Ein fjölbreyttasta borg Þýskalands

Frankfurt, sem Þjóðverjar kalla Frankfurt am Main til aðgreiningar frá Frankfurt an der Oder, er ein fjölbreyttasta borg Þýskalands og kemur flestum á óvart sem hana sækja og ímynda sér að þar sé aðeins að finna önnum kafna kaupsýslumenn. Vissulega er hún suðupunktur fjármálastarfsemi í Evrópu, með seðlabanka álfunnar og eina mikilvægustu kauphöll í heimi, en hún er líka borg öflugs menningarlífs, merkilegrar sögu, stórkostlegra verslunargatna, safna, matar og alls kyns forvitnilegra viðburða.

Fjölbreytileiki og ólíkar hliðar borgarinnar endurspeglast í byggingarlistinni og umhverfinu, þar sem er að finna leifar frá fyrstu byggð Rómverja í borginni, byggingarkjarna frá miðöldum um og svo stærstu og nútímalegustu háhýsi Þýskalands en ólíkt öðrum borgum landsins er þau að finna í kjarnanum en ekki útjaðri byggðarinnar. Þetta gefur borginni skemmtilegan svip. Það er auðvelt að fljúga til Frankfurt allan ársins hring og ekki verra að stefna þangað í desember þegar jólamarkaður borgarinnar er í gangi. 

Römerberg breytist í ævintýraland í kringum jólin.
Römerberg breytist í ævintýraland í kringum jólin. Mynd/GettyImages

Gengið um Römerberg

Hvergi finna ferðalangar sterkar fyrir nútímanum og gamla tímanum mætast en þegar gengið er um Römerberg, ráðhústorgið í miðborginni. Yfir ráðhúsinu sem byrjað var að byggja á 15. öld, Nikulásarkirkju og torginu sem er frá upphafi byggðar í Frankfurt glittir í háhýsi bankanna enda er borgin stundum í gríni kölluð „Mainhattan“. Mæli sérstaklega með að snæða snitsel í hádegisverð á veitingastaðnum Schwarzer Stern sem er á ráðhústorginu sjálfu eða Klosterhof sem er í næsta nágrenni. Komið svo við í sögusafninu við hliðina á Nikulásarkirkju. Það var stofnað á 19. öld og kynnið ykkur m.a. merkilega keisarasögu borgarinnar. Römerberg er svo ævintýri líkast þegar jólamarkaðurinn stendur yfir.

Borða meira og meira

Það versta við að yfirgefa Frankfurt er að geta ekki prófað fleiri veitingastaði. Undirrituð hefur borðað á velflestum staðanna sem hér er mælt með: Namaste India býður upp á indverskan mat á heimsklassa. Staðurinn er lítill og huggulegur og Þjóðverjar sjálfir elska staðinn. Staðurinn er eilítið út fyrir miðju borgarinnar og það er talsverð þraut að fá bílastæði og það er því gott að leggja tímanlega af stað því það þarf aðeins að hringsóla í leit að stæði. Raunar er starfsfólkið svo almennilegt að einn þjónninn endaði á að leyfa okkur að leggja í starfsmannastæðið sitt.

Maturinn á Medici minnir á listaverk.
Maturinn á Medici minnir á listaverk. Mynd/Medici

Veitingastaðurinn Medici er ekki einn af ódýru stöðum borgarinnar en sannarlega einn af þeim bestu og fáguðustu. Ef það er aspasuppskera skuluð þið a.m.k. kosti fá ykkur einhvern rétt með aspas, jafnvel smakkseðil í því þema. Geggjað carpaccio og rækjur í risotto voru m.a. á okkar matseðli. Margir sækja staðinn til að gæða sér á 60 mánaða gamalliíberíko-skinku sem bráðnar í munni.

Zu den 12 Aposteln er staðurinn fyrir kvöldstund með heimamönnum yfir þýskum bjór og hefðbundnum þýskum mat í stórum skömmtum og margir réttirnir eru ætlaðir til að deila. Þeir sem eru að stíga sín fyrstu skref í þýskum matarkúltúr gætu til dæmis pantað sér Frankfurter-plattann til að deila og svo spennandi steik með.

African Queen er enn eitt dæmið um hve veitingastaðir Frankfurt eru fjölbreyttir. Eþíópískur matur er þar í fyrirrúmi og endilega ræðið við þjónana um hvað er gott að panta því flestum Íslendingum er þessi matur frekar framandi, þjónarnir eru mjög hjálplegir. Ævintýralega góður matur og gaman að prófa algjörlega eitthvað nýtt.

Restaurant Francais er svo frönsk matargerð eins og hún gerist best, á dásamlega fallegum stað í miðborginni, hvítdúkaður með konunglegum blómaskreytingum. Vínáhugamenn lofa þennan stað í hástert þar sem vínlistinn þykir framúrskarandi

Senckenberg-náttúrugripasafnið sem á stærsta safn beinagrinda stærri risaeðlna í Evrópu.
Senckenberg-náttúrugripasafnið sem á stærsta safn beinagrinda stærri risaeðlna í Evrópu. Mynd/GettyImages

Risaeðlur og Picasso

Eitt skemmtilegasta safn borgarinnar er Senckenberg-náttúrugripasafnið sem á stærsta safn beinagrinda stærri risaeðlna í Evrópu. Staedel-listasafnið ætti einnig að vera á lista ferðamanna, þar sem þeir skoða verk gömlu meistaranna, svo sem Botticellis, upp í frægustu listaverk nálægari tíma; Monet, Degas, Picasso og miklu fleiri.

Bílaáhugamönnum má benda á Klassikstadt, sem gerir klassískum bílategundum fyrri tíma góð skil á stóru sýningarsvæði. Einnig er stutt að skreppa út fyrir Frankfurt í dagsferð, til dæmis Heidelberg og Rothenburg og drekka þar í sig miðaldir, gamla háskóla og tíma liðinna alda. Margir vilja helst ekki yfirgefa borgir án þess að sjá almennilega yfir þær.

Þá er Main-turninn, eitt helsta kennileiti borgarinnar, best til þess fallinn. Þetta 200 hæða háhýsi, það fjórða hæsta í Þýskalandi öllu, er eini skýjakljúfur borgarinnar sem er með sérstakan útsýnispall opinn almenningi.

Zeil er suðandi mannlífspunktur með spennandi verslanir hvarvetna.
Zeil er suðandi mannlífspunktur með spennandi verslanir hvarvetna. Mynd/Istockphoto

Aukataska fyrir innkaup

Að fylla ferðatöskurnar af fatnaði og alls kyn smávöru er einstaklega auðvelt í Frankfurt. Verðið er hagstæðara en hérlendis og hægt er að finna hvað sem er í borginni. Fyrir allt það flottasta í fatnaði á ágætisverði má mæla með Peek og Cloppenburg sem hefur að geyma fjöldann allan af tískumerkjum á nokkrum hæðum undir einu þaki við eina skemmtilegustu göngugötu borgarinnar; Zeil.

Margar fábærar verslanir og verslunarmiðstöðvar, standa við Zeil og er mikið líf á götunni sjálfri. Góð kaup á lúxusvarningi er hægt gera á Goethestrasse sem er raunar kölluð „lúxusgatan“ af heimamönnum. Ekki er síður skemmtilegt að skoða í gluggana. Schillerstrasse er virkilega skemmtileg á föstudögum þegar götumarkaðir eru settir upp með ávöxtum, handgerðum munum og fleiru. Á þessu svæði færðu jafnframt minjagripina.

Berger Strasse sýnir svo eilítið öðruvísi hlið borgarinnar, með sérverslunum ungra hönnuða, notuðum tískufatnaði. Eftir langan verslunardag er gott að slaka á á einum af kaffihúsum, ísbúðum eða veitingastöðum „gúrmet-götunnar“ Grosse Bockenheimer Strasse.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka