„Vetrarfrí fjölskyldunnar er verkefni sem er tilkomið vegna þess að við vildum draga fram fjölbreytta möguleika sem fjölskyldan getur gert saman í vetrarfríinu á Suðurlandi, fá fjölskyldur til þess að koma og vera á Suðurlandi í vetrarfríinu. Það þarf ekki alltaf að fara langar leiðir til þess að komast í skemmtilega afþreyingu eða magnaða upplifun,“ segir Anna V. Sigurðardóttir, verkefnastjóri hjá Markaðsstofu Suðurlands.
Verkefnið fór af stað síðastliðið haust og var unnið í samstarfi við faghóp sveitarfélaga um ferðamál á Suðurlandi. Markmið verkefnisins er að draga fram fjölbreytta möguleika sem fjölskyldan geta gert saman á Suðurlandi í vetrarfríinu. Það þarf ekki alltaf að fara langar leiðir til þess að komast í skemmtilega afþreyingu eða magnaða upplifun.
„Suðurland er sannarlega ekki síður fyrir Íslendinga en erlenda ferðamenn, hér er hátt þjónustustig og fjölbreyttir möguleikar í afþreyingu fyrir alla fjölskylduna hvort sem fólk vill fara í dagsferðir eða lengri ferðir,“ segir Anna
Suðurland er einstakur áfangastaður og hefur í raun og veru allt sem Ísland hefur upp á að bjóða, s.s. fossa, fjöll, jökla, eyðisanda, jarðhitann og hraunið auðvitað. Síðan má ekki gleyma mólendinu, sjálfsprottnum birkiskógum og öðrum skógum þar sem kjörið er að njóta útivistar. Á Suðurlandi er gott aðgengi, stutt í náttúruperlur og ótrúlega margt í boði á litlu svæði, allt frá hálendi niður að sjó.
Suðurland býður upp á spennandi upplifun og ævintýralega skemmtun fyrir alla fjölskylduna í vetrarfríinu. Úr mörgu er að velja í afþreyingu hvort sem það er gönguferð um sögustaði, skóga eða svartar fjörur, hestaferð með heimafólki, fræðsla í gróðurhúsi, jöklaferðir, hellaferðir eða heimsókn í sundlaugar á svæðinu. Söfnin eru fjölmörg og víða áhugaverðar sýningar í boði fyrir alla fjölskylduna. Það má með sanni segja að Suðurland sé ævintýrakista sem geymir ógleymanlega upplifun hvort sem farið er í, ævintýraferð um Kötlu jarðvang sem endar með heimsókn á ævintýraeyjuna í suðri eða spennandi ferð inn í ævintýraríkið undir Vatnajökli þar sem hægt er að skoða stærsta jökul Evrópu og fjölbreytt dýralíf.
Á vestursvæðinu er síðan hægt að fara í ævintýralegar hringferðir um allt svæðið, Gullna hringinn þekkja allir en hann er stærri en margur heldur og möguleikar á fjölbreyttum hringleiðum margir.
Fjölbreytt úrval er af veitingum og gistingu á Suðurlandi. Góðir veitingastaðir eru um allt svæðið þar sem víða er lögð mikil áhersla á að bjóða afurðir af svæðinu og nýta matvæli úr heimabyggð. Gisting er fjölbreytt og auðvelt er að finna gistingu fyrir alla fjölskylduna s.s. íbúðir, gistihús, bændagistingu, hótel o.fl.
Með því að ferðast um heimabyggð styrkjum við þjónustu og afþreyingu sem er í boði á okkar svæði og stuðlum að því að sú þjónusta verði áfram í boði bæði fyrir heimamenn og gesti. Jákvæð áhrif ferðaþjónustunnar birtast m.a. á Suðurlandi með því að núna er hægt að fara á fjölda framúrskarandi veitinga- og kaffihúsa og upplifa fjölbreytta afþreyingu vegna þess að með tilkomu ferðamanna til landsins er orðið möguleiki að reka þessa þjónustu. Heimamenn njóta síðan góðs af og er kjörið tækifæri núna þegar vetrarfríin byrja að nýta sér þessa þjónustu og njóta upplifunar í heimabyggð.
Anna segir að gott sé að skipuleggja ferðalagið vel þegar ferðast er að vetri til hvort sem hugað er að gistingu, veitingum eða afþreyingu. Með því er hægt að tryggja að upplifunin af ferðinni sé sem allra best. „Ferðaþjónustuaðilar verða með ýmis tilboð með sérstakri áherslu á fjölskylduna í vetrarfríinu, nánari upplýsingar um tilboðin og hugmyndir að því sem fjölskyldan getur notið og gert saman á Suðurlandi er á heimasíðu Markaðsstofu Suðurlands.