Hótelið er rekið af bandaríska ferðaþjónustufyrirtækinu Eleven Experience sem staðsett er í Colorado. Fyrirtækið rekur jafnframt lúxushótel, íbúðir og skíðaskála á framandi áfangastöðum víða um heim, til að mynda í frönsku Ölpunum, Patagoníu í Chile og í Klettafjöllunum í Bandaríkjunum. Að sögn Hauks B. Sigmarssonar, framkvæmdastjóra Eleven Experience á Íslandi, er lagt upp með að þjónusta fyrirtækisins sé sniðin að þörfum viðskiptavina með tilheyrandi útbúnaði, þægindum og möguleikum til afþreyingar og ævintýra. ,,Eleven Experience leggur áherslu á sérsniðna upplifun gesta sinna, náttúruvernd og góða nýtingu á náttúruauðlindum.”
Ferðaþjónustunni á hótelinu er skipt niður í tvö tímabil, á veturna er boðið upp á allt sem tengt er skíðaíþróttinni en á sumrin er boðið upp á veiði, kajak, hestaferðir, fjallahjól og fleira. Gestir geta því flestallir fundið eitthvað við sitt hæfi.
Haukur segist þakklátur fyrir viðbrögðin sem hótelið hefur fengið frá alþjóðlegum gestum eða virtum ferðatímaritum og sé því tilnefning frá Conde Nast Traveler rós í hnappagatið. ,,Við lítum jafnframt svo á að þetta sé staðfesting á þeirri hugsjón sem fyrirtæki okkar starfar eftir. Markmið okkar er að gestir okkar upplifa alltaf sinn besta dag óháð hvar í heiminum þeir eru staddir eða stödd.” Hægt er taka þátt í kosningunni á vef ferðatímaritsins.