Hlaupið hratt yfir Amsterdam

Jordaan hverfið í Amsterdam er heillandi og friðsælt.
Jordaan hverfið í Amsterdam er heillandi og friðsælt. Ljósmynd/Colourbox.com

Húsin í miðborginni eru mörg hver steinhús frá gullaldarárum Hollands á 17.öld en þá efnaðist borgin á siglingum til Asíu og Ameríku og jók verslunarmöguleika íbúa í kjölfarið. Þegar gengið er um borgina er óhjákvæmilegt að velta því fyrir sér hvernig það sé að búa í húsum sem eiga sér svo mikla sögu. Sum þeirra eru skakkari en sá skakki í Pisa og gluggakarmar virðast hanga á síðasta trénaglanum. Það er eftirtektarvert hvað borgin er hljóðlát og þá sérstaklega við síkin í Jordaan hverfinu en þar er lítið um almenna bílaumferð en þeim mun meira um hjólaumferð. Allstaðar eru hjól og til að mynda við lestarstöðina eru heilu bílastæðahúsin stútfull af svörtum hjólum sem öll bíða eigandans. Fólk með bílastæðakvíða sem gleymir reglulega hvar það lagði bílnum ætti mjög erfitt uppdráttar í borginni en líklega er þetta eitt af því sem venst, einhvern daginn.

Heillandi innsetning eftir Daniel Arsham á Moco nýlistarsafninu.
Heillandi innsetning eftir Daniel Arsham á Moco nýlistarsafninu. Ljósmynd/Mocomuseum

Fyrir þá sem eru frískir og færir er besta leiðin til að skoða borgina á hlaupum, með þeim hætti er hægt að fara yfir mikið svæði hvort sem er á gangstéttum eða í gegnum fagra garða. Undirrituð mælir með því að skokka í gegnum Vondelpark og að Moco nýlistarsafninu en þar er skemmtileg sýning í gangi fram í september þar sem helstu listamönnum nútímans er gert hátt undir höfði. Þar er að finna verk eftir Banksy, Yayoi Kusama, Jeff Koons og Roy Lichtenstein. Rétt við nýlistarsafnið er svo hægt að rölta yfir á Rijksmuseum þar sem stór Rembrandt sýning er í gangi.

Pistlahöfundur hafði ekki hugrekki til að fara í hæstu rólu …
Pistlahöfundur hafði ekki hugrekki til að fara í hæstu rólu í Evrópu. Ljósmynd/Adamlookout

Einnig er fallegt að hlaupa meðfram ánni Amstel og skoða húsbáta en mikill metnaður er lagður í marga þeirra. Frá Amstel er stutt yfir á lestarstöðina en við hana er hægt að fara í ókeypis ferjuferð yfir til Overhoeks þar sem hægt er að róla í hæstu rólu Evrópu og skoða þannig útsýnið eða fara í menningarferð yfir í NDSM-hverfið en þar var áður slippur en er orðið einskonar listahverfi í dag.

Amsterdam er lífleg og falleg borg sem býður upp á fjölbreyttar afþreyingar við allra hæfi allt frá rómantískum göngutúrum upp í æsispennandi ævintýri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka