Þegar blaðamaður ákvað að byrja að skipuleggja jólafríið með góðum fyrirvara brá honum nokkuð í brún þegar kom að því að panta flugið. Ákveðið var að bjóða fjölskyldunni til Miami í frí frá 26. desember, heim þann 5. janúar. Besta leiðin virtist vera að fljúga beint til Orlando og taka bíl þaðan og keyra til Miami. Þannig þyrftum við einungis að taka eina flugvél og ekki gista eina nótt á bakaleiðinni, eins og við hefðum þurft ef við hefðum keypt miða til New York eða Boston og þaðan til Miami.
Á dohop.com var boðið upp á að kaupa miða með Icelandair en margar bókunarsíður bjóða mismunandi verð fyrir sama flug, eins og gengur. Algengt er að munurinn sé nokkur þúsund krónur en í þessu tilviki reyndist hann vera mun meiri. Hægt var að fá flug með Icelandair á 85.800 krónur hjá bókunarsíðunni Mytrip, sem er ein af bókunarsíðunum sem dohop.com vísar á. Dohop vísar einnig beint inn a´ bókunarvef Icelandair en þar kostaði miði í sama flug 167.625 krónur. Í báðum tilvikum var flugið með tösku og flugsæti.
Munurinn nemur 81.825 krónum sem jafngildir því að viðskiptavinur greiðir 95% hærra verð fyrir sama flugið til Orlando panti hann beint af Icelandair en ef leitað er að ódýrasta flugi hjá Dohop.
„Auðvitað eiga ekki að birtast ólík fargjöld hjá okkur og hjá bókunarvélum þriðja aðila,“ segir Ásdís Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair.
Aðspurð um þá staðreynd að bókunarsíða úti í heimi geti boðið fargjaldið nánast á hálfvirði, svarar Ásdís: „Í þessu tilviki er um að ræða tæknilegt atriði varðandi tengingar ferðaskrifstofunnar við okkar kerfi sem við erum að vinna í að leiðrétta. Rétta verðið er það verð sem við erum að bjóða í bókunarvélinni okkar.“
Ásdís segir Icelandair ekki hafa hækkað fargjöldin í kjölfar gjaldþrots WOW.
Mytrip: 85.800 kr.
FlightNetwork: 111.000 kr.
Budget Air: 100.974 kr.
Icelandair: 167.625 kr.
Miðað er við verð sem kom upp við leit á leitarvél Dohop.com þann 15. og 16. maí 2019.