Virkisborgin Essouria er ævintýralega falleg og er á vesturströnd Marokkós við Atlantshafið. Hún er þekkt sem borg vindanna og vinsæl meðal brimbrettafólks. Borgin er mun rólegri og afslappaðri en hin fágaðri Marrakesh sem er í þriggja tíma akstursfjarlægð.
Heimamenn í Essouria (borið fram Esvíra) njóta þess að segja frá því þegar Jimi Hendrix dvaldi í borginni á sjöunda áratugnum. Þar er meira að segja að finna kaffihús nefnt eftir rokkgoðinu og bæjarbúar halda því fram að lagið Castles made of sand sé innblásið af varðturninum Borj El-Berod. Það var ekki hægt að stíga inn í leigubíl eða á kaffihús í Essouria án þess að heyra fólk stæra sig af Jimi Hendrix. Sögum ber þó ekki saman um hversu lengi hann dvaldi þar. Eftir dálitla eftirgrennslan virðist hann aðeins hafa heimsótt Essouria einu sinni, árið 1969. Andi hippaáranna loðir engu að síður við þennan ævintýralega litla bæ við Atlantshafið. Essouria var vinsæll áfangastaður á tímum andlegrar vakningar, frjálsra ásta og auðvitað hasspípunnar. Cat Stevens, Bob Dylan, Rolling Stones og Frank Zappa voru allir gestir borgarinnar og má sjá plaköt og myndir af þeim víðsvegar um göturnar.
Ég heimsótti Essouria í lok sumars á ferðalagi um Marokkó og dvaldi þar í nokkra daga. Marokkó er stórt land og það þyrfti helst að fara í margar og langar ferðir þangað til að ná að upplifa alla töfra þess. Marrakesh, borgin rauða, er ævintýraleg, glæsileg og ómissandi viðkomustaður, en hún getur jafnframt verið þreytandi sökum mannmergðar, áreitis og mikils hita, að minnsta kosti að sumri til.
Essouria, sem er í þriggja tíma ökufjarlægð frá Marrakesh, einkennist af bláum lit frekar en hinum rauða og er eins og ferskur andblær. Essouria er þekkt sem vindaborgin mikla því það er stöðugur vindur í borginni, stundum of mikill, segja heimamenn. En undir lok ágústmánaðar í þurrum hita Norður-Afríku var vindgusturinn kærkominn og hitastigið í Essouria þægilegt og ávallt um tíu gráðum svalara en í Marrakesh.
Þegar gengið er inn um virkishlið Essouria inn í hið svokallaða medina (en það er orð yfir gamla miðbæinn í marokkóskum borgum) er eins og maður fari inn í tímavél. Göturnar eru svo þröngar að bílar komast ekki þangað inn fyrir, sölubásar eru alls staðar sem augað eygir, og það er ys og þys og fólk úti um allt og sætur ilmur af kryddi blandast sjávarangan. Mávar svífa um yfir virkinu og klettunum þar sem kraftmiklar öldurnar brotna. Til að auka á þennan ævintýralega blæ glymur svo bænakallið úr moskunum fimm sinnum á dag yfir borgina, líkt og í öðrum borgum þessa lands.
Essouria er umkringd virkismúrum. Nafn borgarinnar þýðir „litla virkið“ á arabísku og fögur er hún sem málverk. Blá og hvít húsin, höfnin og fagurbláir fiskibátarnir, hafið og sandlitir virkismúrarnir og hlíðin, „Babs“ eins og þau eru kölluð, skreytt með ýmsum táknum úr múslimatrú og gyðingatrú en það er stórt gyðingahverfi í borginni. Frá norðurhliðinu, Bab Doukkala, gengur maður inn á aðaltorgið Place Moulay Hassan og þaðan fikrar maður sig inn í völundarhús af götum inni í medina. Það er þó ekki eins erfitt að rata og maður heldur í fyrstu, en ég myndi þó vara ferðalanga við að þröngu göturnar breytast ört í útliti eftir að sölumenn taka niður básana á kvöldin og því gott að leggja smáatriði á minnið svo maður rati örugglega heim! Hér eru kettir jafnmargir og fólkið, fallegir, græneygðir og eyrnastórir hreiðra þeir um sig á götuhornum, á húsþökum, í búðum, veitingahúsum og sérstaklega á fiskmarkaðnum við höfnina.
Fornleifar hafa sýnt að borgin hefur verið byggð allt frá steinöld og á fyrstu öld fyrir krist lét berbakonungurinn Juba annar setja upp litaverksmiðju sem framleiddi fjólubláa liti úr skeljum. Portúgalar byggðu hér Mogador-virkið á sextándu öld og Frakkar reyndu að nema hér land á þeirri sautjándu. Það var hins vegar á átjándu öld sem virkið í sinni núverandi mynd var reist, en það var marokkóski konungurinn Múhameð þriðji sem sá sér færi á að byggja hafnarborg nálægt Marrakesh, sem yrði ómögulegt að ráðast inn í vegna staðsetningar hennar. Hann fékk franskan arkitekt til verksins, Théodore Cornut, sem er sami maður og hannaði virkið í franska bænum St. Malot en það má sjá mikinn svip með umgjörð þessara borga þótt loftslag og andrúmsloft sé gjörólíkt.
Miðbær Essouria kann að vera eins og ævintýri úr Þúsund og einni nótt en þar er samt að finna fjölda frábærra gistiheimila eða „riads“ og skemmtilega veitingastaði, bæði nútímalega og hefðbundna. Gönguferð um virkisveggina er heillandi og einnig er gaman að skoða höfnina og fá sér grillað sjávarmeti á litlum básum þar í hádeginu. Bæjarbúar eru einstaklega vinalegir og almennilegir og vilja allt fyrir mann gera, sérstaklega ef maður reynir að tala frönsku. En sumir vilja líka selja manni fullt af varningi. Ef enginn áhugi er á slíku er best að brosa bara og vera kurteis en ákveðinn og segja nei takk. Almennt mæta ferðamenn hér mikilli vinsemd og alúð.
Heimamenn ganga oftast í mjög hefðbundnum fötum og konur með slæðu en það er litið afslöppuðum augum á ferðamenn og ekki tvisvar á konu í sumarkjól eða stuttbuxum. Þó er gott að vera með sjal við höndina þegar vindurinn byrjar að blása, bæði vegna sandagna í loftinu og vegna þess að það getur kólnað ansi snögglega á kvöldin.
Meðal þess sem er gaman að festa kaup á inni í medina eru skartgripir úr silfri, teppi, leðurfatnaður og skótau og gripir úr ilmandi Thuya-við. Einnig er hægt að kaupa sér argan-olíu en það eru argan-skógar allt í kringum borgina. Argan-olían er í hávegum höfð í Marokkó og er bæði notuð til eldamennsku og á húð og hár. Á leiðinni milli Marrakesh og Essouria má sjá furðulega sjón þegar geitur klifra upp í tré rétt við þjóðveginn til að gæða sér á argan-hnetum, sem er víst þeirra uppáhaldsmatur.
Essouria er fræg brimbrettaborg og brimbrettakappar flykkjast þangað á sumrin. Ströndin við borgina er falleg og fullkomin til sólbaða en getur verið vindasöm og öldurnar stórar fyrir venjulegar sundferðir. Aðrar strandir í nágrenni við borgina eru Diabat og í smábænum Sidi Kaoki (í hálftíma fjarlægð) en báðar eru mjög vinsælar til brimbrettaiðkunar. Þar er einnig að finna skemmtilega veitingastaði og kaffihús við sjóinn. Sandöldurnar við sjóinn í Essouria og Diabat eru líka fullkomnar fyrir ferð á hest- eða úlfaldabaki, sérstaklega í lok dags þegar sólin er að setjast og kastar bleikri birtu á fagurt og tært hafið við þessa töfrandi sanda Norður-Afríku.
ÚT AÐ BORÐA
Taros (Place Moulay al Hassan) er líflegur og skemmtilegur bar og veitingastaður á nokkrum
hæðum. Hann er opinn allan daginn en er fullkominn um sólsetursbil til að njóta kokkteila
eða ískalds bjórs. Oft spila hljómsveitir eða plötusnúðar á kvöldin.
La Table by Madada (7 rue Youssef El Fassi) er einn glæsilegasti veitingastaðurinn í Essouria og er sóttur af hipp og kúl Marokkóbúum. Innréttingarnar eru fagrar og fágaðar og staðurinn líflegur og oftast troðfullur þannig að það er best að bóka borð fyrirfram. Matseðillinn er stútfullur af hinu frábæra sjávarfangi sem Essouria er þekkt fyrir og blandar marokkóskum og miðjarðarhafshefðum saman.
Dar Maya er dásamlegur leynistaður inni í gyðingahverfiu í Medina. Á bak við litla hurð ámilli sölubása gengur maður inn á hljóðlátt og fágað riad (hefðbundið marokkóskt gistheimili) sem býður upp á fimm svítur með baðherbergjum, setustofur og útisvæði á þakinu þar sem er hægt að njóta morgunmatar og drykkja með stórfenglegu útsýni yfir þökin á