Miðaldra kona leggur undir sig hálendið

Hópurinn saman kominn í heitu lauginni í Landmannalaugum. Allir sem …
Hópurinn saman kominn í heitu lauginni í Landmannalaugum. Allir sem einn með bros á vör. Ljósmynd/Matthías Sigurðsson

Ég hugsaði, ég verð að setja þetta upp í einhverja flókna stærðfræðiformúlu og reikna þetta út.  Ég ákvað að það væri best að diffra þetta, en mundi svo að ég kann ekkert að diffra, eina sem ég veit um diffrun er að það er eitthvað stærðfræðihugtak.  Ég útskrifaðist af máladeild úr MA, einmitt af því að mér fannst stærðfræði ekkert svo rosalega skemmtileg.  Þetta vissi ég af því að ég byrjaði á stærðfræðibraut.  Ég ákvað því að beita bara almennri skynsemi og Excel.  Það er ágætis langlífi í minni fjölskyldu.  Ása langamma varð níræð og Hörður afi rúmlega níræður.  Ég hafði því alltaf gert ráð fyrir að verða allavega níræð.  Síðan breytti ég um lífstíl og fór að hreyfa mig meira og borða hollara.  Ég ákvað því blákalt að bæta 10 árum við þessa spá mína og reiknaðist því til að ég yrði hundrað ára.  Ég setti þetta upp í Excel til að vera viss um að fá rétta útreikninga, þetta var frekar flókin formúla „ =100/2 = 50“.  Þannig að samkvæmt mínum útreikningum er ég akkúrat á miðjum aldri eða miðaldra.  Er ég þá gamalmenni? Ónei, ég er á besta aldri, í besta formi lífs míns, bæði líkamlega og andlega og það er sko nóg eftir í gömlu.

Veðurguðirnir voru blíðir við ferðalangana.
Veðurguðirnir voru blíðir við ferðalangana. Ljósmynd/Ásdís Ósk Valsdóttir

Æfingahelgar kynntar hjá Landvættum og stressið fer um suma

Þegar ég skráði mig í Landvættina hjá Ferðafélagi Íslands,FÍ Landvætti, sendi Brynhildur Ólafsdóttir yfirleiðtogi okkar Landvættanna mjög ítarlegt plan um æfingahelgar og mót.  Fyrir hverja þraut var ein æfingahelgi og æfingahelgin sem ég kveið mest fyrir var gönguskíðaferð inn í Landmannalaugar.  Það kom til af nokkrum ástæðum.

  1. Ég hef aldrei farið í Landmannalaugar og vissi því ekkert hvað stóð til.
  2. Ég hef aldrei sofið í fjallaskála, hvað þá með 80 manns og sá fyrir mér allskonar krísur sem gætu komið upp. Myndi ég sofa fyrir hrotum?  Hvað ef ég vakna um miðja nótt og næ ekki að sofna aftur, vek ég alla með bröltinu mínu?  Hvað ef ég þarf á salernið um miðja nótt, það er ekki einu sinni í sama húsi?  Hvernig verður að vakna um miðja nótt, klæða sig í öll fötin með tilheyrandi brölti og vekja mögulega 80 manns með tilheyrandi úrillu?  Hvað ef mér verður of kalt, hvað ef mér verður of heitt, hvað ef ég get ekki sofið í svefnpoka?  Síðast þegar ég svaf í svefnpoka þá var það í upphafi þessarar aldar.
  3. Ég hafði aldrei gengið 25 km á gönguskíðunum á hálendinu og ég hafði smá áhyggjur af nokkrum smáatriðum, eins og hvað ef ég verð svöng? Hvað ef mér verður of heitt? Hvað ef mér verður of kalt?  Hvað ef ég þarf að pissa á leiðinni?  Hvað ef ég verð langsíðust og allir þurfa að bíða eftir mér?  Hvernig yrði brautin, þyrftum við að fara yfir á á leiðinni eða brattar klettabrúnir?

Það styttist í ferðina og Brynhildur sendi út upplýsingapóstinn.  Þetta eru bestu póstarnir, það kemur einfaldlega allt fram í þeim.  Þetta eru líka verstu póstarnir, það kemur gjörsamlega allt fram í þeim.  Fyrir miðaldra konur sem eru að stíga sín fyrstu skref þá getur þetta verið gífurlegur stressvaldur.

Brynhildur tók fram hvaða nesti við þyrftum að hafa.  Það yrði sameiginlegur kvöldmatur og morgunmatur en við yrðum að nesta okkur fyrir göngurnar sjálfar.  Við værum svona 4-6 tíma að ganga og hóflegt nesti væri svona 2 flatkökur og slatti af súkkulaðirúsínum og eitthvað til að drekka á leiðinni.  Ég horfði á þetta og hugsaði að hún hlyti að vera pínu veruleikafirrt með þessar þarfir.  Hvað veit hún hvað ég þarf að borða?  Ég fór því og nestaði mig fyrir ferðina.  Ég keypti flatkökur, hangikjöt, nokkur orkustykki, dökkt súkkulaði, kanilsnúða, þurrkaða ávexti og hnetumix.  Setti þetta svo allt í dagpokann minn með tilheyrandi þyngslum.  Hvað skildi ég svo hafa borðað mikið hvora leið?  Jú nákvæmlega 2 flatkökur með hangikjöti og slatta af súkkulaðirúsínum.  Þetta var í síðasta skiptið sem ég rengdi matarplön Brynhildar, eða bara einhver plön Brynhildar.

Hún sendi líka út leiðbeiningar fyrir fataval.  Mér leist ekkert heldur á það.  Við vorum að fara að ganga á hálendinu og ég er algjör kuldaskræfa.  Ég hef alltaf haldið því fram að storkurinn minn hafi villst af leið.  Hann var á leiðinni í Karabíska hafið þegar hann lenti í fellibyl og villtist af leið.  Minn veðurfarslegur kjörhiti liggur nefnilega í kringum svona 30 °C. 

Skáli Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum var þétt setinn af glaðlyndu …
Skáli Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum var þétt setinn af glaðlyndu gönguskíðafólki. Ljósmynd/Ásdís Ósk Valsdóttir

Talar þú hálendísku?

Ég pakkaði því niður aðeins meira en þurfti fyrir gönguna, eina sem það skilaði var að þyngja bakpokann á leiðinni.  Við þurftum ekki kodda þar sem hún ætlaði að kenna okkur að gera kodda úr Primaloftjakka.  Það fannst mér reyndar ansi smart.  Svo kom rúsínan í pylsuendanum.  Allur farangurinn á að rúmast í lítilli trússtösku.  Það var á þessari stundu að ég áttaði mig á því að þrátt fyrir að tala 3 tungumál reiprennandi, ég hafði meira segja verið túlkur fyrir spænska landsliðið á HM í handbolta 1995, þá skildi ég ekki orð í hálendísku. Hvað í ósköpunum er trússtaska?  Sá bara fyrir mér einhverja trússhesta og gat bara ekki ímyndað mér hvað konan átti við.  Sendi póst til Brynhildar sem svaraði um hæl með mynd af dæmigerðri trússtösku.  Ég leitaði mikið af nógu lítilli trússtösku.  Var búin að fá lánaðan svefnpoka sem tók ansi mikið pláss.  Þetta orð lítil trússtaska stressaði mig ansi mikið.  Hvað er lítil?  Hvað ef það yrði bara ekkert pláss fyrir allar töskurnar? Yrði bara eitthvað skilið eftir og við köld og hrakin á hálendinu í blautum fötum? Hversu mikil harðjaxlaferð var þetta?  Ég var bara svona 1 á skalanum 1 -10.  Yrði þetta eitthvað svona lost in the wilderness dæmi?  Eitthvað eins og Survivor þættirnir, nema bara í staðinn fyrir að hafa það heitt og notalegt, myndum við detta út í frostinu.

Brynhildur sagði að hafa ekki áhyggjur, trússtöskur geta verið allskonar.  Það hefði meira að segja ein komið með bleika flugfreyjutösku í fyrra.  Við þetta róaðist ég aðeins og áttaði mig á því að sundtaskan sem ég keypti á Bahamas var bara hin fínasta trússtaska.  Ég pakkaði samt niður eins litlu og ég gat, enda var búið að gefa það út ef við lentum í vandræðum með töskupláss þá yrði pakkað miskunarlaust upp úr töskunum áður en við lögðum af stað.   Þetta reyndist vera fyrsta ferðalagið sem ég fór í á ævinni sem ég notaði allt sem ég tók með.  Eftir á að hyggja hefði samt verið gott að taka með eitt auka sokkapar.

Er fjallaskáli í Landmannalaugum eins og ferja á Amazon?

Ég svaf illa um nóttina, var frekar stressuð að þetta myndi bara alls ekki ganga vel.  Ég hafði miklar áhyggjur af því hvernig skálinn yrði, enda aldrei gist í fjallaskála á ævinni. Hvernig var svefnaðstaðan, voru þetta kannski bara harðir bekkir?  Yrði ég prinsessan á bauninni?   Hvernig verður lyktin og búkhljóðin hjá 80 manns?  Þegar ég var tvítug ferðaðist ég um Suður Ameríku.  Við ferðuðumst með ferju á Amazon ánni í nokkra daga.  Klósett aðstaðan var ekki upp á marga fiska og klósettið angaði eins og óútstungið fjárhús að vori.  Yrði þetta eins?  Munurinn þar var reyndar að við sváfum i hengirúmum undir berum himni og 20 ára blaðran var mun samvinnuþýðari en þessi 50.  Verður hægt að opna glugga?

Við hittumst á venjulega staðnum okkar, Olís planinu við Norðlingaholtið og ég fékk far með 2 verðandi Landvættum.  Síðan keyrðum við saman til Hálendismiðstöðvarinnar í Hrauneyjum þar sem við tókum smá peppfund, tókum nestispásu og síðasta pissupásan áður en við lögðum af stað til Sigöldu þar sem planið var að byrja að ganga inn í Landmannalaugar.

Þegar þangað var komið var komið að stóru stundinni, við spenntum á okkur skíðin og héldum af stað út í óvissuna.  Þetta gekk ágætlega í upphafi.  Ég var svo heppin að vera mjög framarlega og náði alveg að halda í við tempóið sem  hann Róbert Marshall annar forsvarsmanna Landvættanna gekk á.  Svo kom fyrsta nestispásan.  Ég var ekkert að fylgjast með, þurfti að fara á bakvið stein að pissa og hluti hópsins var lagður af stað þegar ég var tilbúin.  Ég var ekkert stressuð að ég yrði skilin eftir, enda er Landvættaprógrammið hugsað fyrir alla sem uppfylla þeirra kröfur.  Krafan er sem sagt að allir sem geta hlaupið 10 km á 90 mínútum í upphafi prógramms eiga erindi og eiga möguleika á að klára prógrammið ef þeir fylgja leiðbeiningum og halda vel utan um æfingarnar sínar allan veturinn.  Í hverju stoppi versnaði þetta samt aðeins og eftir síðasta stoppið var ég orðin langsíðust, þ.e. ég og Birna Bragadóttir fararstjóri.  Ég var pínu farin að vorkenna henni að þurfa að hanga ein með mér síðustu kílómetrana.  Þarna kom berlega í ljós hversu mikilvægur hausinn á manni er.  Ég var búin að hafa áhyggjur af því allan tímann að ég yrði síðust og með það lagði ég upp.  Ég var þreytt og ósofin og ekki nógu vel fyrir kölluð.  Það má auðveldlega koma í veg fyrir þetta með því að peppa sjálfan sig bara betur upp fyrir ferðina.  Birna reyndist hins vegar betri en enginn.  Alveg pollróleg allan tímann, lét mig aldrei finna að þetta væri eitthvað vesen að ég væri síðust.  Hún hafði hins vegar verið lofthrædd eins og ég og skildi mig því fullkomlega og það hjálpaði heilmikið að hafa hana með mér.

Þröngt mega sáttir liggja.
Þröngt mega sáttir liggja. Ljósmynd/Skjaskot

Fjallageitur frjósa á þverhníptri hlíð

Það voru 2 vélsleðar sem fylgdu okkur alla leið.  Bæði til að passa að enginn úr hópnum týndist og líka ef einhver bugaðist þá var hægt að fá far með vélsleðanum, annað hvort alla leið eða hluta úr leið. Það var búið að tala um einhverja hlíð sem við þyrftum að komast yfir til að komast í skálann.  Það verður að viðurkennast að það fór að myndast kvíðahnútur í maganum við þessar fréttir.  Hversu brött yrði hún og hversu hátt yrði fallið í ána sem var fyrir neðan?  Þegar við vorum komin ansi langt þá kemur mjög brött brekka.  Annar vélsleðagaurinn bauð mér far.  Mér fannst það hið besta mál, enda ekki verið boðið á rúntinn síðan ég var 17.  Ég hélt líka að mögulega væri þetta hlíðin og var svo ansi kát með að sleppa svona létt.  Nei, Ásdís þetta er brekka, ekki hlíð.  Við færðust alltaf nær og nær þessari hlíð og kvíðahnúturinn stækkaði og stækkaði.  Ég fór að hugsa, hvað er það versta sem getur gerst, jú, ég bara kemst ekki yfir þessa blessuðu hlíð og fer heim.  Hvernig ég ætlaði heim var ekki alveg útfært.  Þarna var ég reyndar ekki að hugsa alveg rökrétt þar sem það voru bæði vélsleðar og jeppar með í för sem hefðu reddað mér.   Hópurinn beið eftir okkur Birnu, eða mér þar sem Birna hefði verið löngu komin.  Loksins var komið að hlíðinni.  Ég horfði á aðstæður og sá þverhnípta hlíð, eitt gönguskíðaspor og svo þessa blessuðu á beint fyrir neðan.  Mér leist ekkert á þetta og ræddi þetta við Birnu.  Hún horfði beint á mig og sagði, veistu Ásdís, þú getur þetta alveg, ég veit það.  Með þetta trúnaðartraust að láni frá Birnu fór ég áfram  Ég ákvað að vera aftarlega í hópnum.  Fannst það flokkast undir samfélagslega ábyrgð því ef ég dytti og tæki einhvern með mér í fallinu þá yrðu það amk ekki margir.  Þegar kom að því að þrepa hlíðina þá var lofthrædda fjallageitin orðin mjög stressuð.  Það var sannarlega gönguskíðaspor en það er sko eitt að ganga mjóa hlíð með þverhnípi niður á 2 m löngum snjóþrúgum í hálku.  Ég sá fyrir mér að ég myndi bara brussast beint ofan í á og drukkna þar með fæturnar upp í loftið því að allt björgunarsveitarfólkið mitt þyrfti jú tíma til að losa skíðin af.  Ég fór í sporið og fraus.  Fann strax að þetta myndi ekki ganga.  Þarna voru góð ráð dýr.  Þú ert komin í sporið, þú getur einfaldlega ekki bakkað.  Bæði vegna þess að það var fólk fyrir aftan þig og svo var ég bara ekkert rosalega góð að bakka á gönguskíðum og hefði líklega endað í ánni.  Neyðin kennir naktri konu að spinna.  Ég horfði yfir hlíðina, sá alla skjótast yfir eins og ekkert væri og svo sá ég snjó fyrir ofan sporið.  Ég sleppti því bara sporinu og þrepaði mig ofar í hlíðinni þar sem ég náði miklu betri festu í djúpum snjó heldur en glerhálu sporinu.  Ég lifði hlíðina af og þá var þetta bara beinn og breiður vegur í kofann, hélt ég sko.  Við komum að bryggjunni og allt gekk vel, allir komnir yfir nema ég sem var síðust.  Þá kom síðasta brekkan mín.  Það var örmjór gönguplanki frá bryggjunni yfir á landið.  Ég stoppaði og fór að hugsa hvað gæti farið úrskeiðis og þá var ekki aftur snúið.  Það héldu allir áfram enda beinn og breiður vegur.  Svo lítur Brynhildur aftur fyrir sig og sér að ég er ennþá á bryggjunni.  Ásdís mín, er ekki allt í lagi, Nei, sagði ég aumingjalega því grínlaust þetta var pínu glatað að komast ekki yfir.  Fallið var svona ca 1 m. Það hefði enginn dáið við það.  Kemstu yfir, Nei, eigum við að sækja þig, já takk.  Ragnar Antoniussen björgunarsveitarmaður var sendur eftir mér, enda dugði ekkert minna en fagmaður í verkið.  Hann reyndi ýmsar þekktar björgunarleiðir svo sem að halda í stafina og láta mig fara þannig yfir.  Mér fannst það glötuð hugmynd því ég sá fyrir mér að ég myndi bara brjóta stafina og detta niður.  Leiðin sem við fórum var að hann tók skíðin og stafina og rétti mér svo hendina og tosaði mig yfir.  Mér fannst nefninlega ólíklegra að ég næði að draga hann niður í fallinu enda bæði stærri og þyngri en ég.  Leiðin til baka gekk fínt. Ragnar tosaði mig yfir plankann og það var ekkert mál að þrepa hlíðina því það er svo einfalt að þegar það er búið að sigrast á óttanum einu sinni þá er þetta yfirleitt ekkert mál næst þegar það þarf að gera þetta.

Þrátt fyrir smá hnökra á leiðinni inn í Landmannalaugar, eins og að vera síðust og þreytt þá var þetta frábær ganga.  Veðrið var mjög gott og landslagið stórbrotið.  Ég var mjög fegin að hafa komið með.

Forsvarsmenn Landvættanna, Brynhildur og Róbert, sem og allir fararstjórarnir halda svo gífurlega vel utan um hópinn og hjálpa okkur að vaxa og verða betri.  Ég hefði bara ekki getað valið betri félagsskap til að byrja minn íþrótta- og útivistarferil en Landvættina.

Það er samt ekki alveg þannig að ég hafi ekki átt mín móment sem íþróttahetja á mínum yngri árum.  Einu sinni varð ég næstum því í þriðja sæti í mínum aldursflokki á svigskíðum á Dalvík.  Það voru 2 keppendur, ég bara tók ekki þátt. Svo vann ég einu sinni kappróður á 17. júní á Dalvík.  Ég var stýrimaðurinn.  Ég var bara betri í því að læra skólaljóðin utan að heldur en að reyna mikið á mig líkamlega.

Látið líða úr sér í heita pottinum

Þegar við komum á staðinn var búið að ákveða að skella sér í einhvern pott.  Mér fannst það nú ansi gott að hafa pott á Hálendinu.  Þetta reyndist vera geggjuð heit náttúrulaug.  Róbert var búinn að segja að við ættum bara að fara í skíðaskónum, jakka og sundbol út í þessa laug.  Ég ákvað bara að hlýða því. Það var stórkostlegt að fara í heita laug eftir langan dag.  Hún var reyndar svo heit að við fórum reglulega upp úr og veltum okkur upp úr köldum snjónum til að kæla okkur.  Um kvöldið var sameiginlegur kvöldmatur og svo var kvöldvaka.  Brynhildur kenndi mer að gera kodda úr primaloftúlpu og ekki laust við að gamli skátinn sem hafði legið í dvala í áratugi léti á sér kræla.  Þetta hefði pottþétt verið færnimerki í denn.

Allar mínar áhyggjur af salernisaðstöðu og hörðum bekkjum í fjallakofanum reyndust ástæðulausar.  Það voru fínar dýnur og það var sofið á 2 hæðum, nóg pláss fyrir alla.  Rennandi vatn í salerni og heitar sturtur, aðstaðan var til fyrirmyndar.  Eftir á að hyggja hefði ég getað sparað mér andvökunætur og stress og kvíðahnúta.  Þetta var miklu skemmtilegra og betra en ég átti von á.  Þarna spilaði Landvættahópurinn stærsta hlutinn.  Fólkið í prógramminu er einfaldlega gífurlega skemmtilegt og samheldið.  Alltaf tilbúið að gefa af sér, leiðbeina og hjálpa. Hérna er markmiðið að allir njóti og klári. Þetta stress mitt litast pínu af fyrri tíma reynslu.  Ég reyndi mikið að fara í fjallgöngur, það var alltaf svipuð reynsla.  Ég var síðust og hópurinn sem ég gekk með var á undan.  Ég náði þeim alltaf þegar þau voru búin að setjast niður og hvíla sig og jafnvel nesta sig.  Þegar ég loksins kom, þá var alltaf einhver sem sagði, jæja, allir komnir, þá getum við lagt af stað.  Þannig að ég náði sjaldan minni hvíld og minni nestispásu.  Landvættaprógrammið er andstæða þessarar upplifunar.  Það er bara gífurlega vel haldið utan um alla.

Ferðin til baka var ekkert minna en stórkostleg.  Veðrið var eins og best var á kosið. Sól og hlýtt en samt vindur.  Það var reyndar svo mikill meðvindur að við vorum ekki nema 3,16 klst til baka á meðan ég var 4,52 klst inn eftir.  Mér leið vel og færið var gott og ég endaði í miðjum hópi og hélt mig þar.  Það er allt svo miklu auðveldara þegar sjálfstraustið er í lagi.  Við komum miklu fyrr heim en áætlað var þannig að ég náði meira að segja í fermingarveisluna hjá Ísaki systursyni minni þannig að helgin var fullkomin.

Ég er ekki orðin fullnuma í hálendísku en ég er farin að geta pantað af matseðlinum.

5 ráð fyrir framtíðar hálendisfara.

  1. Ekki ofhugsa þetta, treystu skipuleggjendum. Þeir kunna þetta og vita hvað þarf og hvað er hægt að gera
  2. Það þarf ekki að eiga allt. Fáðu lánað á meðan þú ert að finna út úr því hvað hentar þér
  3. Það sem þú kaupir, ekki kaupa einnota. Það eru góðar líkur á því að þú eigir eftir að fara aftur þannig að oft er dýrara að kaupa ódýrt fyrst.
  4. Farðu í ferðina með opnum huga. Þetta er ævintýri fyrst og fremst.
  5. Njóta en ekki þjóta.

Fyr­ir þá sem vilja fylgj­ast með Ásdísi Ósk má fylgja henni á In­sta­gram: as­disoskvals

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert