Færst hefur í vöxt að flugfélög brjóti niður kostnað vegna flugferða þannig að farþegar borgi fyrir fargjaldið, töskuna og sætið sitt í hvoru lagi. Úr vöndu getur verið að ráða þegar flug er bókað og miklu skiptir að kynna sér vandlega hvað er innifalið í því gjaldi sem greitt er.
En það er fleira en samsetning fargjalds sem þarf að skoða, til dæmis er góð hugmynd að kynna sér vel og vandlega þau réttindi sem flugfarþegar njóta.
„Við fáum fullt af alls konar fyrirspurnum varðandi flugfargjöld,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Hann segir að mest hafi farið fyrir tvennu í sambandi við réttindi flugfarþega: annars vegar leiti fólk eftir upplýsingum varðandi svokallaða „no show“-reglu og hins vegar leiti fólk til samtakanna vegna ógreiddra bóta frá flugfélögum.
Breki útskýrir að hin svokallaða no show-regla hafi verið gagnrýnd af samtökum neytenda víða um Evrópu og nú hilli undir að hún heyri sögunni til. „Ef þú átt bókað flug en t.d. nýtir ekki flugið af einhverjum ástæðum þá áttu samt rétt á að nýta hinn legginn, flugið heim. En flugfélög hafa ekki alltaf viljað viðurkenna að farþegar eigi rétt á að nota bara annan fluglegginn hafi báðir verið keyptir. Nú er búið að dæma í tveimur málum, í Spáni og í Noregi, og þar með komið fordæmi fyrir því að þessi regla flugfélaganna standist ekki Evrópulög. Þar af leiðandi munu flugfélög væntanlega bara hlíta því.“
Hann segir að flugfélög hér á landi hafi oftast haft þann háttinn á að leyfa fólki að nýta bara annan fluglegg sé látið vita með nægum fyrirvara, en þó séu dæmi um ágreining sem hafi risið í þeim tilvikum sem fólk mætir ekki.
Önnur flugfargjaldatengd mál sem koma gjarnan inn á borð Neytendasamtakanna tengjast innheimtu bóta fyrir flug sem fellt er niður. „Þess eru dæmi að það taki óratíma að greiða út bætur sem fólk á rétt á, jafnvel þótt bótaskyldan sé ljós og hafi verið samþykkt. Það getur reynst þrautin þyngri að fá þetta í gegn. Við höfum verið að annast milligöngu fyrir félagsmenn okkar og ýta á eftir því. Þetta á alls ekki við um öll flugfélög, en við höfum fengið svona dæmi til okkar og hjálpum þá félagsmönnum okkar að sækja rétt sinn.“
Breki segist telja að fólk sé almennt frekar meðvitað um rétt sinn en þó sé full ástæða til að benda fólki á þau réttindi sem gildi ef flug fellur niður.
„Ef þú kaupir flugmiða hjá fyrirtæki og fyrirtækið fellir niður flugið áttu rétt á að velja um þrennt: endurgreiðslu, inneign hjá flugfélaginu eða að láta flugfélagið redda þér á áfangastað eins nálægt dagsetningu upphaflega flugsins og mögulegt er án þess að komi til aukagjalda fyrir þig. Þetta á alltaf við þegar flugferð er felld niður.
Hafi flugfélag boðið þér miða til sölu og þú keypt miða þá ber flugfélaginu að útvega þér annan miða ef flug er fellt niður, jafnvel þótt það hætti sjálft að fljúga til viðkomandi áfangastaðar. Þá þarf að útvega miða með öðru flugfélagi,“ bendir Breki á.
Tökum sem dæmi fjögurra manna fjölskyldu sem skreppur í sólarferð. Ef aðeins þarf að taka léttan fatnað er kannski ekki þörf á nema tveimur töskum, í stað fjögurra. Þá þarf að hafa í huga að bókunarvélar flugfargjalda eru almennt þannig úr garði gerðar að bóka þarf alla í sömu bókun á sama fargjald. Það getur því verið snjallt að bóka ódýrasta fargjald fyrir alla fjölskylduna, með engri farangursheimild, en bæta svo tveimur töskum við þegar boðið er að kaupa farangursheimild síðar í ferlinu.
Á heimleið væri svo hægt að kaupa fleiri töskur, bóka annars konar fargjald með meiri farangursheimild, ef fólk sér fram á að versla í ferðinni og vill geta haft möguleikann á meiri farangri til baka.
Hverjar svo sem þarfir fólks eru þá er alltaf góð hugmynd að prófa sig áfram í bókunarvélum og skoða hvaða fargjald kemur best út miðað við þarfir ferðalanga.
Þegar ferðast er með börn viljum við að sjálfsögðu hafa áhrif á það hvar fjölskyldan situr og tryggja að allir séu saman en tvístrist ekki um alla vél. En þegar við erum ein á ferð er auðvitað vel hægt að spara sér það að greiða fyrir val á sæti, nema fólk vilji með öllum ráðum forðast miðjusæti. Þá er það einhvers virði og við greiðum fyrir það.
Svo má líka alveg meta þörf á þessu í samhengi við lengd flugs. Nú þarf til dæmis að greiða fyrir sæti í innanlandsflugi hér á landi. Hjá Air Iceland Connect kostar 990 krónur að velja gluggasæti og 790 krónur að velja sæti við gang. Ef tveir ferðast saman þarf því að greiða aukalega 1.780 krónur fyrir að vera örugglega hlið við hlið á þessum 45 mínútum sem það tekur að komast frá Reykjavík til Akureyrar. Það skiptir líklega flesta meira máli að huga vandlega að sætisvali í lengri flugferðum.
Sömu reglur gilda um allar flugferðir sem annaðhvort hefjast eða enda í Evrópulandi. Flug til og frá Íslandi lýtur því sömu reglum og flug til og frá öðrum áfangstöðum í Evrópu. Upplýsingar um þau réttindi sem flugfarþegar njóta og þær skyldur sem þeir gangast undir er hægt að finna á vef Samgöngustofu.