Gönguskíðaævintýri miðaldra konu. 

Raunir pistlahöfunds í baráttunni við gönguskíði.
Raunir pistlahöfunds í baráttunni við gönguskíði. Ljósmynd/Kjartan Long

Fólk sem hleypur maraþon reglulega og er í mjög góðu formi, þetta er ekki fólk eins og ég. Svo einn daginn fór ég í lunch með Unni Magnúsdóttir, eiganda Dale Carnegie.  Við vorum að ræða daginn og veginn og hún segir mér að hún ætli í Landvættina. Ég hugsaði þetta í smá stund og sagði svo, veistu mig vantar nýtt markmið, eitthvað til að keppa að. Ég held að Landvættirnar séu bara alveg málið, enda uppfull af sjálfstrausti eftir að hafa klárað 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu. 

Stuttu seinna var ég að spjalla við Hildu vinkonu og sagði henni að ég væri búin að ákveða að fara í Landvættina og fyrsta þrautin væri Fossavatnsgangan á Ísafirði, sem er 50 km skíðaganga.  Fimm mínútum seinna vorum við eiginlega alveg óvart búnar að skrá okkur í Fossavatnsgönguna, bóka gönguskíðanámskeið á Ísafirði og kaupa okkur flug.   

Þetta leit nú ekkert rosalega vel út í upphafi, það var snjólaust á Ísafirði og það þurfti að seinka námskeiðinu okkar fram til 6. Des. Við vorum á mörkunum að hætta við þar sem það var farið að líða að jólum en ákváðum að halda okkar striki.   

Ég átti engan útbúnað, hvorki skíðagræjur né föt þannig að ég ákvað að kaupa þetta allt hjá honum Bobba á Ísafirði.  Þetta var eiginlega ansi auðvelt, bara gefa upp hæð og þyngd. Það sem maðurinn var manískur með að ég gæfi upp rétta þyngd, eins og hann grunaði að kona sem var korter í fimmtugt myndi einhvern tímann ljúga til um þyngd.  Það kom síðan í ljós að það er víst lykilatriði til að skíðagangan gangi vel að gefa upp rétta þyngd, eitthvað með rennsli og svoleiðis.   

Ég er frá Dalvík, og þegar ég var að alast upp flestir á svigskíðum, enda áttum við Daníel Hilmarsson sem var skíðakóngurinn á þessum tíma.  Mig bara rekur ekki minni til að hafa séð neinn á gönguskíðum nema helst þá gamlar konur. Ég hafði aldrei horft á gönguskíðakeppni, enda fannst mér þetta bara drepleiðinleg og óspennandi íþrótt en hafði ákveðnar væntingar um þetta.  Mín hugmynd um skíðagöngu var sum sé, taktföst ganga á jafnsléttu.  Ég hafði litlar áhyggjur af skíðagöngunni.  Eftir að hafa tekið námskeið í Salsa og Batchata hjá Salsa Iceland í mörg ár vissi ég að takturinn var mér í blóð borinn, ég myndi rúlla þessu skíðadæmi upp. 

Ég dressaði mig upp og var bara nokkuð sátt með þetta.  Mætti á fyrstu æfinguna á Ísafirði.  Þá kom í ljós að flestir höfðu frestað námskeiðinu þar til eftir áramót þannig að í staðinn fyrir að vera 30 vorum við 10 en með 2-3 kennara.  Það átti eftir að reynast ansi vel að hafa nokkra kennara. 

Við fórum út og á skíðin. Byrjaði þá ballið, ég bara komst ekki í skíðin, þ.e. skórnir vildu bara ekki festast við skíðin og tók það ansi margar tilraunir að láta það ganga upp. Ég var með stafina rangt stillta og fannst þeir svo óþægilegir, enda setti ég vinstri stafinn á hægri hönd og öfugt, það stóð samt alveg left and right, ég sá það bara ekki þarna í myrkrinu á Ísafirði.   

Svo byrjaði námskeiðið. Mínir draumar um að rúlla þessu upp runnu út í sandinn á núll einni.  Í fyrsta lagi var ég bara ekkert eins taktföst og ég hélt og svo eru gönguskíði bara ekkert á jafnsléttu.  Við vorum látin labba upp brekku, mér fannst hún óþægilega há og svo þurftum við að skíða niður hana aftur.  Mér leið eins og ég hefði verið sett upp á Esju, þetta var fáranlega há brekka á svona byrjendanámskeiði en eftir á að hyggja var hún meira eins og Himmelbjerget. Ég fór ekki fallega niður þessa brekku, rúllaði meira niður eftir að hafa dottið nokkrum sinnum. Svo vorum við sett í stærri hring með miklu stærri brekkum og meira að segja einni beygju. Þessi rosalega stóri hringur var 1 km og brekkurnar voru meira svona smá halli.   

Næsta dag vorum við sett í stærri hring og stærri brekkur og þá kom sér vel að hafa fleiri en einn kennara.  Níu nemendur fengu einn kennara og svo fékk ég minn einkakennara, hvers vegna var það? Jú, lofthræðslan tók völdin, ég fraus í brekkunni og þurfti eiginlega að skríða niður hana og fór svo bara annan hring en hinir.  Hvers vegna skráir loft- og hraðahrædd kona sig í gönguskíðakeppni? Kannski er það geðveiki, en í hvert skipti sem ég ögra mér og fer út fyrir þægindarammann þá stækka ég og get meira og jú, svo þetta smáatriði, að ég var bara ekkert búin að kynna mér út á hvað gönguskíði gengu. Ég hélt grínlaust að þetta væri bara notalegt stroll á jafnsléttu.   

Þegar ég áttaði mig á þessu voru 2 leiðir í boði.  Hætta við Landvættina og láta hræðsluna taka völdina eða segja bara GÆS, ég get, ég ætla og ég skal. Ég valdi Gæsina og sé ekki eftir því.  Í hvert einasta skipti sem það var snjór á höfuðborgarsvæðinu var ég mætt á gönguskíði, í Heiðmörk, þegar golfvöllunum var breytt í brautir og svo auðvitað í Bláfjöll.  Fyrsti hringurinn í Bláfjöllum var mjög erfiður þar sem þar eru sko alvöru brekkur líka.  Ég skellti mér til Siglufjarðar á skíðanámskeið og í hverri viku gat ég meira og þorði meiru.   

Ásdís og Hilda í upphafi Fljótamótsins.
Ásdís og Hilda í upphafi Fljótamótsins. Ljósmynd/Hrafnhildur Tryggvadóttir

Landvættir eru með sameiginlegar æfingar og það verður að játast að sá viskubrunnur sem er hjá Brynhildi Ólafsdóttur, Róberti Marshall, Kjartani Long og Birnu Bragadóttir sem og öllum hinum sem koma að prógramminu, og líka þeim sem eru að æfa er óendanlegur og ómetanlegur.  Ég skráði mig í Ull og tók æfingar hjá þeim og líka einkakennslu hjá Óskari Jakobssyni. 

Ég skráði mig í gönguskíðamót og náði 2 mótum fyrir Fossavatnið.   Fyrra mótið var Bláfjallagangan, 20 km hringur.  Ég lifði hann af, kom 14 síðasta í mark á 2.32 klst.  Ég leit meira á mótið sem æfingu í að taka þátt í móti, en eitthvað sem ég ætlaði að vinna og svo var sko kaffihlaðborð á eftir.  Ég var hrikalega ánægð að hafa klárað, amk þar til ég fór að skoða tímana hjá hinum og sá að ég var með síðustu Landvættunum, en æfingin skapar meistarann segir víst máltækið.  Það sem ég reyni að muna og hafa á bakvið eyrað þegar ég bugast aðeins á því að vera alltaf síðust eða með þeim síðustu er að ég er búin að ná ansi góðum árangri á stuttum tíma.  Ég steig í fyrsta skipti á gönguskíði 6. desember 2018, náði 5 æfingum. Svo kom fyrra vorið í Reykjavík og það bara var enginn snjór í margar, mjög langar vikur.  Þannig að geta tekið þátt í 20 km gönguskíðamóti eftir í raun 2ja mánaða æfingar er ótrúlegt. Ég verð alltaf jafn hissa hvað það er hægt að bæta sig mikið á stuttum tíma, bara með því að halda alltaf áfram og gefast ekki upp. 

Kjartan Long og Róbert Marshall á góðri stundu.
Kjartan Long og Róbert Marshall á góðri stundu. Ljósmynd/Kjartan Long

Seinni gangan var Fljótamótið um páskana.  Við Hilda skelltum okkur til Siglufjarðar.  Mótið var á föstudaginn langa. Það var orðið ansi heitt og ég var komin í kvíðakast yfir því í hverju ég ætti að vera.  Ég var búin að pakka niður allskonar fötum, eiginlega bara öllum íþróttafötum sem komu til greina.  Bæði Óskar og Brynhildur sögðu mér að vera ekki ofklædd þannig að ég skildi föðurlandið og þykka jakkann eftir en var samt með bol og 2 peysur til að ganga í. Eftir ráðleggingar skildi ég bolinn eftir.  Rétt fyrir ræs kom smá kuldakast og ég fékk annað kvíðakast, hvað ef mér verður alltof kalt?  Róbert sagði mér að hafa ekki áhyggjur af því, það væri betra að vera kalt í 5 mínútur heldur en að stikna í 3 klukkutíma.  Ég ákvað að treysta því og fór úr jakkanum en tók samt loforð af honum að ef ég fengi kalsár þá myndi hann sitja yfir mér á Lansanum.  Ég var í nýlegum buxum og hafði steingleymt því að þær voru með mjög hálu bandi til að halda þeim uppi.  Ég sat því uppi með 2 kosti og hvorugan góðan.  Binda rembihnút og halda þeim uppi en standa þá frammi fyrir þeim valmöguleika að geta ekki losað þær ef ég þyrfti að sinna kalli náttúrunnar, fimmtugar þvagblöðrur geta nefninlega verið mjög ósammvinnuþýðar þegar á reynir. Nú eða hafa hnútinn lausan og lenda í því að fólkið fyrir aftan mig fái píparann í andlitið eða hreinlega að ég nái ekki að skíða þegar ég missi buxurnar á hælana.  Eftir smá pælingar ákvað ég að það væri meira vesen að missa buxurnar niður.  Alla 23 km hafði ég á tilfinningunni að hvenær sem er myndu buxurnar hætta að hanga uppi (sem betur fór gerðist það þó ekki).  Róbert reyndist vera sannspár, það var heitt og hættan á kalsári engin.  Kjartan Long spurði mig reyndar sem hann hringaði mig hvort að mér væri ekkert heitt.

Sáttir keppendur fagna í Fljótamótinu.
Sáttir keppendur fagna í Fljótamótinu. Ljósmynd/Kjartan Long

Það voru 76 skráðir í 20 km gönguna, þar af 3 ólympíufarar og endalaust margir Íslandsmeistarar.  Ekki oft sem miðaldra kona fær að keppa við þá.  Það er rosalega gaman að sjá hversu góðir skíðamenn sumir voru.  Þegar ég stóð í brekku og var að vandræðast með hvernig ég ætti að skíða á milli fólks sem hafði dottið í brekkunni,  stungu þau sér á milli á ofsahraða af gífurlegu öryggi.  Kosturinn við að hafa þau var líka í hvert skipti sem þau hringuðu mig kom svona ferskur andblær í örstund og kældi mig niður á þessum heita degi. 

Gangan var mjög erfið, færið þungt og blautt og á blautustu köflunum hefði sundbolur komið sér vel Eftir því sem  hringjunum fjölgaði þá fjölgaði líka bleikum stikum sem komu allt í einu í miðja braut og mjög oft í brekku.  Mér fannst þetta stórfurðurlegt, að vera að troða stikum í miðja braut og auka hættuna á að klessa á þær.  Í lokin voru þær orðnar svo margar að ég var farin að halda að ég hefði skráð mig í svigskíðakeppni.  Það var um svipað leyti sem ég áttaði mig á tilgangi stikanna.  Það var einfaldlega verið að merkja holurnar sem voru farnar að myndast og hvar hætta skapaðist á að detta ofan í læk eða vök.  Ég hef heldur ekki verið svona blaut í fæturna síðan ég var 3ja ára og hoppaði í pollum, mér til ánægju og yndisauka.  Að ganga 4 hringi reyndist erfiðara en ég átti von á. Eftir fyrsta hringinn, sem var rúmir 5 km, þá voru þeir sem voru að taka 10 km að klára sína göngu.  Annar hringurinn bugaði mig næstum því.  Mér leist ekkert á blikuna, ég var hæg og lengi yfir og ég sá ekki alveg hvernig ég ætti að klára þetta.  Sem betur fer var 3ji hringurinn mun auðveldari en þá var ég búin að átta mig á því að ég væri líklega orðin einna síðust. Það hefur kosti og galla. Það er enginn að taka fram úr þér, það er enginn í brekkunni á sama tíma þannig að þú getur brunað án truflana og ef þú dettur þá hefur þú nægan tíma til að standa upp. Á sama tíma er gífurlega glatað að vera síðust.   

Þegar ég var hálfnuð með síðasta hringinn heyrði ég snjósleða nálgast, ég bugaðist eiginlega.  Allir hafa heyrt um að ná ekki tímamörkum, að vera keyrt í mark.  Ég bara trúði þessu ekki, átti virkilega ekki að leyfa mér að klára.  Lá Fljótamönnum svona mikið á að komast í kaffihlaðborðið.  Ég sá fyrir mér skömmina að ná ekki að klára, þannig að ég náði í alla þá orku sem ég átti eftir og gaf aðeins í.  Það var ekki planið að stinga snjósleðann af, ég ætlaði bara að sýna honum að ég átti nóg eftir og verðskuldaði að fá að fara sjálf í mark.  Hann var ekki lengi að ná mér og allt í einu heyrði ég, má ekki bjóða þér drykk?  Þá var hann bara ekkert kominn til að sækja mig, heldur er einfaldlega allt annað þjónustustig þegar þú ert með þeim síðustu.  Það er meiri tími til að dekra göngumenn.  Síðasta hringinn var ég því með minn einkaþjón sem kom reglulega keyrandi á snjósleða með Powerade og hélt mér þannig gangandi.  Ég kláraði gönguna og kom 3ja síðust í mark.   

Ég er hins vegar mjög stolt af mér að hafa getað þetta og minni mig stöðugt á að ég steig fyrst á gönguskíði 6. desember 2018 og á 4 mánuðum fór ég úr því að geta ekki smellt skónum á skíðin í að klára 23 km skíðagöngu og þora í allar brekkurnar.  Eftir allt saman þá endaði ég í 65 sæti af 76, því að þó að ég hafi komið 3ja síðust í mark þá voru einhverjir sem kláruðu ekki gönguna.  Eftir gönguna gengum við í Ketilás og nutum þess að fara í kaffihlaðborðið.  Það voru reyndar ansi margir farnir enda langt liðið á daginn.  Ég var svakalega fegin að það var ekki skylda að fara úr skónum, þar sem ég held bara að almannahagsmunir hefðu verið í hættu hefðu blautir sokkarnir fengið að leika lausum hala. 

Næsta mál á dagskrá.  Fossavatnsgangan á Ísafirði 50 km.... 

Fyrir þá sem vilja fylgjast með Ásdísi Ósk má fylgja henni á Instagram: asdisoskvals

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert