Á slóðum Winstons Churchill

Winston Spencer Churchill var fyrir margt löngu útnefndur mesti Breti allra tíma. Þar ræður mestu sú staðreynd að hann leiddi þjóðina í gegnum hörmungar síðari heimsstyrjaldarinnar og blés henni baráttuanda í brjóst þegar öll sund virtust lokuð. En Churchill var margbrotinn maður og á þeim ríflega níu áratugum sem lífshlaup hans spannaði (1874-1965) kom hann víða við og brá sér í ýmis hlutverk.

Vegna útbreidds áhuga á manninum Churchill og þeirrar staðreyndar að saga 20. aldar yrði aldrei að fullu sögð án þess að minnast á hann lögðu félagsmenn í Minjum og sögu, vinafélagi Þjóðminjasafnsins, upp í ferð til Lundúna og nágrennis þar sem sögustaðir tengdir Churchill voru sóttir heim. Í Minjum og sögu eru um 300 félagsmenn og af þeim skráðu 33 sig til leiks. Fararstjóri í ferðinni var Kristján Garðarsson, arktitekt og stjórnarmaður í félaginu. Hann bjó lengi í Oxford og þekkir bæði vel til sögu Churchills og svæðisins þar sem hann sleit barnsskónum.

Lafði Jane Williams fyrir miðri mynd ásamt ferðahópnum. Hún var …
Lafði Jane Williams fyrir miðri mynd ásamt ferðahópnum. Hún var einkaritari Churchills 1949-1955. Sonur hennar er Justin Welby, erkibiskup af Kantaraborg. mynd/Ses

Fyrsti dagur ferðarinnar var reyndar helgaður öðru efni en því sem tengist Churchill beint en það var sem upphitun fyrir það sem á eftir kom. Þannig kom hópurinn fyrst við í Victoria & Albert-safninu við Cromwell-stræti í Lundúnum. Það á í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands. Þangað ætti allt safnaáhugafólk að koma. Þar ægir saman gripum frá öllum heimshornum og gefur það einstaka sýn yfir sögu lista og hönnunar. Í safninu eru um 2,3 milljónir gripa og má þar meðal annars berja augum eina af fimm skissubókum sem varðveist hafa úr fórum Leonardo da Vinci. Að lokinni heimsókn þangað var haldið í sendiráð Íslands þar sem Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra og starfsfólk hans tók á móti hópnum. Ásamt því að fá kynningu á starfi sendiráðsins hlýddu félagsmenn einnig á fyrirlestur um hinn merka William Morris, sem ferðaðist til Íslands á síðari hluta 19. aldar og þýddi Íslendingasögur á ensku.

Á öðrum degi ferðarinnar lá leiðin til Oxfordskíris en þar stendur ein glæsilegasta höll Bretlandseyja. Hún nefnist Blenheim og tengist sögu Churchills órofa böndum. Forfaðir hans, John Churchill, hertogi af Marlborough reisti höllina á árunum 1705-1722 í minningu orrustunnar við Blenheim í Þýskalandi. Þar fór hann fyrir her Englandskonungs og bandamanna hans gegn Frökkum og konungi Bæjaralands.

Mikilvægar ákvarðanir

Winston Churchill sagði eitt sinn að hann hefði tekið tvær meiriháttar ákvarðanir í Blenheim-höll, „þá að fæðast og að kvænast“. Móðir hans og faðir, sonur hertogans, voru gestkomandi í höllinni 30. nóvember 1874, þegar Winston kom í heiminn. Síðar, árið 1908, bað hann Clementine Ogilvy Hozier. Hún átti á grundvelli jáyrðis þess eftir að standa við hlið hans allar götur síðan.

Það er einstakt að komast í tæri við staðinn þaðan …
Það er einstakt að komast í tæri við staðinn þaðan sem Churchill stýrði Bretum gegnum stríðið til sigurs. Margar örlagaríkar ákvarðanir voru teknar þar. mynd/ses

Blenheim-höll er gríðarleg að vöxtum. Hún er á heimsminjaskrá UNESCO og þangað leggja nærri milljón ferðamenn leið sína á ári. Henni hefur verið lýst sem glæsilegustu höll Evrópu sem ekki er í eigu konungs eða drottningar.

Hópurinn fékk áhrifamikla leiðsögn í gegnum nokkra helstu sali og herbergi hallarinnar. Að því loknu var haldið fótgangandi til Bladon, sem er smábær sem stendur nærri höllinni. Þar stendur í miðjum bænum kirkja helguð heilögum Marteini. Það er ekki auðsótt að finna kirkjuna en það hafðist að lokum. Leiðin lá þangað af einni ástæðu. Þar hvíla jarðneskar leifar Winstons og Clementine konu hans.

Rætt við einkaritarann

Laugardaginn 22. september var hópnum stefnt í neðanjarðarbyrgin (Cabinet War Rooms) þaðan sem ríkisstjórn Churchills stýrði herjum Breta og raunar stjórnkerfi landsins öllu. Þar hefur flestu verið haldið í upprunalegu horfi þótt ýmsu hafi verið komið fyrir á haganlegan hátt svo taka mætti á móti öllum þeim fjölda gesta sem sækja staðinn heim á hverju ári. Þar hefur einnig verið komið upp safni í minningu Churchills sem rekur tengsl hans við stríðið, aðdraganda þess, og eftirmál.

Andrew Roberts hefur sent frá sér nýja og stórmerka ævisögu …
Andrew Roberts hefur sent frá sér nýja og stórmerka ævisögu um Churchill. mynd/ses

Í neðanjarðarbyrginu mælti hópurinn sér mót við konu að nafni lafði Jane Williams. Hún er á tíræðisaldri en var einkaritari Churchills á árunum 1949-1955. Fékk hópurinn tækifæri til að spjalla við hana, m.a. um kynni hennar af forsætisráðherranum. Er hún afar ern og man vel þá tíma þegar hún sat við löngum stundum og ritaði upp bréf og ræður Churchills. Hún er einnig þekkt í bresku samfélagi fyrir það að hún er móðir Justins Welby, erkibiskupsins af Kantaraborg. Eftir spjall við lafði Jane hélt hópurinn í eina skemmtilegustu bókabúð Lundúna sem nefnist John Sandoe Books. Þar tók á móti okkur sagnfræðingurinn Andrew Roberts.

Skrifstofa Churchills í Chartwell. Á veggnum er málverk af Blenheim-höll. …
Skrifstofa Churchills í Chartwell. Á veggnum er málverk af Blenheim-höll. Þar fyrir innan var svefnherbergi hans. mynd/ses

Tveimur dögum fyrr hafði hann fengið í hendurnar fyrsta eintakið af nýrri, hnausþykkri, 1.152 síðna ævisögu Winstons Churchills, sem hann hefur ritað. Ræddi hann við ferðahópinn um bókina og viðfangsefnið, stiklaði á stóru um þær nýju upplýsingar sem bókin hefur að geyma og hvatti svo hópinn til að kaupa sem flest eintök af bókinni. Ekki stóð á viðbrögðum og áritaði hann hvert eintakið á fætur öðru. Frá því að hópurinn kom aftur heim hafa í bresku pressunni birst ritdómar, hver á fætur öðrum, sem bera mikið lof á verkið.

Hittum Randolph Churchill

Á lokadegi ferðarinnar hélt hópurinn suður til Kent en þar er að finna herragarðinn Chartwell. Churchill keypti húsið og landareignina í kring árið 1922 og hélt þar umsvifamikið heimili áratugina á eftir. Þar dvaldi hann löngum stundum og sagði eitt sinn: „Dagur frá Chartwell er dagur farinn í súginn.“

Það er einstaklega fallegt hús, sem heiðrar minningu Winstons og Clementine. Þar getur m.a. að líta vinnustofu karlsins og skrifstofu. Þar sat hann löngum stundum og málaði en í húsinu vann hann einnig að mörgum ritverkum sínum sem öfluðu honum nóbelsverðlauna í bókmenntum árið 1953.

Í Chartwell heiðraði Randolph Churchill, langafabarn Winstons, okkur með nærveru sinni. Ávarpaði hann hópinn og tók við gjöf frá einum ferðafélaganna sem var ljósmynd sem sýnir Churchill á skipsfjöl í Reykjavíkurhöfn. Þakkaði hann gjöfina mjög. Randolph býr í nágrenni Chartwell. Hann ber sterkan svip af hinum fræga forföður sínum.

Undir kvöld á sunnudegi hélt hópurinn heim á leið, margs fróðari um sögu Churchills og var það einróma álit fólks að heimsókn til Blenheim, í neðanjarðarbyrgin undir Westministers og til Chartwell hefði aukið enn áhuga fólks á manninum og þeirri sögu sem hann átti svo ríkan þátt í að móta.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert