Lifa í skipulagðri óvissu

Brynja nýtur þess að ferðast á nýjar slóðir ásamt Þórhalli …
Brynja nýtur þess að ferðast á nýjar slóðir ásamt Þórhalli Gunnarssyni, eiginmanni sínum. Ljósmynd/Aðsend

Fyrrverandi flugfreyjan Brynja Nordquist og eiginmaður hennar framleiðandinn Þórhallur Gunnarsson hafa alltaf haft áhuga á því að ferðast. Þau eru orðin vinsælir áhrifavaldar þegar kemur að ferðalögum, enda deila þau einstakri upplifun á hverjum áfangastað. 

Við höfum alltaf haft áhuga á að ferðast og verið nokkuð dugleg við það í gegnum tíðina. Við ferðumst með mismunandi tilgangi. Það fer eftir því hvert við erum að fara hverju sinni og með hverjum við erum.

Við förum oft til Stokkhólms og þá að heimsækja barnabörnin. Þar þykir okkur skemmtilegast að upplifa eitthvað með krökkunum. Að fara í skemmtigarða með þeim, á söfn, skoða borgina eða hreinlega að leika okkur með þeim.“

Golfferðir með vinum heilla

Brynja og Þórhallur fara líka með góðum vinum í golfferðir. „Þá snýst skipulag ferðarinnar að mestu leyti um golfvellina og hvar við ætlum að borða á kvöldin. Sem er frekar einfalt og skemmtilegt.“

Þegar þau ferðast tvö saman þá vilja þau vera eins óskipulögð og mögulegt er eins og þau segja sjálf frá.

„Við viljum flakka um staðina sem við erum á, helst á bíl og skoða sem mest. Þetta verður því meira í ætt við lestarferðirnar þegar maður hoppaði á milli borga með pokann á bakinu. Okkur finnst núorðið meira gaman að vera ekki lengur en tvo til þrjá daga á hverjum stað. Þá tökum við oftar óvæntar ákvarðanir og gerum nákvæmlega það sem okkur langar hverju sinni. Við fáum hugmyndir þegar við komum á staðinn og spyrjum innfædda hvað þau haldi að sé áhugaverðast og þaðan koma oftast frumlegustu hugmyndirnar.“

Ferðalög snúast um fólkið

Þau segja að með þessu móti nái þau að mynda betra samband við alls konar fólk, þó að það sé einungis í stuttan tíma hverju sinni.

Þau eru sammála um að ferðalög snúist ekki einvörðungu um staðina heldur einnig fólkið sem býr á þessum stöðum.

„Við erum svo heppin að vera bæði félagslynd og höfum einlægan áhuga bæði á að hitta nýtt fólk. Ætli best væri ekki að segja að við séum bæði forvitin og það sé ástæðan fyrir því að við löðumst að ólíku fólki í hinum ýmsu aðstæðum,“ segir Þórhallur.

Brynja segir að áhugi þeirra á ljósmyndun sé grunnurinn að því að þau fóru af stað með Instagram-síðu sem hægt er að finna undir myllumerkinu: #twoofus.iceland.

„Með þessu verður hvatningin meiri að fara víða og finna áhugavert myndefni.“

Það er eitthvað heillandi við óvissuna

Brynja og Þórhallur fóru í skemmtilegt samstarf við Úrval-Útsýn í haust.

„Við báðum þau um að setja saman tveggja vikna ferðalag og halda öllu leyndu fyrir okkur. Eina sem við vissum var að fyrstu nóttina myndum við dvelja í Alicante á Spáni. Síðan var framhaldið í þeirra höndum.“

Ferðinni var þannig háttað að á tveggja til þriggja daga fresti fengu þau síðan afhent bréf frá ferðaskrifstofunni sem sagði þeim hver næsti áfangastaðurinn yrði.

„Þá héldum við þangað með allskyns útúrdúrum á leiðinni því við vildum stoppa í hverjum bæ eða þorpi og skoða okkur um eða bara fá okkur kaffibolla og sjá mannlífið.“

Þau eru bæði sammála um að þegar ferðamátinn er á þennan veg, án tímapressu og streitu, þá eru meiri líkur á að upplifa eitthvað alveg nýtt.

„Forsendurnar fyrir því að upplifa eitthvað alveg nýtt eru ekki endilega að fara á mjög framandi staði. Við erum á því að það geti verið framandi að leita uppi allt það sem áfangastaðurinn hefur upp á að bjóða.“

Brynja og Þórhallur eru bæði félagslynd og hafa einlægan áhuga …
Brynja og Þórhallur eru bæði félagslynd og hafa einlægan áhuga á því að kynnast nýju fólki. Ljósmynd/Aðsend

Forvitnin kemur okkur langt

Hvort sem maður er í Kenía eða á Kanarí þá getur margt komið á óvart ef marka má Brynju og Þórhall.

„Ef þú ert svolítið forvitin, blandar geði við infædda og nennir að þvælast svolítið um.“

Þau eru bæði orkumikil og segja að þau nenni hvorugt að sitja við sama sundlaugarbakkann lengi.

„Þess vegna búum við til ferðalag hvers dags sem við skipuleggjum kvöldið áður.

Við erum jafnvel að gæla við að fara til Kanarí í mars og þá munum við klárlega ferðast um alla eyjuna í stað þess að dvelja allan tímann á sama staðnum.

Hvaða varðar næstu ferðalög þá langar okkur að fara í gegnum Þýskaland og til Austurríkis eða keyra um Frakkland og Ítalíu. Við erum enn þá að skipuleggja þetta og svo kemur líka Króatía til greina sem er einstaklega fallegt land.“

Eigið land kemur á óvart

En það eru fleiri staðir sem heilla þetta áhugaverða par. „Austur-Evrópa er líka á óskalistanum og mögulega verður það Asía eða Suður-Ameríka á næsta ári. Við sjáum hvert tíminn og hugmyndirnar færa okkur.“

Brynja segir að þar sem þau séu orðin svona miklir ferðalangar þá langi þau ekki síður að ferðast meira um Ísland.

„Við slógumst í för með hundruðum útlendinga um daginn og fórum í Friðheima og svo á Gullfoss og Geysi. Það var virkilega skemmtilegt og mjög skiljanlegt að útlendingar fari á þessa fallegu staði. Við fórum síðan á Laugarvatn og Þingvelli og í vikunni þar á eftir fórum við í ferðalag um Reykjanesið þar sem náttúrufegurðin er hreint mögnuð.“

Það kemur þeim báðum á óvart hversu gaman er að ferðast um eigið land, eins undarlega og það hljómar, segja þau.

„Við setjum okkur í þann gír að nálgast þetta eins og hver annar ferðamaður, gefum okkur tíma að skoða og taka myndir. Við eigum pottþétt eftir að fara fljótlega vestur á Snæfellsnes og á Vestfirðina. Við fórum í skemmtilega ferð fyrir tveimur árum um Norðurland og Austfirðina og langar að fara í sambærilegt ferðalag í sumar og gefa okkur þá betri tíma í að staldra við á ákveðnum stöðum.“

Ferðast oft en stutt í hvert skipti

Þau segjast vilja nýta vetrartímann í helgarferðalög innanlands, fara oftar en dvelja skammt í hvert skipti.

„Helgarferð til Ísafjarðar, Stykkishólms, Akureyrar eða Hornafjarðar er alveg jafn innihaldsrík og ferðalag til borgar í Evrópu enda mikið af afþreyingu og margt að sjá á öllum þessum svæðum.

Við förum sjaldnast til útlanda yfir hásumarið. Þá viljum við vera á Íslandi, í sumarbústaðnum okkar eða ferðast um landið.“

Uppáhaldsborgir þeirra eru London, New York og Stokkhólmur.

„Við þekkjum þessar borgir vel og finnst við alltaf uppgötva eitthvað nýtt í hvert skipti sem við komum þangað.

Í þessum borgum er einstaklega litskrúðugt mannlíf þar sem menningarheimar margra þjóða mætast. Svo eru þar frábær söfn, flott leikhús, alls kyns sýningar og fjölbreyttir veitingastaðir. Þótt þetta teljist vera dýrar borgir þá er auðvelt að finna leiðir til þess að njóta þeirra án þess að það kosti mann handlegginn eða fótinn.“

Hvorugt þeirra segist hafa komið til Rómar, en þau langar þangað og einnig til Sikileyjar.

Brynja er búin að ferðast til ansi margra borga í flestum heimsálfum í starfi sínu sem flugfreyja og við tískusýningarstörf. Hún dvaldi meðal annars í Alsír, Kúbu, Japan, Marokkó og Mexíkó svo eitthvað sé nefnt. Allir þessir staðir búa yfir einhverju sérstöku að hennar mati. „En aftur er það helst fólkið sem heillar mann á þessum stöðum segir hún.“

Hætt að ferðast með dót á milli landa

Þegar kemur að nýjum hlutum sem þau eru að gera taka þau eins lítinn farangur og mögulegt er og kaupa helst ekkert sem flytja þarf á milli landa.

„Áður vorum við að burðast með hálffullar ferðatöskur til útlanda og komum með þær troðfullar til baka. Nú erum við hætt þessu og fyrir vikið verður ferðamátinn þægilegri og ódýrari.

Þetta er allt partur af þeirri hugmyndafræði að kaupa minna af dóti og nýta peningana frekar í upplifun. Við búum í litlu timburhúsi í miðbænum sem við viljum ekki fylla frekar og leitumst frekar við að losa okkur við alls kyns dót sem hefur safnast upp í gegnum tíðina.

Við viljum nýta peningana okkar í að kaupa upplifun hvort sem um er að ræða leikhús, bækur, bíó, tónleika eða ferðalög. Þetta hefur gefið okkur meira en flest annað sem við höfum keypt.

Við ætlum að halda áfram að finna svigrúm til að ferðast, bæði innanlands og erlendis, því þetta gefur okkur mikla orku og gleði. Við ætlum að halda áfram að deila upplifun okkar á samfélagsmiðlum. Ef við gefum fólki upplifun í gegnum það sem við erum að gera, þá þykir okkur vænt um það.

Að lifa í skipulagðri óvissu og að ferðast er aðlaðandi lífsmáti.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert