Ævintýraleg fjölskylduhelgi á Húsavík

Ljúf stund í Geo Sea sjóböðunum.
Ljúf stund í Geo Sea sjóböðunum. Ljósmyndari/Anna Margrét

Við fjölskyldan fórum í slíka ferð um síðustu helgi til bæjarins fagra í norðri til þess að fara í hvalaskoðun og dýfa okkur ofan í heitu sjóböðin.

Það tekur aðeins fimmtíu mínútur að fljúga til Húsavíkur með Flugfélaginu Erni sem er staðsett Nauthólsvíkurmegin við Reykjavíkurflugvöll. Það er jafnframt mjög skemmtileg reynsla að fljúga með dimmbláu Jetstream 32-vélinni þeirra norður og njóta útsýnisins yfir hálendið á leiðnni. Örnefnið Húsavík er talið vera það elsta á Íslandi en hún var nefnd af Garðari Svavarsyni, sænskum víkingi sem sigldi til Íslands árið 860 og hafði þar vetursetu. Húsavík er orðinn vinsæll áfangastaður fyrir ferðamenn, bæði markar hún upphaf hins svokallaða Demantshrings en hann er vegur sem liggur frá bænum að Ásbyrgi og Hljóðaklettum og þaðan að Dettifossi sem er kraftmesti foss Evrópu. Húsavík er einnig orðin þekkt á heimsvísu sem hvalaskoðunarborg en þar er mjög algengt að sjá stórhveli eins og langreyð og hnúfubak sem óalgengt er að sjá í hvalaskoðun fyrir sunnan.

Við lentum á föstudagseftirmiðdegi í Húsavík og þaðan lá leiðin frá flugvellinum á Fosshótel Húsavík en það er nútímalegt ráðstefnuhótel í hjarta bæjarins. Hótelið er vinalegt og fjölskylduvænt en það býður einnig upp á ráðstefnu-, veislu- og fundarsali sem rúma allt að 350 manns. Eftir stutta gönguferð að höfninni og innlit í brugghús Húsavíkur, Húsavíkuröl á Héðinsbraut, ákváðum við að snæða á hótelinu. Hvalir og hafið setja svip sinn á innréttingarnar á barnum og veitingasalnum sem heitir einmitt Moby Dick. Sjö ára dóttir mín var alsæl með flottan barnaseðil og liti sem hún fékk og við fengum ljúffenga og fallega framsetta hreindýrahamborgara á meðan sú stutta fékk sér frábæra súrdeigspizzu og þjónusta var til fyrirmyndar. Við fórum snemma í háttinn enda langur og spennandi dagur fram undan næsta dag.

Fosshótelið á Húsavík.
Fosshótelið á Húsavík. Ljósmynd/Anna Margrét

Eftir vel útilátinn morgunverð á laugardagsmorgni fórum við niður að höfninni en við áttum bókaða siglingu með hvalaskoðunarfyrirtækinu Gentle Giants. Fyrirtækið hefur boðið upp á hvalaskoðun frá Húsavík síðan 2001 um Skjálfandaflóa en það býður einnig upp á ferðir með hraðbát og sjóstangaveiðiferðir. Veðrið var dásamlegt, himinninn blár og sólin skein en þrátt fyrir það sem leit út fyrir að vera blankalogn sagði þýski leiðsögumaðurinn á bátnum okkur að sjórinn væri úfinn þegar út í flóann væri komið og mikill öldugangur. Við ákváðum að gleyma öllum áhyggjum um sjóveiki og klæddum okkur í samfestinga til þess að halda á okkur hlýju á hafi úti.

Fjölskyldan í hvalaskoðun.
Fjölskyldan í hvalaskoðun. Ljósmynd/Anna Margrét

Báturinn þeystist upp og niður eftir öldunum en sem betur fer var það bara spennandi og enginn fann fyrir sjóveiki. Innan skamms sáum við hóp höfrunga stinga sér upp úr sjónum við sjóndeildarhringinn, og ekki leið á löngu þar til tvær langreyðar syntu vinstra megin við bátinn og komu upp til að anda. Þetta var stórfengleg sjón enda er þessi hvalategund sú næststærsta í heimi á eftir steypireyð. Skömmu síðar elti báturinn þrjá hnúfubaka um stund og það var dásamlegt að sjá þá stinga sér upp úr yfirborðinu og sjá fallegan hvítan sporðinn standa upp úr haffletinum um stund. Dóttir mín var svo glöð að sjá þessi stóru spendýr rétt við bátinn að hún táraðist af gleði og spenningi og ákvað að hvalir væru hér eftir uppáhaldsdýrin hennar. Frábær og eftirminnileg sigling í alla staði.

Eftir hádegi ákváðum við að fara í GeoSea-sjóböðin en það er hægt að fara þangað með leigubíl eða ganga í um það bil fimmtán mínútur. Þau eru staðsett uppi á höfðanum og skarta stórfenglegu útsýni yfir Skjálfandaflóa. Húsvíkingar hafa lengi notað jarðhitann til baða og þvotta en þegar borað var eftir vatni á Húsavíkurhöfða um miðja síðustu öld kom í ljós að það var sjór sem var of steinefnaríkur til að nota til þess að hita hús. Gömlu ostakari var komið fyrir þar, sem heimamenn notuðu áratugum saman til að lauga sig í enda þótti sjórinn vera alla meina bót, sérstaklega fyrir fólk með psoriasis.

Sjóböðin eru staðsett upp á höfðanum og skarta stórfenglegu útsýni …
Sjóböðin eru staðsett upp á höfðanum og skarta stórfenglegu útsýni yfir Skjálfandaflóa. Ljósmynd/Anna Margrét

Nýju sjóböðin opnuðu í fyrra og eru einstaklega fallega hönnuð þar sem þau bera við himininn og hafið og nánast renna saman við náttúruna. Það var einstök upplifun að renna út í hlýtt og notalegt vatnið og horfa yfir sjóinn og fjallahringinn. Hitastigið á böðunum er aðeins mismunandi svo allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi og svo er líka bar alveg upp við böðin og hægt að synda að honum og fá sér ávaxtasafa, gos eða Húsavíkuröl. Einnig er hægt að snæða á GeoSea-veitingastaðnum sem býður upp á heimalagaðar súpur og brauð. 

Eftir þennan viðburðaríka dag úti í náttúrunni héldum við svo aftur á hótelið þar sem við snæddum dýrindis tveggja rétta kvöldverð. 

Á sunnudeginum fengum við að heimsækja Könnunarsögusafn Íslands en þar hefur Örlygur Hnefill Örlygsson komið á fót stórmerkilegu safni sem er meðal annars tileinkað geimförunum sem flugu með Appollo 11 til tunglsins og æfðu fyrir þá frægu ferð á Íslandi. Á safninu er að finna minjagripi frá Appollo-leiðangrinum en einnig er hluti safnins tileinkaður ferðum á pólinn, könnunarleiðöngrum á hafsbotn og í hella. Skemmtilegt safn fyrir alla aldurshópa. 

Tilboð Flugfélagsins Ernis og Fosshótel Reykjavik stendur fram í lok mánaðarins og innifalið er flug báðar leiðir frá Reykjavík til Húsavíkur, gisting í Deluxe-herbergi og tveir miðar í GeoSea.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert