Póstkort sem lifnar við

Amsterdam er einstaklega falleg borg með sínum gömlu mjóu húsum, …
Amsterdam er einstaklega falleg borg með sínum gömlu mjóu húsum, sem hlykkjast meðfram síkjunum sem einkenna borgina mynd/thinkstock

Amsterdam er einstaklega sjarmerandi borg sem er kjörin fyrir huggulega helgarferð með maka eða vinum. Hún hefur margt upp á að bjóða í menningu og listum og þar þurfa ferðalangar ekki heldur að vera svangir. Hægt er að enda kvöldið með rómantískri göngu við einhver af fjölmörgum síkjum borgarinnar. 

Amsterdam er einstaklega falleg borg með sínum gömlu mjóu húsum, sem hlykkjast meðfram síkjunum sem einkenna borgina. Borgin er svo sjarmerandi að það er erfitt að losna við þá tilfinningu að maður hafi dottið inn í póstkort. Fyrir jólin endurspeglast jólaljósin í síkjunum, sem eykur bara enn á þessa tilfinningu.

Gullöld þá og nú

Amsterdam er samt miklu meira en þetta; hún er lifandi borg sem er stöðugt að taka breytingum og hefur mætt mörgum áskorunum eins og hröðum vexti ferðamanna. Ferðamönnum fjölgaði úr 10 milljónum árið 2012 í 17 milljónir árið 2015. Gullöld Amsterdam var kannski á 17. öld þegar borgin var miðstöð demantaverslunar en hún stendur sannarlega í blóma núna.

Mikil matarborg

Það er enginn skortur á veitingastöðum í borginni og endurspeglar úrvalið þá staðreynd að Holland var stórveldi og átti nýlendur um allan heim. Ferðamenn ættu ekki að missa af því tækifæri að borða á einum af fjölmörgum indónesískum veitingastöðum borgarinnar. Einnig er vel hægt að mæla með mat frá Súrinam þótt ekki megi gleyma hefðbundnu hollensku góðgæti á borð við litlar pönnukökur og sírópsvöfflur.

Borgin er ein af alþjóðlegustu borgum í heiminum en þar býr fólk frá að minnsta kosti 177 löndum.

Matarmarkaðir af ýmsu tagi hafa notið mikilla vinsælda síðustu ár …
Matarmarkaðir af ýmsu tagi hafa notið mikilla vinsælda síðustu ár og einn slíkan er að finna í Foodhallen. Mynd/Foodhallen

Matarmarkaðir af ýmsu tagi hafa notið mikilla vinsælda síðustu ár og einn slíkan er að finna í Foodhallen. Þetta er stemningsstaður þar sem hægt er að borða sig saddan af götumat frá ýmsum löndum. Innblásturinn kemur frá Torvehallerne í Kaupmannahöfn, Mercado de san Miguel í Madrid og Borough Market í London, fyrir þá sem þekkja til þar.

Fornmunir og fínar dragtir

Það er sannarlega auðvelt að versla í Amsterdam en á meðal stórra verslunargatna eru Kalverstraat og Leidsestraat en fínni búðir eru m.a. við P.C. Hooftstraat. Þeir sem vilja forðast stærri keðjur og ferðamannafjölda ættu að fara í hverfið Jordaan og líka svæði þar við sem er kallað Negen Straatjes eða „níu götur“. Þar eru sjálfstæðar búðir, smærri búðir með notuð föt og muni auk einhverra þekktari nafna. Stemningin þar er öllu rólegri.

Ekki má gleyma öllum mörkuðum borgarinnar eins og Albert Cuyp-markaðinum og Waterlooplein-markaðinum þar sem hægt er að kaupa allt milli himins og jarðar.

Í Amsterdam er upplagt að leigja sér hjól og skoða …
Í Amsterdam er upplagt að leigja sér hjól og skoða borgina á þann máta Mynd/Thinkstock

Göngutúrar og hjólaferðir

Borgin er einstaklega þéttbyggð þannig að það er hægt að sjá mikið á litlu svæði og auðvelt að ganga á milli margra staða. Ferðamenn ættu líka að vera duglegir að kanna svæði utan gamla miðbæjarins en góðir veitingastaðir eru um alla borgina.

Ferðafólk ætti líka að vera óhrætt við að hoppa upp í sporvagna til að spara sér sporin eða leigja sér hjól og ferðast um borgina eins og sannur Amsterdambúi.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka