Askja kom fyrst að mótinu árið 2014 undir merkjum Kia og hefur síðan verið aðalkostandi mótsins. „Við höfum verið virkilega ánægð með samstarfið undanfarin 5 ár. Keppnin hefur vaxið og dafnað. Þetta er einn liður í því að koma Kia á framfæri og eiga góðan dag með íslensku hjólreiðafólki og fjölskyldum þeirra. Þetta verkefni hefur gengið vel. Við leggjum enn meira í keppnina á komandi árum og þá sérstaklega til þess að tryggja öryggi keppenda, og um leið gera umgjörðina enn skemmtilegri,“ segir Jón Trausti Ólafsson framkvæmdastjóri Öskju. Skráning hefst formlega í Kia-gullhringinn laugardaginn 30. mars í nýjum húsakynnum Kia á Íslandi klukkan 13:00 en keppnin er nú haldin í áttunda sinn, en hún hefur verið haldin á Laugarvatni frá því 1. september 2012. Keppnin hefur verið ein sú vinsælasta og fjölmennasta í hjólreiðunum og hefur það verið sérstakt aðdráttarafl hennar að hún býður upp á vegalengdir við allra hæfi og þar keppa byrjendur jafnt sem lengra komnir og allir skemmta sér konunglega saman. Takmarkanir hafa verið settar á mótið í ár og verða ekki fleira en 500 keppendur skráðir til leiks. Keppnin fer svo fram 31. ágúst og ræst verður frá Laugarvatni að vanda. |