„Ég starfaði fyrst sem veitingastjóri og tók við sem hótelstjóri fyrir rúmu ári.“ Hótelið er núna rúmlega 100 herbergi en yfir standa mikla framkvæmdir og bætast við 25 herbergi í byrjun sumars. Aðspurð hvort hótelið hafi breytt einhverju fyrir svæðið segir Harpa svo vera þar sem þetta sé eitt vinsælasta ferðamannasvæðið á landinu. „Svona hótel bætir í viðskipti annarra á svæðinu, sérstaklega afþreyingarfyrirtækjanna, heiðarleg samkeppni er alltaf af hinu góða.“
Hvað er hægt að gera í nágrenninu?
„Þetta er nánast endalaus uppspretta af afþreyingu, hér er hægt að fara í bátsferðir bæði á Jökulsárlóni og Fjallsárlóni, íshellaferðir, jöklagöngur, útsýnisflug frá Freysnesi, lundaskoðun í Ingólfshöfða, fyrir utan merktar gönguleiðir eins og að Svartafossi og um Skaftafell. Flest fyrirtækin eru með íshellaferðir á veturna og jöklagöngur á sumrin þar sem íshellarnir eru ekki öruggir á sumrin. Svo er safn á Hala og hér í sveitinni hefur verið starfrækt hestaleiga, það er síðan mikið líf áfram þegar keyrt er austur að Höfn, margar fallegar gönguleiðir t.d. Svo er töluvert af staðvinnslu á hráefni, jöklaís og Skaftafell delicatessen til dæmis.“
Hvað finnst þér skemmtilegast að gera á svæðinu?
„Mér finnst Svínafellsjökull æði, ég upplifi einhvers konar núllstillingu við að labba í nágrenni við hann. Eins höfum við verið aðeins með hesta og þetta er frábært svæði til útreiða.“
Harpa býr í nágrenni við hótelið ásamt eiginmanni, sem vinnur á hótelinu, og tveimur sonum sem eru í grunnskóla á svæðinu en sá elsti býr á Selfossi sþar em hann sækir skóla. „Það er alveg frábært hér í Öræfunum, hér er mikil samheldni og margt skemmtilegt fólk. Frábært svæði til útivistar og klárlega algjör sveitasæla.“