Barselóna að hætti Mörtu Rúnar

Marta Rúna og Arnór búa miðsvæðis í Barcelona þar sem …
Marta Rúna og Arnór búa miðsvæðis í Barcelona þar sem er mikið líf. Ljósmynd/Aðsend

Marta Rún Ársælsdóttir ætlaði upphaflega að prófa það að búa í Barselóna í eitt ár þegar Arnóri Eyvari Ólafssyni, sambýlismanni hennar, bauðst gott starf þar ytra. Núna rúmum tveimur árum síðar segir hún ekkert ákveðið hvenær þau snúi heim enda fari afskaplega vel um þau í borginni. „Ég bý mjög miðsvæðis í Barselóna í hverfi sem kallast Eixample. Við erum bara tvö og völdum því hverfi sem hefur mikið líf, stutt í frábæra veitingastaði og í raun stutt á alla helstu staði gangandi eða með lest,“ segir Marta sem hefur í nógu að snúast en auk þess að standa í ströngu við að ljúka BA-ritgerð í miðlun og almannatengslum frá Háskólanum á Bifröst heldur hún úti vinsælu matarbloggi á Trendnet.

Marta Rún elskar að ganga um borgina og njóta fegurðarinnar.
Marta Rún elskar að ganga um borgina og njóta fegurðarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Marta segist fara ferða sinna að mestu gangandi og njóta þannig borgarinnar og ferska loftsins. „Ráð sem fyrrverandi prófessor, er ég hafði í New York, kenndi mér var að fólk á of oft til að flýta sér með straumnum þegar kemur að því að labba um stórborgir og gleymir að horfa í kringum sig á fólkið, byggingar og hluti sem eru að gerast þannig að ég nýt þess að labba og horfa og njóta.“

Hver er eftirlætis veitingastaðurinn þinn?

Það er mér ótrúlega erfitt að velja einn uppáhaldsveitingastað því þeir eru svo margir. Einn staður sem við förum alltaf aftur og aftur á er tapas-staðurinn Vinitus sem býður upp á ferska rétti dagsins á hverjum degi ásamt klassískum tapas á matseðli.

Eftirlætissafn?

Í Barselóna getur þú farið á alls konar söfn. Það er mjög stórt og þekkt Picasso-safn í Born-hverfinu. Það er hægt að fara inn í þekktustu byggingar Gaudí og það er hægt að taka lest á Salvador Dali-safnið

Eftirlætis kaffihús?

Það kaffihús sem ég nýt mín best að setjast niður og njóta er Café Jaime Beriestein. Það er innanhúsarkitekt sem rekur þennan ótrúlega fallega veitingastað og kaffihús. Svo rekur hann litla lífstílsbúð sem hægt er að labba inn í af veitingastaðnum og kaupa meðal annars alla þá fallegu hluti sem eru inni á veitingastaðnum.

Marta Rún ásamt vinkonum sínum í vínsmökkun.
Marta Rún ásamt vinkonum sínum í vínsmökkun. Ljósmynd/Aðsend

Draumadagur í borginni?

Vakna snemma og byrja daginn á góðum morgunmat og kaffi. Labba um og skoða þær frægu byggingar sem borgin hefur upp á að bjóða og mögulega kíkja í verslanir sem þig langar að fara í. Spánverjar borða seint þannig að veitingastaðir í hádeginu eru ekki almennilega byrjaðir fyrr en um 2 leytið. Fara svo seinni partinn í El Born-hverfið sem er eitt elsta hverfi Barcelona og með mörgum litlum þröngum götum með æðislegum litlum verslunum, vínbörum og veitingastöðum. Ef veðrið er gott þá að setjast niður á flottan roof top bar með útsýni yfir borgina og slappa af. Kvöldmatur hér er síðan ekki fyrr en um 9 leytið og þá er málið að fara í einhvern góðan spænskan tapas sem er ekki of túristalegur.

Hver er þín líkamsrækt?

Ég er heppin að eiga spænska vinkonu sem er líkamsræktarfélaginn minn. Við förum saman í ræktina á morgnana og þegar veðrið er gott tökum við jafnvel létt skokk niður á strönd og til baka.

Hvað er ómissandi að sjá?

Mér þykir alltaf jafn skrýtið að heyra að fólk fari til Barcelona og skoði ekki kirkjuna Sagrada Família. Þetta meistaraverk Antoni Gaudí er ein þekktasta bygging heims en fjöldann allan af fallegum byggingum eftir hann má sjá um borgina. Það sem ég hef líka alltaf verið að mæla með við fólk er að taka stutta lestarferð úr miðborginni og koma við í fallegu vínhéruðunum í kring, fara í heimsókn um vínekru og smökkun.

Hvað er að gerast í borginni á næstunni?

Ég fæ ótal fyrirspurnir um hvað eigi að gera, hvað eigi að sjá, borða og hugmyndir að ferðum fyrir fólk. Í sumar ætla ég mér að hjálpa hópum, vinkonum, vinum eða hvað eina að skipuleggja þeirra draumaferð til Barselóna. Hvort sem markmiðið sé að versla og borða góðan mat eða fara í dagsferðir um vínekrur með mig sem fararstjóra. Læra allt um sögu tapas og/eða að elda þá eða nokkurra daga ferðir um strandbæi nálægt borginni til að slappa af í paradís. Hægt er að senda mér tölvupóst á netfangið martarun@trendnet.is fyrir frekari upplýsingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert