Zürich að hætti Siggu

Sigga segir borgina hafa upp á margt að bjóða.
Sigga segir borgina hafa upp á margt að bjóða. Ljósmynd/aðsend

Hún hefur unnið í lögfræðigeiranum frá árinu 2012 ásamt því að vera með sína eigin ráðgjöf í mannauðsmálum og sinnt nefndarsetu hjá Mannauði, félagi mannauðsfólks á Íslandi.

Hún starfar í dag við sitt eigið ráðgjafafyrirtæki S/P Consulting og vinnur sem ráðgjafi fyrir 50 skills ráðgjöf á sviði mannauðsmála en hún hefur verið þeim innan handar frá stofnun félagsins í ráðgjafahópi félagsins. Jafnframt heldur hún úti heimasíðunni www.siggap.com þar sem hún er sinnir verkefnum tengdum skipulagningu á ferðum og viðburðum í Zürich. 

Hvar býrðu í borginni?

Ég bý í hverfinu Oberstrass sem er í um 15 mínútna göngufæri frá miðbænum og steinsnar frá sporvagnastöðinni sem tekur mann 4 mínútur að komast í bæinn með. 

Hversu lengi hefurðu búið í borginni?

Icelandair flýgur beint til Zürich og ég hef nýtt mér það óspart og farið ótal ferðir á milli Íslands og Sviss en Ásgeir kærastinn minn er hér í sérnámi í tannlækningum. Ég hef því verið með annan fótinn hérna síðasta árið og bý hér núna. 

Sigga og Ásgeir, kærasti hennar, við Lugano-vatnið.
Sigga og Ásgeir, kærasti hennar, við Lugano-vatnið. Ljósmynd/aðsend

Hvernig ferðastu á milli staða?

Í fyrsta skipti frá því að ég fékk bílpróf erum við ekki með bíl enda geng ég eða hjóla flest sem ég fer og nýti mér sporvagnana þegar ég  þarf. Þegar við ferðumst þá einfaldlega leigjum við okkur bíl og skjótumst í fjallið á skíði eða í roadtrip.

Hver er eftirlætisveitingastaðurinn þinn?

Það eru margir staðir sem gaman er að fara á í borginni. Ég elska ítalskan mat og við förum oft á Vapino. Við eigum okkur uppáhalds indverskan stað sem við förum reglulega á og heitir New Bombay. Hann er í gamla bænum og þar er hægt að fá einn besta tikka masala-kjúklingarétt sem ég hef fengið. Í einum hjólatúrnum mínum uppgötvaði ég líka æðislegan stað í snarbrattri hæðinni fyrir ofan götuna okkar sem gerir hann að geggjuðum útsýnisstað með frábærum mat og heitir Sorell Hotel Zürichberg.

Þegar ég er í bænum og langar að fá mér drykk, góðan asískan fusion mat og stemmingu fer ég á „rooftop”-staðinn sem er á efstu hæð Modissa sem er á Bahnhofstrasse. Allir ættu því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Eftirlætiskaffihús?

Held ég nefni staðina Milchbar og Puro sem eru faldir gimsteinar rétt hjá Bahnhofstrasse í bakgarði þar sem hægt er að sitja inni og úti í fallegu umhverfi. Brunch-staðurinn Babu´s Bakery & Coffeehouse er líka í miklu uppáhaldi hjá okkur.

Draumadagur í borginni?

Ég held að ég verði að segja að það sé útivist, þó að ég elski að rölta um borgina og horfa á mannlífið þá nýti ég tímann minn mikið í að uppgötva nýja staði, hvort sem það er á racer-num mínum eða í fjallgöngu. Okkur finnst gaman að labba upp og hlaupa niður Uetliberg sem er fjall rétt fyrir utan Zürich. Á toppnum er útsýni yfir allt vatnið og borgina ásamt útsýni yfir að ölpunum. Draumadagur í Zürich myndi því hljóma svona: Brunch á Babu´s Bakery/Coffeehouse sem er svo fallegt og krúttlegt kaffihús sem býður upp á æðislegan brunch. Þaðan er hægt að rölta um bæinn, kíkja í búðir og ganga að vatninu. Mér finnst gaman að fylgjast með mannlífinu, vera og njóta, þess vegna vil ég ekki vera með of mikið plan. Þar sem ég elska tónleika þá væri það ofarlega á listanum mínum ásamt því að leigja hjól eða rölta á safn. Ég er oft spurð að því hvað hægt sé að gera í borginni og því hef ég verið að taka að mér skipulagningu á ferðum og viðburðum í Zürich. Nánari upplýsingar um það er að finna á heimasíðunni minni.

Sigga ásamt dætrum sínum í blíðskaparveðri.
Sigga ásamt dætrum sínum í blíðskaparveðri. Ljósmynd/Aðsend

Hver er þín líkamsrækt?

Götuhjólreiðar eru mín líkamsrækt en við erum líka dugleg að fara í fjallgöngur, skíði og tökum reglulega hlaup í nærliggjandi garða. Ég verð samt að viðurkenna að ég er enginn hlaupari og sé alltaf eftir tímanum sem ég er ekki á hjólinu en það er auðveldara fjölskyldusport að hendast í garðinn, gera æfingar og leika sér við pollinn þar. Við reynum að virkja alla fjölskylduna í hreyfingu og útivist og gera þetta að samverustundunum okkar. Á veturna stunda ég innihjól í hjólastúdíó-i sem er nálægt heimilinu en það jafnast ekkert á við það að fá bruna í lærin og púlsinn upp þó að ég velji úti hjólreiðarnar allan daginn.

Hvað er ómissandi að sjá?

Ég myndi segja að allir verði að labba í gamla bænum, tylla sér á einhvern fallegu staðanna sem liggja við ána, fá sér hressingu og horfa á mannlífið. Það er líka upplagt að fara að Lake Zürich og labba meðfram því, setjast í garðinn eða á klöpp alveg við vatnið og dást að útsýninu. Þegar það er heitt í veðri förum við mikið niður að ánni Limmat sem liggur í gegnum borgina en þar safnast íbúar hennar saman, fá sér drykk og jafnvel kæla sig með því að skella sér í ána og láta sig reka niður með henni. Um daginn fór ég með stelpurnar í dýragarðinn sem er 3 km frá heimilinu okkar og mér fannst það nú lúmskt gaman. Vínsmökkun á vínekru var hluti af óvissuferð sem ég skipulagði síðasta sumar en þá fórum við og kíktum á Hauksson Wine. Höskuldur Hauksson er vínekrubóndi í nærliggjandi bæ og það er magnað að koma þangað og sjá snarbrattar brekkurnar með hundrað ára gömlum vínvið og alpana allt í kring.

Upplagt er að skoða vínekrurnar í kringum borgina.
Upplagt er að skoða vínekrurnar í kringum borgina. Ljósmynd/Aðsend

Við prófuðum líka að fara á sleða í bæ sem heitir Flumserberg en þar er sérstök sleðabraut þar sem ungir sem aldnir skemmta sér eins og enginn sé morgundagurinn. Eins og heyra má þá er eitthvað fyrir alla í borginni eða nærliggjandi stöðum. 

Hvað er að gerast í borginni á næstunni?

Frægir tónlistarmenn eru duglegir að koma hingað og fórum við til að mynda síðasta sumar á Ed Sheeran. Í sumar er Pink að spila hérna en tónlistarmenn sækja mikið í að koma hingað og halda tónleika sem er algjörlega frábært. Árstíðarbundnir viðburðir eru vinsælir meðal íbúa og um jólin er yndislegt að vera hér því þá er jólamarkaður á Bellevue sem enginn má missa af. Markaðurinn er á torginu fyrir framan stórfenglega byggingu óperunnar. Jólamarkaðurinn stendur frá lokum nóvember og Glühwein er “must have” þar sem það getur verið kalt hér frá nóvember til febrúar/mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert