Ferðalagaárið á Instagram

Ísland er á lista yfir 40 vinsælustu áfangastaðina á Instagram
Ísland er á lista yfir 40 vinsælustu áfangastaðina á Instagram mynd/flickr

Margir láta sig dreyma um að ferðast og fá til þess innblástur frá Instagram. Samfélagsmiðillinn er líka góður til þess að fylgjast með hvert fólk er í raun og veru að ferðast og eru sumir staðir meira áberandi en aðrir. Vefurinn Refinery29 fékk markaðsfyrirtækið Dash Hudson, sem sérhæfir sig í öllu sem viðkemur Instagram til þess að skoða ferðaárið sem er að líða og finna út hverjir voru 40 vinsælustu áfangastaðirnir á Instagram á árinu 2018. Niðurstöðurnar eru fengnar með því að skoða bæði þá staði sem fólk hefur merkt inn á myndir og líka lykilorð. Athygli vekur að Reykjavík er í áttunda sæti á þessum lista enda tekur vefurinn fram að svo virðist sem allir og amma þeirra hafi verið að ferðast um Portúgal og Ísland á árinu. Lissabon í Portúgal er í 25. sæti.

Áhugavert er að allar Norðurlandahöfuðborgirnar ná inn á listann, Osló er í 16. sæti, Kaupmannahöfn í 19., Stokkhólmur í 33. og loks Helsinki í 40. sæti.

Ekkert lát er á vinsældum New York.
Ekkert lát er á vinsældum New York. Mynd/Pexels

Sívinsælar og sígildar borgir eru á listanum eins og New York, London, París og Róm og það eru aðeins stórborgir sem komast ofar en Reykjavík en til viðbótar við þessar fjórar eru aðeins Toronto, Barcelona og Sydney ofar á listanum en höfuðborg Íslands. Allur listinn er birtur hér til hliðar.

Skugghliðin á ferðalögum á Instagram

Ljóst er að Instagram hjálpar til við að kynna nýja áfangastaði fyrir fleiri ferðalöngum og hefur þetta greinilega virkað vel fyrir Ísland. Á samfélagsmiðlinum fær fólk að kynnast nýrri menningu og löndum í gegnum augu annarra. Þetta getur auðvitað verið til góðs en líka getur verið hætta á því að of margir fari að sækja á staði þar sem land er viðkvæmt.

Útsýnið við Lake Delta í Grand Teton- þjóðgarðinum í Wyoming …
Útsýnið við Lake Delta í Grand Teton- þjóðgarðinum í Wyoming í Bandaríkjunum er ómótstæðilegt. mynd/wyominpublicmedia

Einn af þeim stöðum þar sem ferðamönnum fjölgaði mjög hratt eftir að áhrifavaldar á Instgram fóru að merkja staðsetninguna þar er vatnið Delta í Grand Teton-þjóðgarðinum í Wyoming í Bandaríkjunum. Að því er fram kemur í The New York Times bað ferðamannaráðið á svæðinu nýverið ferðamenn um að hætta að merkja staðsetninguna nákvæmlega inn á Instagram til þess að reyna að varðveita betur skógana og vötnin á svæðinu. Fyrir nokkrum árum lögðu aðeins einn eða tveir ferðamenn það á sig á dag að ganga upp að Delta-vatninu en þetta er um 15 km leið. Núna eru þetta um 145 manns á dag og eru margir til dæmis að taka trúlofunarmyndir. Mikil umferð er um áður óþekkta slóða á svæðinu og eru þeir að eyðast og þjóðgarðurinn hefur vart efni á að halda þeim við.

Víða er kvartað yfir ferðamönnum að taka sjálfur. Í Hong Kong hefur verið vinsælt að taka myndir við félagslegt húsnæði, í óþökk íbúa. Sólblómabóndi í Kanada þurfti nýlega að banna gesti eftir að ferðafólk olli skemmdum á engjum hjá honum. Ljóst er að gestir Louvre eyða meiri tíma í að mynda sjálfa sig við Monu Lisu en að skoða þetta þekkta málverk.

Hætta er á því að viðkvæmir staðir spillist þegar staðsetning er merkt inn á mynd. Til dæmis er fólk beðið um að merkja alls ekki nákvæma staðsetningu þegar það tekur myndir af nashyrningum í þjóðgörðum í Suður-Afríku því það geti hjálpað veiðiþjófum.

Mikið álag hefur verið á svæðinu í kringum Roys Peak við Wanaka-vatn á Nýja-Sjálandi. Það er þriggja tíma ganga á toppinn sem verðlaunar fólk með frábærri fjallasýn. Fyrir lok árs munu um 73 þúsund manns hafa gengið þessa leið, sem er 12% meira en árið áður.

Þetta er ekki ólík þróun og sú sem hefur verið hér á Íslandi og deila Nýsjálendingar ýmsum áhyggjum með Íslendingum. Gilbert Van Reenen, landslagsljósmyndari frá svæðinu, sagði í samtali við Guardian að myndirnar sem birtust á Instagram með merkinu #royspeak segðu ekki sannleikann. Ferðamenn væru að taka áhættu og stefna lífríkinu í hættu, aðeins til þess að ná hinni fullkomnu sjálfu. Roys Peak er með fimm stjörnu einkunn á TripAdvisor og þar ráðleggja sumir ferðalangar fólki að leggja af stað klukkan þrjú um nótt til að reyna að sleppa við mestu umferðina.

Sveitarfélagið stækkaði bílastæðið við tindinn á síðasta ári og setti upp salerni, til þess að ná stjórn á fjöldanum, en fólk frá svæðinu segir að það hafi aðeins hvatt fleiri til að koma.

Instagram virðist komið til að vera en áskorunin fyrir komandi ár er að dreifa álaginu og passa upp á að fólk stefni ekki sjálfum sér eða viðkomandi stöðum í hættu við myndatökuna.

40 vinsælustu áfangastaðirnir á Instagram

1. New York, Bandaríkjunum

2. Toronto, Kanada

3. London, Bretlandi

4. París, Frakklandi

5. Róm, Ítalíu

6. Barcelona, Spáni

7. Sydney, Ástralíu

8. Reykjavík, Íslandi

9. Berlín, Þýskalandi

10. Tulum, Mexíkó

11. Amsterdam, Hollandi

12. Santorini, Grikklandi

13. Honolulu, Bandaríkjunum

14. Balí, Indónesíu

15. Dúbaí, Sameinuðu arabísku furstadæmunum

16. Osló, Noregi

17. Vín, Austurríki

18. Bangkok, Taílandi

19. Kaupmannahöfn, Danmörku

20. Hanoí, Víetnam

21. Mumbai, Indlandi

22. Singapúr

23. Kýótó, Japan

24. Maldívur

25. Lissabon, Portúgal

26. Zürich, Sviss

27. Hong Kong

28. Búdapest, Ungverjalandi

29. Cartagena, Kólumbíu

30. Sjanghæ, Kína

31. Moskva, Rússlandi

32. Dubrovnik, Króatíu

33. Stokkhólmur, Svíþjóð

34. Prag, Tékklandi

35. Dublin, Írlandi

36. Luang Prabang, Laos

37. Marrakesh, Marokkó

38. Istanbúl, Tyrklandi

39. Höfðaborg, Suður-Afríku

40. Helsinki, Finnlandi

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert