Lagahöfundurinn Alma Goodman hefur búið í Los Angeles undanfarin átta ár og er búin að koma sér vel fyrir í miðri Hollywood. Hún segir ómissandi fyrir þá sem eru að heimsækja borgina í fyrsta skipti að fara á ströndina hvort sem það er Santa Monica, Venice eða Malibu.
„Það er líka gaman að keyra Mulholland Drive og fara upp að Hollywood skiltinu til að njóta útsýnisins. Einnig er gaman að fara í Beverly Hills og rölta um Rodeo Drive. The Getty Villa, Huntington Gardens og The Grove eru líka allt skemmtilegir staðir.“ Alma segir það besta við borgina sé hvað það er sífellt nóg við að vera og hvetur ferðalanga til að skoða hvaða uppistönd, tónleikar eða íþróttaviðburðir séu í gangi hverju sinni. „Það er til dæmis mjög gaman að fara á Los Angeles Lakers-körfuboltaleik og sjá LeBron spila.“
Sjálf byrjar Alma daginn á því að skella sér í jóga en það vill svo vel til að Wanderlust-jógastúdíóið er staðsett a næsta horni við heimilið hennar.
„Það er geggjað að geta bara rúllað út úr rúminu og vera komin í tíma nokkrum mínútum seinna, ég get ekki hugsað mér betri leið til að byrja daginn. Ég mæli eindregið með því og svo er Wanderlust Café þar inni líka mjög notalegur staður.“
Eftir góðan jógatíma er komið að því að kljást við daginn og ekki síst umferðina í borginni. „LA er rosalega mikil bílaborg því almenningssamgöngur eru því miður ekki jafngóðar og t.d. í NY eða London. En það er frábært hvað það er auðvelt að komast á milli staða með Uber eða Lyft fyrir þá sem eru ekki á bíl. Það er bæði fljótlegra, ódýrara og öruggara en að taka leigubíl. Ég vona innilega að þessi þjónusta verði í boði á Íslandi sem fyrst og einokunin á leigubílamarkaði hætti,“ segir Alma og bætir við að nýlega hafi svo bæst við annar spennandi ferðakostur sem sé algjör snilld í góða veðrinu en það séu rafknúin hlaupahjól sem heita Bird og Lime.
Aðspurð hvernig draumadagurinn í borginni líti út segir Alma það vera svo mikið framboð að erfitt sé að koma því fyrir á einum degi. „Ætli það væri ekki að byrja daginn á að fara í göngu, til dæmis í Runyon Canyon og njóta góða veðursins. Næst myndi ég kíkja á Farmers Market og kaupa ferska ávexti, blóm og osta og fara í svo í mimosa brunch með vinum. Síðan er mjög gaman að fara niður á strönd, t.d. í Venice, rölta um á Abbot Kinney, kíkja í búðir og fara í sólbað. Enda síðan daginn með góðri máltíð, helst á rooftop-veitingastað með góðu útsýni yfir borgina eins og til dæmis á Waldorf Astoria-hótelinu.“
Alma á sér marga eftirlætisveitingastaði í borginni og nefnir til að mynda The District By Hanna An og Catch sem fínni kosti. Hún segir að í borginni sé mikil menning fyrir dögurði eða bröns og þá sé Joan's On Third sá allra besti. Aðrir staðir sem hún fer reglulega á eru svo Yuko Kitchen , Sushi Stop, Veggie Grill og Eataly. Fyrir þá sem eru í kaffihúsahugleiðingum segir Alma Elderberries Café vera mjög krúttlegt vegan kaffihús sem bjóði bæði upp á góðan mat og drykk og einnig Javista en þar sé það hemp latte með agave sem standi upp úr.
Ansi mikið er fram undan hjá okkar konu í Los Angeles og virðist ekkert bera á því að hún sé á heimleið enda með mörg lög í vinnslu sem koma út á árinu. Fyrir þá sem vilja fylgjast með Ölmu er bent á Instagram-síðu hennar @almagood