Dagsferðir frá London

Fjölda fagurra staða er að finna utan höfuðborgarinnar London.
Fjölda fagurra staða er að finna utan höfuðborgarinnar London. mynd/NigelBrown

London er heillandi borg og ekki að undra að hún sé ein vinsælasta borg heims. Slíkt er framboðið af afþreyingu að sumum gæti þótt nóg um ef þá hægt er að fá nóg af höfuðborginni. Það getur þó verið ágætistilbreyting að kynnast öðrum landshlutum án þess að leggjast í langferð því heillandi staði er að finna örstutt frá London og því tilvalið að skella sér í dagsferð. 

Brighton 

Ferðatími: 60 mínútur frá Victoria Station 

Verð frá 5.500,- fram og til baka 

Brighton er fallegur strandbær sem liggur við suðurströnd Englands. Helsta kennileiti bæjarins er Brighton Pier en þar er að finna skemmtigarð sem er við hæfi allra aldurshópa ásamt veitingastöðum og verslunum. Brighton hefur þó upp á miklu meira að bjóða en skemmtigarðinn og ströndina og þess má geta að samkvæmt niðurstöðu úr könnun sem fyrirtækið Movehub gerði er bærinn mesti „hipster“-bær heims. Sem sagt bær fyrir þá sem vilja eitthvað óhefðbundið og öðruvísi.  

Spennandi litlar búðir er að finna víða ásamt girnilegum veitingastöðum svo sem The Set Restaurant sem staðsettur er á Artist Residence-hótelinu eða gæða sér á sjávarréttum á ströndinni á Riddle & Finns eða girnilegum hamborgurum og ísköldum kokteilum á MEATliquor.

Brighton Pier er helsta kennileiti Brighton.
Brighton Pier er helsta kennileiti Brighton. mynd/wikimedia

Oxford 

Ferðatími: 75 mínútur frá London Paddington 

Verð frá 5.600,- fram og til baka 

Ein fallegasta borg Englands og sú sem dýrast er að búa í utan London. Margir segja að frá Oxford komi allt það sem breskt er líkt og hinn eini sanni breski hreimur, te og skonsur og að sjálfsögðu hin víðfrægi Oxford-háskóli sem er elsti háskólinn í enskumælandi landi og hefur alið af sér fræga einstaklinga eins og Stephen Hawking, Margaret Thatcher og J.R.R Tolkien.  

Á háskólasvæðinu er að finna University Church og St. Mary the Virgin en þar er hægt að ganga upp 127 þrep og virða fyrir sér útsýnið sem er stórkostlegt. Borgin er heillandi og minnir um margt á sviðsmyndir úr Harry Potter, það er því upplagt að rölta um borgina í rólegheitum og skella sér svo jafnvel í hádegismat á The Eagle and Child en þar sat einmitt J.R.R Tolkien ásamt vinum sínum stundum saman á þeim tíma sem hann skrifaði Lord of the Rings.  Síðdegis er svo upplagt að skella sér í bátsferð og skála í Pimms. 

Háskólinn í Oxford er afskaplega fallegur.
Háskólinn í Oxford er afskaplega fallegur. Ljósmynd/Wikipedia.org

  

Cambridge 

Ferðatimi: 1 klst. 15 mín frá London Liverpool street 

Verð frá 4.900,- 

Cambridge er einnig þekkt fyrir að vera háskólaborg líkt og Oxford og státar af næstelsta háskólanum í enskumælandi landi. Ein besta leiðin til að njóta borgarinnar er siglandi líkt og í Oxford. 

Borgin er fögur og alveg sérstaklega falleg á haustin þegar laufin falla af trjánum og því ekki úr vegi að rölta um grasagarð borgarinnar þar sem margar fagrar plöntur er að finna ásamt sjarmerandi kaffihúsiEftir ljúfa gönguferð er, samkvæmt áreiðanlegum heimildum, skylda að koma við á Fitzbillies og gæða sér á ljúfu sætmeti og þá er sérstaklega mælt með Chelsea-snúðunum.   

Á sumarkvöldum er skemmtilegt að borða á veitingastaðnum Six en hann er með fallegt útsýni yfir borgina og fyrir þá sem vilja alvörumatarupplifun er ómissandi að fara á Midsummer house en verið viss um að bóka borð í tæka tíð þar sem veitingastaðurinn er oftar en ekki fullbókaður langt fram í tímann. 

Segja mætti að Cambridge væri Feneyjar Bretlands.
Segja mætti að Cambridge væri Feneyjar Bretlands. mynd/wikimedia

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert