Í kjölfarið hefur Sölvi haldið tugi fyrirlestra og er hvergi nærri hættur þeirri iðju enda eftirspurnin mikil. „Ég hef síðan bókin mín kom út í byrjun ársins fengið algjörlega geggjuð viðbrögð frá fólki og verið beðinn um að halda fyrirlestra um allt land. Mér telst til að ég hafi haldið 50 fyrirlestra á síðustu 60 dögum og er gífurlega þakklátur fyrir viðbrögðin og ætla að halda áfram að tala um efnið í bókinni minni á meðan fólk hefur áhuga á að hlusta. Bókin byggir á mikilli vinnu og er mjög persónuleg, þannig að ég get eiginlega varla lýst því hvað það gleður mig mikið að hafa fengið svona góð viðbrögð.“
Þessa dagana er Sölvi staddur í Tulum á Yucatan-skaganum í Mexíkó þar sem hann nýtur lífsins um stund. „Ég er búinn að halda fyrirlestra, vinnustofur og námskeið fyrir vel á þriðja þúsund manns það sem af er árinu og varla tekið einn dag í frí, þannig að það var kominn tími á smá hleðslu.“ Að sögn Sölva hefur hann alltaf haft mikla þörf fyrir að prófa nýja hluti þótt það hafi ekki verið fyrr en fyrir 10 árum að ferðabakterían hafi byrjað fyrir alvöru. „Þá hafði ég komið til 12 landa, en nú eru löndin sem ég hef heimsótt orðin fleiri en 50. Planið er að ná að hafa heimsótt minnst 100 lönd þegar ég verð fimmtugur og svo vonandi öll áður en yfir lýkur,“ segir Sölvi sem ferðast hefur heimshorna á milli og meðal annars heimsótt óhefðbundna áfangastaði eins og Haiti, Sri Lanka, Úkraínu og Líbanon.
Þegar Sölvi er beðinn um nokkur góð ferðaráð segir hann það vera númer eitt að sleppa tökunum á því að vera alltaf með dagskrá og finnast maður alltaf vera með dagskrá. „Mín bestu augnablik á ferðalögum hafa mjög oft komið þegar ég ákvað að hafa enga dagskrá og leyfa hlutum að gerast. Ég er kannski ekki alveg hefðbundinn að því leyti að ég ferðast mjög mikið, en ég er farinn að skipta ferðalögum dálítið mikið í tvenns konar ferðir. Annars vegar ferðir þar sem aðalpælingin er að hlaða mig, slappa af, skipuleggja næstu skref í vinnu og njóta þess að vera á fallegum stað. Í þannig ferðum fylli ég á tankinn og fæ oft betri yfirsýn yfir það hvernig ég ætla að gera hlutina þegar ég kem heim. Svo eru það hins vegar ferðalög sem ganga meira út á ævintýri, flakka og gera og græja. Þá er gírinn meira að gera sem allra mest og segja aldrei nei við neinu. Mér finnst betra að fara í þannig ferðir ef ég hef aðeins lengri tíma og er ekki með neina vinnu með mér.“
Fram undan eru námskeið þar sem farið er dýpra í þau atriði sem Sölvi fjallar um í bókinni eins og kuldaþerapíu, hugleiðslu, öndun, næringu, föstur, heilastarfsemi og fleira því tengt. „Viðbrögðin hafa verið framar öllum vonum og ég er þegar byrjaður að bóka fyrirlestra í fyrirtæki og sveitarfélög fram á næsta haust,“ segir hann. Fylgjast má með Sölva á Facebook-síðu hans en þar er að finna allar upplýsingar um næstu námskeið. Einnig má fylgja Sölva á Instagram - solvitrygg