Áfall að vakna ein eftir bráðakeisara og vita ekkert

Perla Ruth Albertsdóttir er landsliðskona í handbolta, en hún eignaðist …
Perla Ruth Albertsdóttir er landsliðskona í handbolta, en hún eignaðist sitt fyrsta barn fyrir rúmum tveimur árum síðan.

Landsliðskonan Perla Ruth Albertsdóttir og eiginmaður hennar, Örn Þrastarson, eignuðust son sinn Maron Blæ Arnarsson fyrir rúmum tveimur árum. Eftir að hafa fylgst með öðrum íþróttakonum eiga „draumafæðingar“ og vera mættar inn á völlinn nokkrum vikum síðar þótti Perlu erfitt að sætta sig við að það væri ekki raunin hjá sér.

Hún segir meðgönguna og fæðinguna hafa reynst krefjandi, en þar að auki hafi komið henni á óvart hve langan tíma það tók hana að koma sér aftur í handboltaform eftir fæðingu sem reyndi mikið á andlegu hliðina. 

Perla fór á sína fyrstu handboltaæfingu 17 ára gömul og hefur náð ótrúlegum árangri í íþróttinni, en hún var stuttu síðar farin að spila í efstu deild og með unglingalandsliðinu. Síðustu fjögur ár hefur Perla spilað með Fram í Reykjavík, en hún skrifaði fyrr á árinu undir samning við uppeldisfélag sitt Selfoss.

Samhliða handboltanum starfar Perla sem næringarþjálfari hjá Ps. Árangri, en hún er stofnandi og eigandi fyrirtækisins ásamt vinkonu sinni Söndru Erlingsdóttur. Perla er með næringarþjálfararéttindi frá Working Against Gravity en er auk þess menntaður íþróttafræðingur og með diplómu í íþróttasálfræði.

Sandra og Perla unnu hörðum höndum að því að stofna …
Sandra og Perla unnu hörðum höndum að því að stofna fyrirtækið á meðan Perla var ófrísk.

Fann ástina á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum

Perla var aðeins 15 ára gömul þegar hún kynntist eiginmanni sínum á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum árið 2012. „Maðurinn minn kemur úr mikilli handboltafjölskyldu svo þegar við byrjuðum saman þá var ekkert annað í boði en að prófa handbolta,“ segir Perla. 

Þegar þau Örn höfðu verið saman í tvö ár fór Perla á sína fyrstu handboltaæfingu og þá var ekki aftur snúið. „Það reyndist mikið heillaskref því ég kolféll fyrir íþróttinni. Ég var 17 ára þegar ég byrjaði og eftir nokkra mánuði lék ég minn fyrsta leik í efstu deild. Fljótlega eftir það komst ég í unglingalandsliðið og þrem til fjórum árum síðar var ég svo valin í A landslið Íslands,“ rifjar Perla upp.

Örn og Perla ásamt syni sínum, Maroni Blæ, í veðurblíðunni.
Örn og Perla ásamt syni sínum, Maroni Blæ, í veðurblíðunni.

Var í virkri fæðingu í 23 klukkustundir

Perla segist hafa upplifað mikla gleði þegar hún komst að því að hún væri ófrísk enda hafði þeim dreymt lengi um að eignast barn. „Við vorum alltaf að reyna að finna „rétta tímann“ til þess að eignast barn út frá handboltanum, en svo þegar það kom loksins að því þá ríkti mikil hamingja,“ segir hún. 

Aðspurð segir Perla meðgönguna hafa gengið ágætlega en hún geti þó ekki sagt að sér hafi liðið frábærlega. „Ég var snemma komin með mjög stóra kúlu sem stækkaði bara og stækkaði, en ég var með mjög mikið legvatn og barnið stórt,“ útskýrir hún. 

Þegar Perla var gengin tvær vikur fram yfir settan dag fékk hún svo tíma í gangsetningu. „Ég tók töflurnar í þrjá daga en þær breyttu engu nema ég fékk meiri verki og samdrætti. Svo var belgurinn sprengdur og fæðingunni komið af stað, en ég var mjög fljótt komin með harða samdrætti,“ rifjar hún upp.

„Þetta var mikið áfall“

Perla var í virkri fæðingu í 23 klukkustundir og á meðan tók hjartsláttur barnsins endurteknar dýfur. „Ég var í miklum hríðum í átta klukkustundir þar til ég var skoðuð, en þá var ég ekki komin með nema þrjá cm í útvíkkun. Þegar 23 klukkustundir voru liðnar frá því að belgurinn var sprengdur var ég komin með 10 cm í útvíkkun en barnið hafði ekki færst neitt niður í grindina og var enn mjög ofarlega í leginu og réði ekki við lengri tíma í fæðingu,“ segir hún. 

Í kjölfarið var Perla send í keisaraskurð sem henni var tjáð að myndi fara fram í rólegheitunum. „Þegar þangað var komið virkaði deyfingin ekki og skyndilega hröpuðu lífsmörkin hjá barninu. Manninum mínum var hent fram og ég var svæfð í skyndi, en allt gerðist mjög hratt og þetta endaði í bjöllukeisara,“ segir Perla.

„Þetta var mikið áfall og erfiðar tilfinningar sem fylgdu þessu öllu þegar ég vaknaði ein og vissi ekkert. En ég fékk heilbrigðan og hraustan dreng í fangið fljótlega eftir það sem var fyrir öllu,“ bætir hún við.

Maron á ekki langt að sækja íþróttaáhugann, en hann hefur …
Maron á ekki langt að sækja íþróttaáhugann, en hann hefur verið duglegur að fara í sund frá sex vikna aldri.

Á 12 systkini

Perla kemur úr stórri fjölskyldu, en hún á 12 systkini og segir móðurhlutverkið því ekki hafa komið henni mikið á óvart. „Lífið breyttist gífurlega mikið eftir að ég varð mamma en það var ekkert sem kom mé rá óvart þannig séð þar sem ég hef alltaf verið mikið í kringum börn verandi í stórum systkinahóp,“ segir Perla.

Í uppeldinu leggja þau Örn mikla áherslu á örvun og hreyfingu, enda eru þau bæði mikið íþróttafólk. „Hann fer í sund daglega og hefur farið einu sinni eða tvisvar sinnum á dag frá því hann var sex vikna gamall,“ útskýrir Perla, en amma Marons er með ungbarnasund á Selfossi.

„Svo er hann að alast upp við að mamma hans spili handbolta og pabbi hans er handboltaþjálfari. Hann eyðir því tíma á hverjum degi uppi í íþróttahúsi og hrærist í kringum íþróttir, svo hann fær mikla hreyfingu,“ bætir hún við.

Gekk hátt í 10 km með vagninn

Sjö vikum eftir að Maron kom í heiminn fór Perla að æfa markvisst aftur, en hún byrjaði að gera æfingar með eigin líkamsþyngd og vann sig svo hægt og rólega upp frá því. „Ég fór mikið í göngutúra og gekk hátt í 10 km nokkrum sinnum í viku með vagninn þar sem barnið svaf á meðan ég fékk góða æfingu út úr göngunni,“ segir Perla.

Þegar Maron var 10 vikna byrjaði Perla að fara á handboltaæfingar sjálf þar sem hún prófaði sig áfram við að skokka, hoppa og kasta bolta. „Þremur mánuðum eftir fæðinguna, í byrjun ágúst, byrjaði ég svo að mæta á æfingar með Fram liðinu mínu og var með eins og ég gat. Frá ágúst og fram í desember vann ég mig svo rólega upp, fór að mæta oftar og vera með stærri hluta af æfingunum,“ segir Perla.

„Fyrstu mánuðina eftir að ég kom til baka á handboltaæfingarnar þá fann ég að ég gat ekki bara mætt og byrjað æfinguna strax heldur þurfti ég meiri undirbúning og upphitun. Ég þurfti til dæmis að virkja mjaðmirnar með æfingum til þess að komast hjá lífbeinsverkjum, þurfti að virkja kviðinn með æfingum og allskonar skemmtilegt,“ bætir hún við. 

„Í desember leið mér í fyrsta skipti eins og ég væri að nálgast „minn líkama“ og mína getu í handboltanum aftur, en svo fannst mér ég ekki vera orðin 100% inni á vellinum fyrr en seinna um vorið, tæpu ári eftir fæðingu. Þá fannst mér sprengikrafturinn, styrkurinn og úthaldið komið mestmegnis til baka,“ segir Perla.

Mæðginin saman inni í lyftingarsal. Perla segist hafa upplifað sig …
Mæðginin saman inni í lyftingarsal. Perla segist hafa upplifað sig aftur í 100% líkamlegu standi inni á vellinum rúmu ári eftir fæðingu.

„Var mjög líklega með óraunhæfar væntingar“

Perla segist hafa verið meðvituð um að hún þyrfti að leggja hart að sér til að komast í sitt „gamla handboltaform“ og var meira en tilbúin til þess, en það hafi hins vegar komið henni virkilega á óvart hve langan tíma það tók. 

„Mér finnst ég langoftast sjá íþróttakonur eiga „draumafæðingar“ og vera mættar aftur inn á völlinn í æfingar eða keppni nokkrum vikum eftir fæðingu. Það var alls ekki raunin hjá mér og mér fannst það virkilega erfitt andlega. Mér fannst erfitt að sætta mig við að ég hafi einfaldlega átt erfiðari meðgöngu og fæðingu, en ég þyngdist mjög mikið og var verkjuð á mörgum stöðum. Því þurfti ég, eðlilega, góðan tíma til þess að komast aftur í handboltastand,“ útskýrir Perla.

„Ég var mjög líklega með óraunhæfar væntingar því ég hélt bara að ef ég yrði dugleg að æfa og næra mig vel á meðgöngunni þá yrði ég fljót að koma til baka, en það var bara alls ekki staðan,“ segir hún. 

Aðspurð segir Perla mikilvægt fyrir mæður sem eru að koma sér aftur af stað í hreyfingu eftir fæðingu að vera með þolinmæðina að vopni. „Það tók níu mánuði fyrir líkamann að ganga með og svo fæða barn, eðlilega tekur það jafn langan eða lengri tíma að jafna sig. Það eru margir sem mikla það fyrir sér að stunda hreyfingu með nýfætt barn vegna tímaleysis, en það er til dæmis frábært að nýta göngutúrana sem æfingu,“ segir hún. 

„Orkan verður alltaf meiri við að hreyfa sig þó það hljómi eins og þversögn. Þótt svefninn sé lítill sem enginn þá mun góð næring og dagleg hreyfing skila mun meiri orku og vellíðan,“ útskýrir Perla og minnir á að góð næring sé nauðsynleg sama hvort barnið sé á brjósti eða ekki.

Perla starfar sem næringarþjálfari og leggur því mikla áherslu á …
Perla starfar sem næringarþjálfari og leggur því mikla áherslu á að næra sig vel, en hún segir afar mikilvægt fyrir mæður að huga að næringu sinni.

Bras að samtvinna handboltann og móðurhlutverkið

Perla viðurkennir að það hafi verið ansi mikið bras að samtvinna handboltann og móðurhlutverkið. Fjölskyldan er búsett á Selfossi, en þar sem hún spilaði með Fram í Reykjavík þurfti hún að keyra á milli til þess að fara á æfingar. 

„Við Örn erum bæði í 100% vinnu á daginn og svo er Örn líka handboltaþjálfari á Selfossi og því erum við bæði á æfingum seinni partinn. Það hefur því verið töluvert púsl að hafa alltaf pössun fyrir drenginn, en við erum ótrúlega heppin með fólkið í kringum okkur og höfum fengið mikla aðstoð frá þeim,“ segir Perla, en fjölskyldur þeirra beggja eru einnig búsettar á Selfossi.

Fyrstu mánuðina keyrði systir Perlu oft úr Reykjavík til að …
Fyrstu mánuðina keyrði systir Perlu oft úr Reykjavík til að vera með Maron á meðan Perla keyrði til Reykjavíkur til að æfa.

„Fyrstu tvö árin mín í Fram var ég barnlaus og það var ekkert mál að keyra á milli á þeim tíma, en eftir að Maron fæddist varð þetta hins vegar örlítið meira mál. Hann var á brjósti fyrstu 13 mánuðina og tók ekki pela svo við vorum mjög bundin hvort öðru, en þar að auki var hann mjög órólegur í bíl svo ég gat lítið keyrt með hann á æfingar,“ bætir hún við.

Perla segir síðastliðið ár hafa reynst sérstaklega krefjandi, en Maron byrjar ekki á leikskóla fyrr en næsta haust og því hafa þau Örn reynt að skiptast á að vera með Maron fyrripartinn á meðan hinn aðilinn vinnur. „Maron skilur mun meira núna og veit að ég er alltaf að fara á æfingar í langan tíma og er alls ekki alltaf sáttur við það,“ segir hún, en það tekur Perlu um fimm klukkustundir að keyra í bæinn, fara á æfingu og keyra aftur heim.

Þar sem Perla hefur nú skrifað undir á Selfossi fyrir komandi leiktíð hafa ferðalögin á og af æfingu orðið töluvert styttri, en að sögn Perlu hefur hana einmitt vantað örlítið fleiri klukkutíma í sólahringinn undanfarin tvö ár. Það er því margt spennandi framundan hjá fjölskyldunni sem er sannarlega með marga bolta á lofti.

Það er margt spennandi framundan hjá fjölskyldunni.
Það er margt spennandi framundan hjá fjölskyldunni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda