Sjóleiðin til Tallinn

Frá Stokk­hólmi er auðvelt að kom­ast í skemmtisigl­ing­ar með skipa­fé­lag­inu Tall­ink til nokk­urra borga við Eystra­saltið, svo sem Hels­inki, Tur­ku, Tall­inn, Mariehamn og Riga.

Und­ir­ritaður fékk sér far til Tall­inn með ferj­unni Victoria 1. sem ásamt Baltic Qu­een er í dag­leg­um sigl­ing­um milli Stokk­hóms og Tall­inn í Eistlandi með viðkomu í Mariehamn á Álands­eyj­um. Victoria er í senn skemmti­ferðaskip og bíla­ferja sem tek­ur um 2.500 farþega og 400 bíla. Baltic Qu­een er held­ur stærra og tek­ur 2.800 farþega. Lagt er af stað fra Värta­hamn­en í Stokk­hólmi kl. 17.30.

Baltic Queen tekur 2.800 farþega í siglingum milli Stokkhólms og …
Baltic Qu­een tek­ur 2.800 farþega í sigl­ing­um milli Stokk­hólms og Tall­inn. Mynd/​OÓ

Sigl­ing­in gegn­um skerjag­arðinn tek­ur um þrjá tíma og er áhuga­vert að virða fyr­ir sér sum­ar­hús Svía á skógi vöxn­um skerj­un­um. Við flest hús­in eru bryggj­ur og smá­bát­ar. Þegar sjón­arspili skerjag­arðsins lýk­ur er kom­inn kvöld­mat­ar­tími. Tví­setið er í mat­sal­inn, þar sem boðið er upp á hlaðborð þar sem all­ir ættu að finna eitt­hvað við sitt hæfi. Eng­um þarf að leiðast í sjó­ferðinni því margt er í boði; kaba­rett, bingó, dans­leik­ur, pí­anób­ar, veit­ingastaðir, bar­ir, versl­an­ir, spila­víti og leik­her­bergi fyr­ir yngstu farþeg­ana o.fl. Hægt er að djamma fram á nótt hvort sem er á syfju­leg­um pí­anóbarn­um eða á ball­inu þar sem hljóm­sveit skips­ins leik­ur fyir dansi. Morg­un­inn eft­ir er lagt að bryggju í Tall­inn kl. 10.15. Ódýr­ir leigu­bíl­ar bíða á bryggj­unni eft­ir þeim farþegum sem ekki hrúg­ast í rút­urn­ar. Leiðin ligg­ur á hið ágæta Hót­el Sa­voy Bout­ique í gamla borg­ar­hlut­an­um.

Gamla borg­in

Tall­inn er höfuðborg Eist­lands og búa þar yfir 450 þúsund manns. Áhugi flestra ferðamanna bein­ist að gamla borg­ar­hlut­an­um, sem hef­ur varðveist vel frá seinni hluta miðalda. Heill­andi er að ganga þar um göt­ur, sem flest­ar eru stein­lagðar og henta ekki fyr­ir háa hæla. Meiri­hluti borg­ar­múr­anna er enn uppist­and­andi og í góðu ástandi. Lengd þeirra nær tæp­um 2 kíló­metr­um og með 20 virk­ist­urn­um setja þeir sterk­an svip á borg­ina. Dá­lítið eins og að fara aft­ur í tím­ann.

Ráðhústorgið er miðstöð mannlífsins í gamla bænum. Þar eru oft …
Ráðhús­torgið er miðstöð mann­lífs­ins í gamla bæn­um. Þar eru oft úti­markaðir, tón­leik­ar og ýmis hátíðahöld. Mynd/​OÓ

Gamla ráðhús­torgið er miðja gamla bæj­ar­ins, um­kringt veit­inga­stöðum á þrjá vegu. Í nær­liggj­andi göt­um er einnig fjöldi veit­ingastaða. Olde Hansa við Vana Turg 1 er það eft­ir­minni­leg­asta. Þar eru inn­rétt­ing­ar, veit­ing­ar og klæðnaður starfs­fólks í fimmtándu ald­ar stíl og snætt við kerta­ljós. Ýmsa fram­andi rétti má finna þar á mat­seðlin­um, svo sem bjarn­dýra­steik, vill­is­vín og elgs­dýr sem renna má niður með heima­gerðu hun­ang­söli.

Á veitingastaðnum Olde Hansa er þjónustufólk klætt samkvæmt fatatísku gullaldar …
Á veit­ingastaðnum Olde Hansa er þjón­ustu­fólk klætt sam­kvæmt fata­tísku gull­ald­ar Han­sa­kaup­manna á fimmtándu öld. mynd/​OÓ

Und­ir­ritaður var þó ekki hugaðri en svo að hann fékk sér Himalaya-lamba­steik sem reynd­ist afar ljúf­feng. Al­mennt má segja að mat­sölustaðir séu mjög góðir í Tall­inn. Verðlag á þess­um slóðum er svipað og víða í Vest­ur-Evr­ópu. Vilji menn hlífa pyngj­unni er betra að fara aðeins fjær ráðhús­torg­inu.

Langa­gata og Toom­pea

Langa­gata eða Pikk Jalg er ein helsta gat­an í miðbæn­um. Þar eru veit­inga­hús, versl­an­ir, söfn og gisti­hús ásamt hinu virðulega kaffi­húsi Mai­a­smokk sem hef­ur verið starf­rækt á sama stað síðan 1864. Inn­rétt­ing­ar á fyrstu hæðinni hafa að mestu verið óbreytt­ar í um 100 ár. Þegar inn er komið eru til sýn­is og sölu snot­ur marsip­an­dýr í gjafaum­búðum.

Á fyrstu hæð Maiasmokk-kaffihússins hafa innréttingar verið að mestu óbreyttar …
Á fyrstu hæð Mai­a­smokk-kaffi­húss­ins hafa inn­rétt­ing­ar verið að mestu óbreytt­ar í um hundrað ár. Mynd/​OÓ

Fjöl­breytt úr­val er af kök­um og kon­fekti með kaff­inu. Uppi á ann­arri hæð er tveggja manna borð með skemmti­legu út­sýni yfir Pikk-stræti sem ligg­ur upp á kast­ala­hæðina Toom­pea. Þegar þangað er komið blas­ir við hin skraut­lega rúss­neska Al­ex­and­er Nev­sky-rétt­trúnaðar­kirkja, en rúm­lega þriðjung­ur borg­ar­búa er rúss­nesku­mæl­andi. Hún var reist kring­um árið 1900 til að leggja áherslu á vald keis­ara­dæm­is­ins yfir land­inu.

Horft til norðurs yfir gamla bæinn frá Patkuli vaateplats.
Horft til norðurs yfir gamla bæ­inn frá Patkuli va­ateplats. mynd/​OÓ

Í hverf­inu eru ýms­ar fleiri stjórn­ar­bygg­ing­ar ásamt nokkr­um sendi­ráðum. Á hæðinni eru frá­bær­ir út­sýn­is­staðir, sér­lega hent­ug­ir fyr­ir þá sem ekki hafa heilsu til að klifra upp í kirkjut­urna. Frá út­sýn­ispall­in­um við Patkuli va­ateplats er frá­bært út­sýni til norðurs yfir borg­ina, þar sem virk­ist­urn­arn­ir njóta sín vel. Bak við pall­inn er stór­glæsi­leg versl­un með óvenju fjöl­breyttu úr­vali hand­verk­s­muna og minja­gripa. Útsýn­ispall­ur­inn Kohtuotsa út frá Kohtu-götu veit­ir frá­bært út­sýni til aust­urs yfir borg­ina. Mjó­sleg­inn ráðhúst­urn­inn, kirkjut­urn­arn­ir og virk­ist­urn­arn­ir inn­an um rauð tíg­ul­steinsþökin. Í fjarska eru svo há­hýsi nýja miðbæj­ar­ins og skemmti­ferðaskip­in í höfn­inni. Trúba­dúr nokk­ur af eldri kyn­slóðinni gerði mikla lukku meðal kín­verskra ferðamanna, þegar hann tók nokkra slag­ara á máli þeirra.

Ferðast um borg­ina

Gamli bær­inn inn­an borg­ar­múra er það lít­ill að allt er í stuttu göngu­færi. Til að kynn­ast Tall­inn er ágætt að koma við á upp­lýs­inga­miðstöðinni við Niguliste 2, ör­skammt frá ráðhús­torg­inu. Þar er hægt að fá ým­iss kon­ar kort af borg­inni. Eitt það aðgengi­leg­asta heit­ir „Free map made by locals“. Þar eru einnig ágæt­ar upp­lýs­ing­ar um ýmsa áhuga­verða staði.

Ef ætl­un­in er að fara vítt og breitt um borg­ina með stræt­is­vögn­um og spor­vögn­um er „Tall­inn – Pu­blic Tran­sport for visitors“ al­veg ómiss­andi. Það sýn­ir all­ar strætó- og spor­vagna­leiðir með núm­er­um. Eitt far í strætó kost­ar 2 evr­ur hjá bíl­stjóra. Hægt er að fá Smartcard á blaðsölu­stöðum og víðar fyr­ir 2 evr­ur. Með því er hægt að kaupa inn­legg fyr­ir aðgang í stræt­is­vagna og spor­vagna. 5 dag­ar kosta 6 evr­ur, en mánuður­inn 23 evr­ur. Korta­les­ari er inni í vögn­un­um. Þeir sem hyggj­ast fara víða til að skoða söfn­in geta fengið sér „Tall­inn Card“ sem fæst í upp­lýs­inga­miðstöðinni. Það veit­ir aðgang í yfir 40 söfn og alla stræt­is­vagna og spor­vagna. Sól­ar­hringskort kost­ar 24 evr­ur, en þrír sól­ar­hring­ar 45 evr­ur.

Oma Asi design er athyglisverð hönnunarverslun í mjóu sundi milli …
Oma Asi design er at­hygl­is­verð hönn­un­ar­versl­un í mjóu sundi milli ráðhús­torgs­ins og Pikk Jalg. mynd/​OÓ

Und­ir­ritaður skellti sér í nokk­ur strætó­ferðalög til að skoða byggðasafnið og Kadri­org-skrúðgarðana, en þar er sum­ar­höll Rússa­keis­ara, sem Pét­ur mikli lét reisa skömmu eft­ir að hann lagði landið und­ir sig árið 1810. Höll­in er nú deild i lista­safni eist­neska rík­is­ins, helguð verk­um eldri meist­ara. Skammt þar frá er lista­safnið KUMU sem vígt var árið 2006 og sýn­ir lista­verk frá nítj­ándu öld fram til dags­ins í dag. Í Kadri­org-garðinum má svo finna lítið barn­vænt tív­olí.

Danska þjóðsag­an

Á þrett­ándu öld stóð yfir mikið átak að kristna þjóðirn­ar við aust­an­vert Eystra­salt. Á þeim tíma þótti sverðið henta best til kristni­boðs. Sag­an seg­ir að sum­arið 1219 hafi Dan­ir háð mikla orr­ustu við heima­menn um hæð eina á norður­strönd Eist­lands. Þegar hallaði á Dan­ina opnuðust himn­arn­ir og birt­ist fáni mik­ill, rauður með hvít­um krossi og sveif til jarðar. Danski her­inn með Valdi­mar 2. kon­ung í broddi fylk­ing­ar efld­ist mjög við þessa sýn og náði hæðinni á sitt vald. Fán­inn var kallaður Dann­e­brog og varð þaðan í frá þjóðfáni Dan­merk­ur. Dan­ir komu sér fyr­ir á hæðinni, reistu kast­ala og virk­is­múra utan um þorpið. Heima­menn nefndu hæðina Taani Linn, sem þýðir Dana­virki. Nafnið var síðan stytt í Tall­inn.

Nokkr­um árum síðar hröktu þýsku krossridd­ar­arn­ir Dani frá borg­inni og í kjöl­farið komu Han­sa­kaup­menn sér þægi­lega fyr­ir og nefndu þeir borg­ina Reval, en Eist­land ásamt Lett­landi var kallað Li­v­land á þeim tíma sem þýska ridd­ar­a­regl­an réð ríkj­um. Borg­in varð síðan öfl­ug og mik­il­væg versl­un­ar­borg. Þegar Eist­land fékk sjálf­stæði árið 1918 var nafn­inu borg­ar­inn­ar aft­ur breytt í Tall­inn.

Hægt að bóka sjó­ferðina á net­inu

Ferj­urn­ar Victoria og Baltic Qu­een bjóða upp á 2ja og 4 manna klefa. Baltic Qu­een er auk þess með fjöl­skyldu­klefa fyr­ir allt að átta manns, þar af minnst 2 börn. Ef óskað er eft­ir sjáv­ar­sýn gegn­um kýrauga þarf að panta klefa í A-flokki, eða A-class ca­bin. 2ja manna klefarn­ir eru um 9 fer­metr­ar og kosta frá 110 evr­um aðra leiðina, dá­lítið mis­jafnt eft­ir dög­um. Hægt er að bóka ferðina ásamt kvöld­verðar­hlaðborði á þess­ari síðu

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert