Fyrrverandi kærasta Harrys Bretaprins, Cressida Bonas, átti aldrei von á því að eiga erfitt með að eignast barn. Hún vill opna umræðuna svo að aðrir þurfi ekki að þjást í þögn líkt og hún gerði.
„Farðu bara í frí og slakaðu á“
„Þú ert enn ung og hefur nægan tíma“
„Þetta gerist um leið og þú hættir að reyna“
„Settu hrísgrjón undir koddann“
„Sem betur fer áttu hund“
Allt eru þetta ráð sem Bonas fékk að heyra á meðan hún barðist við ófrjósemi. Hún skildi ekki af hverju hún gæti ekki bara verið meira slök og „leyft þessu að gerast“.
„Þegar ég lít til baka þá vildi ég óska að ég hefði verið mildari í eigin garð og skilið að ég var ekki gölluð. Eftir að hafa gengist í gegnum margar rannsóknir kom í ljós að það var engin útskýring á ófrjóseminni. Ég gerði alltaf ráð fyrir að það yrði ekkert mál að eignast barn og að helsta baráttan yrði að reyna að verða ekki ólétt. Það angraði mig mjög að heyra að það var í raun ekkert að, mig vantaði að kenna einhverju um. Var ég of mikið í ræktinni eða ekki nógu mikið? Var of mikið álag á mér? Drakk ég of mikla mjólk eða borðaði of mikinn sykur? Hvað með glúten eða kaffi?“
„Eftir því sem leið á hjónabandið hætti fólk að spyrja um barneignir. Það vildi ekki vera ónærgætið,“ segir Bonas í pistli í Sunday Times.
„Frjósemismeðferðirnar gengu illa og ég eyddi miklum fjármunum í allt mögulegt. Nálastungur, miðla, næringarfræðinga og heilara sem töluðu við engla. Ekkert virkaði.“
„Tveimur árum síðar, eftir glasafrjóvgun, eigum við barn. Ég er ótrúlega þakklát að það virkaði. Margir eru ekki svo heppnir. Ég sé þó núna að allt of margir eru að þjást í þögn. Ég lærði að eftir því sem við ræddum þessi mál við fleiri þá varð byrðin léttari. Fólk deildi með okkur eigin reynslu og það var dýrmætt. Annars hefði ég verið mjög einmana í ferlinu,“ segir Bonas.