Þessi tilfinning að fara fyrst inn í vélina og hafa tíma til að koma sér fyrir í rólegheitum er notaleg og róandi. Öfugt við það þegar maður ferðast með vinum sínum en þá kemur það fyrir að maður er sá allra síðasti í vélina, kófsveittur og másandi. Í raunveruleikanum er þetta þó oft aðeins öðruvísi, þegar búið er að koma barninu fyrir þá byrjar biðin fyrir alvöru. Farþegar hrúgast inn og troða töskum í öll laus rými, þetta getur gengið ansi hægt fyrir sig. Svo er það alltaf þessi eini farþegi sem lætur bíða eftir sér og er kallaður upp í kerfinu. Allt í einu eru liðnar 30 mínútur og barnið eða börnin farin að ókyrrast. Annað barnið þarf að fara á salernið, aftur, og hitt er svangt. Þeim er heitt eða kalt eða vilja ekki sitja lengur, þið þekkið þetta kannski mörg.
Þú lítur út um gluggann og sérð að það er enn verið að ferma vélina. Eftir að hafa setið 40 mínútur í vélinni er loks farið að undirbúa brottför. Þá er mjög klassískt að einhver spyrji hvað það sé langt eftir. Bugun. Næst þegar þér er boðið að fara með þeim fyrstu um borð með börnin mæli ég með því að þú látir þau hreyfa sig vel í biðsalnum og gangir með þeim síðustu um borð, svo lengi sem sætin þín eru tryggð. Þannig styttist biðtími barnanna og ferðin er líklegri til að verða betri.