Bræður hennar þrír búa alfarið í Nepal og annast að mestu rekstur hótelsins Tiger Tops. Að sögn Kristínar Ástu Kristinsdóttur, einnar af vinkonunum, er hugmyndin af ferðalaginu komin frá eiginmanni einnar úr hópnum. ,,Svo ég noti hans orðalag þá sagði hann að það væri galið að við færum ekki vinkonurnar saman til Nepal þar sem Anna Tara þekkti landið eins og lófann á sér. Við vorum ekki lengi að sannfærast enda frábær hugmynd. Svo þegar við vorum búnar að skipuleggja ferðina, með tilliti til hvað okkur langaði að sjá og gera, langaði okkur að stækka ferðina ef svo má að orði komast. Hvað gætum við lagt af mörkum þar sem við værum að fara heimsækja eitt fátækasta land í Asíu.” Vinkonurnar ræddu við Önnu Töru um hvar neyðina væri helst að finna í hennar nærumhverfi og komust að því að rekstur á grunnskóla sem Fjóla Ósk Bender, móðir Önnu Töru, ásamt fleira góðu fólki setti á laggirnar fyrir fátækustu börnin í héraðinu stæðu henni og bræðrum hennar næst. ,,Foreldrar Önnu Töru eru bæði látin en þau ráku hótelið Tiger Tops sem er við Chitwan-þjóðgarðinn. Skólinn var stofnaður 1996 og hefur verið starfræktur óslitið síðan en hann er alfarið rekinn á styrkjum, það var því aldrei nein spurning um að þetta væri verkefnið okkar,” segir Kristín Ásta og bætir við að núverandi nemendur séu sextíu börn á aldrinum 5-8 ára. Börnunum sé séð fyrir skólafötum, skólagögnum, mat og læknisþjónustu.
Í skólanum er einnig bókasafn sem er öllum opið um helgar þegar ekki er skólastarf, grænmeti er ræktað í garðinum sem börnin borða og foreldrar skólabarnanna leggja fram nokkurra klukkustunda vinnu í mánuði við ræktunina og greiða þannig fyrir skólagjöld. ,,Skólinn heldur einnig úti sérsjóði sem styður útskrifuð börn til frekara náms annars staðar, tæplega 200 börn hafa nú þegar útskrifast og fengið fjárhagsaðstoð frá skólanum.”