið mikla athygli. „Nú er ég með strák í 3. bekk, hann hefur áhuga á lestri (ennþá), hann les mjög vel, þegar hann les upphátt fyrir mig legg ég áherslu á að hann lesi fallega og að hann skilji það sem hann les. En það virðist ekki vera lögð áhersla á það í skólanum, bara að hann lesi hratt. Um daginn kom hann heim úr skólanum og rétti mér blað, ég sá á líkamstjáningunni að hann skammaðist sín. Á blaðinu var helvítis hraðalínuritið – sem hafði farið niður á við, honum hafði farið aftur. Ég snögg reiddist og reif blaðið í tvennt, honum brá en skömmin vék fyrir undrun. Ég reiddist vegna þess að ég hafði verið að hrósa honum fyrir framför í lestrinum deginum áður, hann er nefnilega farinn að lesa með tilfinningu, ég sé að hann kemur sjálfum sér á óvart þegar hann les og ég sé að hann eflist við það. Enda getur það verið mjög valdeflandi að heyra rödd sína hljóma,“ segir Ilmur. 

Dóttirin hélt ekki í við hraðann

Hún ber dæmi sonar síns saman við dæmi um dóttur sína og segir að þegar dóttir hennar hafi verið í 3. bekk hafi kennarinn hennar stoppað Ilmi úti á götu og hrósað henni fyrir lestur dótturinnar. „ Svo fóru einkunnirnar hennar að dala, hún hélt ekki í við hraðann sem verið var að mæla. Hún fór líka að missa áhugann. Í foreldraviðtali í 7. bekk spurði hún sjálf kennarann sinn, þegar kom að gagnrýni á leshraða hjá henni, hvort hún ætti bara að buna útúr sér textanum án þess að skilja hann? - Það var fátt um svör enda virðist enginn skilja tilganginn með þessu. Ekki kveikir þetta áhuga á lestri, ekki eykur þetta skilning og ekki er þetta valdeflandi, svo mikið er víst,“ segir Ilmur. 

Segir aðferðina ekki virka

Ilmur segist ekki vita hvaða vísindi liggi á bak við það að leggja áherslu á leshraða. „Eru þau vísindi sem sýna að 38% barna sem útskrifast úr grunnskóla nái ekki grunnfærni í lesskilningi ekki næg vísindi til að sanna að þessar aðferðir virki ekki? Eða er sá sem tók ákvörðunina um að þetta sé rétta leiðin kannski æviráðinn eins og flestir stjórnendur í íslensku menntakerfi?“ segir Ilmur. 

Hún segist vita að hún sjálf geti haft áhrif á sín eigin börn og lagt áherslu á að þau lesi fallega. „En ég hef nú ekki meiri áhrif en svo að áðan þegar við sonur minn vorum að fylla út blað fyrir foreldraviðtal og hann er þar spurður hvað hann vilji gera betur í skólanum, þá svarar hann „ég vil lesa hraðar“, skrifar Ilmur að endingu. 

Ilmur hefur hlotið miklar undirtektir við færslu sinni og yfir þúsund manns lækað hana og vel á þriðja hundrað skrifað athugasemdir við færsluna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda