„Faðir minn var einn af þeim sem gerðu upp skonnortuna á áttunda áratugnum en hún var upphaflega byggð sem togari árið 1952 í Þýskalandi. Þannig að ég nánast bjó um borð öll sumur sem barn og kunni vel við það. Þegar Norðursigling keypti svo Opal árið 2013 var ég hluti af áhöfninni sem sigldi henni til Húsavíkur ásamt skipstjóranum Heimi Harðarsyni. Ég heillaðist gjörsamlega af Íslandi bæði af náttúru og dýralífi,“ segir Eddie. Tveimur árum síðar bauðst honum svo að vera hluti af áhöfn á Opal í siglingu á Grænlandi, nánar tiltekið í Scoresby-sundi á Austur-Grænlandi. „Mér bauðst þetta verkefni þar sem ég þekki skipið vel auk þess sem ég er liðtækur í eldhúsinu. Náttúrufegurðin í Grænlandi er ein sú mesta sem ég hef augum litið og líkist ekki neinu öðru á jörðinni.“
Það að Eddie sé liðtækur í eldhúsinu er kannski vægt til orða tekið en hann lærði matreiðslu á Michelin-stjörnustaðnum Ensemble í Kaupmannahöfn og þar af leiðandi framúrskarandi góður kokkur. Að náminu loknu bauðst honum að vinna sem fyrirsæta í New York þar sem hann hefur meðal annars gengið á tískupöllum fyrir Prada og Bottega Veneta. Þegar hann bjó í stórborginni komst hann í kynni við litríka drykki í matvöruverslunum sem hreinlega heilluðu hann upp úr skónnum. „Þetta var kombucha-drykkurinn, ég varð strax mjög hrifinn af bragðinu þar sem það var ekki eins sætt og margir aðrir litríkir drykkir.“ Eftir að Eddie sneri aftur heim til Danmerkur tók við kvikmyndanám þar sem hann kynntist Louis vini sínum. „Okkur langaði að vinna að einhverju verkefni saman þannig að við ákváðum að opna kombucha-barinn Klint & Bro.“ Fyrir þá sem ekki vita hvað kombucha er þá er það drykkur sem verður til í gerjunarferli þar sem te er notað sem grunnur. „Það er talið að drykkurinn hafi verið fundinn upp fyrir 2000 árum í Kína en hann hefur orðið verulega vinsæll á Vesturlöndum á undanförnum árum,“ segir Eddie.
Viðtökurnar hafa ekki látið á sér standa en fljótlega eftir að fyrsti kombucha-drykkurinn kom út frá þeim var hann valinn besti drykkur ársins í stærstu matreiðslukeppni Danmerkur, Sol Over Gudhjem, en að sögn Eddie var það mikill heiður fyrir svona lítið fyrirtæki.