Hún segist að mestu fara á milli staða hjólandi enda borgin einstaklega hentug fyrir þá farskjóta. „Ég var nú ekki mikill hjólagarpur á Íslandi en hér fer ég næstum allra minna ferða hjólandi. Veðrið er auðvitað mun betur til þess fallið en á Íslandi og svo eru alls staðar góðir hjólastígar og allt á jafnsléttu. Metróið er líka frábær kostur hér - nýtt, hreint og oftast ekki nema tvær mínútur á milli lesta. Gert er ráð fyrir því að nýja lína, hringlestin,opni nú í sumar og mun kerfið þá ná til mun fleiri staða í borginni.“
Hver er eftirlætis veitingastaðurinn þinn í borginni?
„Þeir eru margir enda er Kaupmannahöfn orðin sannkölluð matarmekka. Við hátíðleg tækifæri mæli ég með Mielcke og Hurtigkarl í Frederiksberg garðinum. Hann er ekki enn kominn með Michelin stjörnu en kunnugir segja að það se ekki langt í hana. Maturinn er hugmyndaríkur en einnig ótrúlega bragðgóður og umhverfið gullfallegt. Við annan inngang að Frederiksberg garðinum er svo frábært franskt brasserie sem heitir Sokkelund. Þar er alltaf góður matur og stemmning frá morgni til kvölds. Svo er auðvitað klassískt að fá sér smørrebrød í hádeginu á einum af rótgrónu dönsku veitingastöðunum sem ekkert hafa breyst í áratugi eða jafnvel aldir, t.d. á Kronborg.“
Hvaða söfn er ómissandi að heimsækja?
„Það eru mörg falleg listasöfn í Kaupmannahöfn, t.d. Statens Museum for Kunst, Thorvaldssen safnið, Den Hirschsprungske Samling og Louisiana. Strákunum mínum finnst þó meira spennandi að heimsækja Experimentarium sem er vísindasafn í Hellerup þar sem fræðin eru útskýrð á spennandi og aðgengilegan hátt fyrir börn á öllum aldri. Við vorum svo hrifin í fyrstu heimsókninni að við breyttum aðgöngumiðanum í árskort. Svo mæli ég eindregið með því að fólk geri sér ferð yfir brúnna frá Nyhavn yfir á Christianshavn og líti við í menningarhúsi Íslands, Færeyja og Grænlands, Nordatlantens Brygge, sem er í sama húsi og íslenska sendiráðið. Þar eru mismunandi listasýningar frá löndunum þremur, nýverið hafa t.d. verið sýningar á verkum Þrándar Þórarinssonar og á íslenskri samtímalist. Það er líka gaman að sjá hvernig þetta fallega gamla pakkhús frá 18. öld, sem tengist sögu landanna þriggja og verslun þeirra við Danmörku, hefur verið gert upp og fengið nýtt hlutverk. Á Norðurbryggju er líka mikið líf og fjör á sumrin, þar er frábær matarmarkaður og fólk sólar sig og stingur sér til sunds í vatninu á góðviðrisdögum. Það er þó oft rekið uppúr jafnóðum.“
Hvert er þitt eftirlætis kaffihús?
„Danir kunna svo sannarlega að meta gott kaffi og því eru gæðakaffihús nánast á hverju götuhorni. Á virkum dögum fæ ég mér oft morgunkaffi á The Corner 108 sem er kaffihús og vínbar við hliðina á Michelin veitingastaðnum 108 sem er rekinn af sömu veitingamönnunum og Noma. Þar er mikill metnaður bæði í kaffinu og nýbökuðum smjördeigssnúðum með brögðum á borð við sólberja, kaffi kombucha og möndlu/kanil. Staðurinn er við hliðina á vinnustaðnum mínum sem er hættulegt bæði fyrir vigtina og budduna en gott fyrir sálina, sérstaklega á köldum vertrarmorgnum. Coffee Collective býður líka uppá fyrsta flokks kaffi á nokkrum stöðum í borginni, m.a. í Torvehallerne, Jægersborggade í Nørrebro og á Godthåbsvej í Frederiksberg. Þegar kominn er tími á meiri hollustu er Acacia á Gammel Kongevej frábær kostur. Þetta er lítill og fallegur staður þar sem eigandinn og mamma hennar bera fram spennandi kræsingar úr plönturíkinu. Mæli sérstaklega meðmorgunmatnum þar, fyrir eða eftir göngutúr í Frederiksberg garðinum.“
Hvernig lítur draumadagur í Kaupmannahöfn út í þínum huga?
„Ég myndi byrja daginn á góðum morgunmat með fjölskyldunni, t.d. á Granola á Værnedamsvej sem er skemmtileg lítil gata með frönsku yfirbragði og fullt af spennandi kaffihúsum, búðum og veitingastöðum. Síðan myndi ég hjóla meðfram Søerne í matarmarkaðinn Torvehallerne sem er sannkallað himnaríki sælkera. Þar er gott að versla í matinn um helgar, ná í ferskt grænmeti, blóm, bestu flødebollur í bænum og gæðavín. Eftir allan matinn væri kominn tími fyrir smá menningu, það er til dæmis alltaf gott fyrir andann að rölta um á ríkislistasafninu sem er ekki langt frá Torvehallerne. Á draumadeginum væri svo upplagt að hitta góðar vinkonur og fá sér síðbúinn og langan hádegisverð, t.d. á Sokkelund eða Café Viktor. Þegar vel viðrar er gaman að fara í siglingu um síkin í Christianshavn, það er t.d. auðvelt að leigja lítinn bát í einn eða tvo tíma hjá GoBoat, eða fara með teppi og góða bók í Frederiksberg garðinn. Kvöldið myndi svo byrja á bestu kokteilum í bænum á Lidkoeb áður en haldið yrði á einhvern góðan veitingastað. Ætli ég myndi ekki splæsa í kvöldverð á Mielke og Hurtigkarl, fyrst að þetta er draumadagurinn.“
Hvað er ómissandi að sjá í Kaupmannahöfn?
„Fyrir Íslendinga sem heimsækja Kaupmannahöfn er ómissandi að fara á Íslendingaslóðir og kynna sér sögu gömlu höfuðborgarinnar. Ef fólk hefur tíma til að vinna heimavinnuna er fróðlegt að glugga í bók Guðjóns Friðrikssonar og Jóns Þ. Þórs, Kaupmannahöfn sem höfuðborg Íslands, eða horfa á þætti Egils Helgasonar sem sýndir voru á RÚV í fyrra. Það er líka þægilegt að láta aðra vinna vinnuna fyrir sig og bregða sér í göngu- eða hjólaferð um borgina með íslenskum leiðsögumönnum. Ásta Stefánsdóttir og Hrannar Hólm bjóða t.d. upp á áhugaverðar ferðir og þekkja margar skondnar sögur af forfeðrum okkar í Kaupmannahöfn. Fyrsti viðkomustaður á Íslendingaslóðum er auðvitað Jónshús, þar sem nýlega var opnuð sýningin Heimili Ingibjargar og Jóns. Gamla íbúðin þeirra hefur verið endurgerð eins nákvæmlega og kostur er og geta gestir gengið um hana eins og þeir væru í heimsókn hjá þessum heiðurshjónum fyrir um 150 árum.”
Er eitthvað áhugavert að gerast í borginni á næstunni?
„Já það er alltaf eitthvað að gerast í Kaupmannahöfn. Nú er vorið og sumarið framundan og þá lifnar yfir borginni og íbúunum. Í lok maí er Copenhagen Art Week og hátíðin 3 Days of Design sem Ísland tók virkan þátt í á fullveldisafmælinu í fyrra, m.a. með sýningu íslenskra hönnuða í Illums Bolighus. Svo hlakka strákarnir mínir mikið til þess þegar Tivoli opnaraftur um páskana.“