Sjóleiðin til Tallinn

Frá Stokkhólmi er auðvelt að komast í skemmtisiglingar með skipafélaginu Tallink til nokkurra borga við Eystrasaltið, svo sem Helsinki, Turku, Tallinn, Mariehamn og Riga.

Undirritaður fékk sér far til Tallinn með ferjunni Victoria 1. sem ásamt Baltic Queen er í daglegum siglingum milli Stokkhóms og Tallinn í Eistlandi með viðkomu í Mariehamn á Álandseyjum. Victoria er í senn skemmtiferðaskip og bílaferja sem tekur um 2.500 farþega og 400 bíla. Baltic Queen er heldur stærra og tekur 2.800 farþega. Lagt er af stað fra Värtahamnen í Stokkhólmi kl. 17.30.

Baltic Queen tekur 2.800 farþega í siglingum milli Stokkhólms og …
Baltic Queen tekur 2.800 farþega í siglingum milli Stokkhólms og Tallinn. Mynd/OÓ

Siglingin gegnum skerjagarðinn tekur um þrjá tíma og er áhugavert að virða fyrir sér sumarhús Svía á skógi vöxnum skerjunum. Við flest húsin eru bryggjur og smábátar. Þegar sjónarspili skerjagarðsins lýkur er kominn kvöldmatartími. Tvísetið er í matsalinn, þar sem boðið er upp á hlaðborð þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Engum þarf að leiðast í sjóferðinni því margt er í boði; kabarett, bingó, dansleikur, píanóbar, veitingastaðir, barir, verslanir, spilavíti og leikherbergi fyrir yngstu farþegana o.fl. Hægt er að djamma fram á nótt hvort sem er á syfjulegum píanóbarnum eða á ballinu þar sem hljómsveit skipsins leikur fyir dansi. Morguninn eftir er lagt að bryggju í Tallinn kl. 10.15. Ódýrir leigubílar bíða á bryggjunni eftir þeim farþegum sem ekki hrúgast í rúturnar. Leiðin liggur á hið ágæta Hótel Savoy Boutique í gamla borgarhlutanum.

Gamla borgin

Tallinn er höfuðborg Eistlands og búa þar yfir 450 þúsund manns. Áhugi flestra ferðamanna beinist að gamla borgarhlutanum, sem hefur varðveist vel frá seinni hluta miðalda. Heillandi er að ganga þar um götur, sem flestar eru steinlagðar og henta ekki fyrir háa hæla. Meirihluti borgarmúranna er enn uppistandandi og í góðu ástandi. Lengd þeirra nær tæpum 2 kílómetrum og með 20 virkisturnum setja þeir sterkan svip á borgina. Dálítið eins og að fara aftur í tímann.

Ráðhústorgið er miðstöð mannlífsins í gamla bænum. Þar eru oft …
Ráðhústorgið er miðstöð mannlífsins í gamla bænum. Þar eru oft útimarkaðir, tónleikar og ýmis hátíðahöld. Mynd/OÓ

Gamla ráðhústorgið er miðja gamla bæjarins, umkringt veitingastöðum á þrjá vegu. Í nærliggjandi götum er einnig fjöldi veitingastaða. Olde Hansa við Vana Turg 1 er það eftirminnilegasta. Þar eru innréttingar, veitingar og klæðnaður starfsfólks í fimmtándu aldar stíl og snætt við kertaljós. Ýmsa framandi rétti má finna þar á matseðlinum, svo sem bjarndýrasteik, villisvín og elgsdýr sem renna má niður með heimagerðu hunangsöli.

Á veitingastaðnum Olde Hansa er þjónustufólk klætt samkvæmt fatatísku gullaldar …
Á veitingastaðnum Olde Hansa er þjónustufólk klætt samkvæmt fatatísku gullaldar Hansakaupmanna á fimmtándu öld. mynd/OÓ

Undirritaður var þó ekki hugaðri en svo að hann fékk sér Himalaya-lambasteik sem reyndist afar ljúffeng. Almennt má segja að matsölustaðir séu mjög góðir í Tallinn. Verðlag á þessum slóðum er svipað og víða í Vestur-Evrópu. Vilji menn hlífa pyngjunni er betra að fara aðeins fjær ráðhústorginu.

Langagata og Toompea

Langagata eða Pikk Jalg er ein helsta gatan í miðbænum. Þar eru veitingahús, verslanir, söfn og gistihús ásamt hinu virðulega kaffihúsi Maiasmokk sem hefur verið starfrækt á sama stað síðan 1864. Innréttingar á fyrstu hæðinni hafa að mestu verið óbreyttar í um 100 ár. Þegar inn er komið eru til sýnis og sölu snotur marsipandýr í gjafaumbúðum.

Á fyrstu hæð Maiasmokk-kaffihússins hafa innréttingar verið að mestu óbreyttar …
Á fyrstu hæð Maiasmokk-kaffihússins hafa innréttingar verið að mestu óbreyttar í um hundrað ár. Mynd/OÓ

Fjölbreytt úrval er af kökum og konfekti með kaffinu. Uppi á annarri hæð er tveggja manna borð með skemmtilegu útsýni yfir Pikk-stræti sem liggur upp á kastalahæðina Toompea. Þegar þangað er komið blasir við hin skrautlega rússneska Alexander Nevsky-rétttrúnaðarkirkja, en rúmlega þriðjungur borgarbúa er rússneskumælandi. Hún var reist kringum árið 1900 til að leggja áherslu á vald keisaradæmisins yfir landinu.

Horft til norðurs yfir gamla bæinn frá Patkuli vaateplats.
Horft til norðurs yfir gamla bæinn frá Patkuli vaateplats. mynd/OÓ

Í hverfinu eru ýmsar fleiri stjórnarbyggingar ásamt nokkrum sendiráðum. Á hæðinni eru frábærir útsýnisstaðir, sérlega hentugir fyrir þá sem ekki hafa heilsu til að klifra upp í kirkjuturna. Frá útsýnispallinum við Patkuli vaateplats er frábært útsýni til norðurs yfir borgina, þar sem virkisturnarnir njóta sín vel. Bak við pallinn er stórglæsileg verslun með óvenju fjölbreyttu úrvali handverksmuna og minjagripa. Útsýnispallurinn Kohtuotsa út frá Kohtu-götu veitir frábært útsýni til austurs yfir borgina. Mjósleginn ráðhústurninn, kirkjuturnarnir og virkisturnarnir innan um rauð tígulsteinsþökin. Í fjarska eru svo háhýsi nýja miðbæjarins og skemmtiferðaskipin í höfninni. Trúbadúr nokkur af eldri kynslóðinni gerði mikla lukku meðal kínverskra ferðamanna, þegar hann tók nokkra slagara á máli þeirra.

Ferðast um borgina

Gamli bærinn innan borgarmúra er það lítill að allt er í stuttu göngufæri. Til að kynnast Tallinn er ágætt að koma við á upplýsingamiðstöðinni við Niguliste 2, örskammt frá ráðhústorginu. Þar er hægt að fá ýmiss konar kort af borginni. Eitt það aðgengilegasta heitir „Free map made by locals“. Þar eru einnig ágætar upplýsingar um ýmsa áhugaverða staði.

Ef ætlunin er að fara vítt og breitt um borgina með strætisvögnum og sporvögnum er „Tallinn – Public Transport for visitors“ alveg ómissandi. Það sýnir allar strætó- og sporvagnaleiðir með númerum. Eitt far í strætó kostar 2 evrur hjá bílstjóra. Hægt er að fá Smartcard á blaðsölustöðum og víðar fyrir 2 evrur. Með því er hægt að kaupa innlegg fyrir aðgang í strætisvagna og sporvagna. 5 dagar kosta 6 evrur, en mánuðurinn 23 evrur. Kortalesari er inni í vögnunum. Þeir sem hyggjast fara víða til að skoða söfnin geta fengið sér „Tallinn Card“ sem fæst í upplýsingamiðstöðinni. Það veitir aðgang í yfir 40 söfn og alla strætisvagna og sporvagna. Sólarhringskort kostar 24 evrur, en þrír sólarhringar 45 evrur.

Oma Asi design er athyglisverð hönnunarverslun í mjóu sundi milli …
Oma Asi design er athyglisverð hönnunarverslun í mjóu sundi milli ráðhústorgsins og Pikk Jalg. mynd/OÓ

Undirritaður skellti sér í nokkur strætóferðalög til að skoða byggðasafnið og Kadriorg-skrúðgarðana, en þar er sumarhöll Rússakeisara, sem Pétur mikli lét reisa skömmu eftir að hann lagði landið undir sig árið 1810. Höllin er nú deild i listasafni eistneska ríkisins, helguð verkum eldri meistara. Skammt þar frá er listasafnið KUMU sem vígt var árið 2006 og sýnir listaverk frá nítjándu öld fram til dagsins í dag. Í Kadriorg-garðinum má svo finna lítið barnvænt tívolí.

Danska þjóðsagan

Á þrettándu öld stóð yfir mikið átak að kristna þjóðirnar við austanvert Eystrasalt. Á þeim tíma þótti sverðið henta best til kristniboðs. Sagan segir að sumarið 1219 hafi Danir háð mikla orrustu við heimamenn um hæð eina á norðurströnd Eistlands. Þegar hallaði á Danina opnuðust himnarnir og birtist fáni mikill, rauður með hvítum krossi og sveif til jarðar. Danski herinn með Valdimar 2. konung í broddi fylkingar efldist mjög við þessa sýn og náði hæðinni á sitt vald. Fáninn var kallaður Dannebrog og varð þaðan í frá þjóðfáni Danmerkur. Danir komu sér fyrir á hæðinni, reistu kastala og virkismúra utan um þorpið. Heimamenn nefndu hæðina Taani Linn, sem þýðir Danavirki. Nafnið var síðan stytt í Tallinn.

Nokkrum árum síðar hröktu þýsku krossriddararnir Dani frá borginni og í kjölfarið komu Hansakaupmenn sér þægilega fyrir og nefndu þeir borgina Reval, en Eistland ásamt Lettlandi var kallað Livland á þeim tíma sem þýska riddarareglan réð ríkjum. Borgin varð síðan öflug og mikilvæg verslunarborg. Þegar Eistland fékk sjálfstæði árið 1918 var nafninu borgarinnar aftur breytt í Tallinn.

Hægt að bóka sjóferðina á netinu

Ferjurnar Victoria og Baltic Queen bjóða upp á 2ja og 4 manna klefa. Baltic Queen er auk þess með fjölskylduklefa fyrir allt að átta manns, þar af minnst 2 börn. Ef óskað er eftir sjávarsýn gegnum kýrauga þarf að panta klefa í A-flokki, eða A-class cabin. 2ja manna klefarnir eru um 9 fermetrar og kosta frá 110 evrum aðra leiðina, dálítið misjafnt eftir dögum. Hægt er að bóka ferðina ásamt kvöldverðarhlaðborði á þessari síðu

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka