Næsta kynslóð poppstjarna

Mæðgurnar.
Mæðgurnar. Samsett mynd

Stórstjörnurnar Beyoncé, Pink og Jennifer Lopez eru allar að ala upp sterkar, kjarkmiklar og sjálfstæðar ungar konur.

Allar eiga söngkonurnar ungar dætur á aldursbilinu 11 til 15 ára sem eiga það sameiginlegt að hafa staðið fyrir framan tugi þúsunda æstra aðdáenda og sungið eða dansað ásamt mæðrum sínum. 

Þetta er í genunum

Willow Sage, dóttir söngkonunnar Pink, steig nýverið á svið ásamt móður sinni á fyrstu tónleikum nýrrar tónleikaferðar söngkonunnar, Summer Carnival. 

Mæðgurnar fluttu lagið Cover Me In Sunshine, en þær tóku það upp á hápunkti kórónuveirufaraldursins. Aðdáendur söngkonunnar fögnuðu stúlkunni ákaft að loknum flutningi og átti Pink í mestu vandræðum með að halda aftur tárunum. 

Faðir Willow Sage og eiginmaður Pink, Carey Hart, birti myndband af flutningi dóttur sinnar á Instagram og átti ekki orð yfir hversu mögnuð dóttir sín væri. 

View this post on Instagram

A post shared by Carey Hart (@hartluck)

Dansar eins og vindurinn

Elsta dóttir tónlistarhjónanna Beyoncé og Jay–Z, Blue Ivy, hefur verið að gera allt vitlaust á tónleikaferðalagi móður sinnar, Renaissance World Tour. Stúlkan, sem er 11 ára gömul, virðist elska sviðsljósið jafnmikið og móðir hennar og dansar eins og enginn sé morgundagurinn fyrir framan æsta aðdáendur Beyoncé eða býkúpunnar eins og þeir vilja láta kalla sig (e. The Bey Hive). 

Blue Ivy á ekki langt að sækja danshæfileika sína en Beyoncé, sem er þó þekktust fyrir einstaka sönghæfileika sína, er einnig stórkostlegur dansari og er því ánægjulegt að sjá mæðgurnar ljóma saman á sviðinu.

Elskar að syngja með mömmu

Hin þá 11 ára gamla Emme Maribel Muñiz, dóttir fjöllistakonunnar Jennifer Lopez, vakti heimsathygli fyrir nokkrum árum þegar hún tróð upp ásamt móður sinni á hálfleikstónleikum Ofurskálarinnar. Stúlkan flutti eitt þekktasta lag Lopez, Let's Get Loud og tryllti lýðinn.

Muñiz, sem er 15 ára gömul í dag, hefur mikla ástríðu fyrir tónlist og söng rétt eins og móðir hennar og fluttu þær fallega útgáfu af laginu A Thousand Years eftir Christinu Perri á tónleikum Lopez í Los Angeles á síðasta ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert