Hún hefur búið á Íslandi í tæp tuttugu ár og líkar vel en ef það væri eitthvað sem hún myndi vilija breyta þá væri það líklega veðrið, sjálfsagt eru margir lesendur sem taka undir það með Souima eða Míu, eins og hún er kölluð. En hvað var það sem dró hana til Íslands í upphafi? „Það var ástin,“ segir hún. „Á þessum tíma bjó ég í Bandaríkjunum með mínum fyrrverandi sem er líka frá Marokkó. Hann var ástfanginn af Íslandi, dreymdi um að búa hér og opna marokkóskan veitingastað en sá draumur rættist aldrei eftir komuna hingað. Hann fór aftur til Bandaríkjanna en ég ákvað að staldra við hér á landi. Einhverju síðar sótti ég svo um vinnu í Tennishöllinni í Kópavogi og þá var ekki aftur snúið, það mætti orða það þannig að ég hafi fengið starfið og framkvæmdarstjórann,“ segir Mía og hlær. Eiginmaður Miu er Jónas Páll Björnsson, framkvæmdastjóri Tennishallarinnar, og eiga þau saman þrjú börn og búa, að sögn Míu, á besta stað í Kópavogi. „Þetta er eins og að búa í sveit nema það er stutt í skarkala borgarinnar. Ég elska að vera innan um náttúruna en hef að sama skapi mikla þörf fyrir að vera í borginni líka, dalurinn hentar mér því fullkomlega.“
Spurð að því hvernig draumadagurinn lítur út hjá henni segir Mia að dagurinn myndi byrja á því að vakna örlítið á undan öðrum í fjölskyldunni til þess að eiga sinn tíma. „Ég myndi fá mér kaffibolla, morgunmat og lesa blaðið í rólegheitum og ekki síst njóta þagnarinnar,“ segir hún hlæjandi. „Eftir morgunmat myndi ég fara upp á Esju með vinkonu minni og svo fara í gömlu laugina í Garðabæ eftir gönguna. Um kvöldið myndi ég bjóða vinum í mat eða fara í matarboð til vina, þetta væri fullkominn dagur.“
Mía elskar að ferðast og stefnir á að gera meira af því í framtíðinni. „Minn draumur er að geta heimsótt eitt framandi land á hverju ári með góðum vinum, markmiðið er að fara til Asíu á næstunni.“ Heimalandið Marokkó er líka á stefnuskránni en Mía flutti ung þaðan og náði því ekki að kynna sér allt það sem landið hefur upp á að bjóða. „Mig langar að upplifa og tengjast mínu upprunalandi á ný og gefa börnum mínum tækifæri til að tengjast þeirra rótum.“
Mía mælir með því að þeir Íslendingar sem hyggja á heimsókn til Marokkó kynni sér landið og menningu áður en haldið er upp í ferð því landið bjóði upp á ótakmarkaða möguleika hvort sem það sé slökunarferð, útivistarferðir eða lúxusferðir. Hún segir Marrakech æðislega fyrir byrjendur og það sé eiginlega ekki hægt að fara til landsins án þess að koma við í borginni í einn eða tvo daga. „Manni leiðist aldrei í Marrakech þar sem það er óendanlega mikið hægt að gera. Ég mæli með því að ferðalangar kíki á Yves Saint Laurent-safnið og Majorelle-garðana. Svo er upplagt að fara í dagsferð um Ouirika-dalinn og sjá Atlasfjöllin, þar er gaman að fá sér hádegismat og marrokóskt mintute að hætti heimamanna.“ Mía segir einnig ómissandi að skoða Jamaa el Fna-markaðstorgið í Marrakech en það sé einstök upplifun. „Þar má sjá alls kyns fólk og dýr, apa, slöngur, tónlist og mannlíf sem gefur torginu algjörlega einstakt yfirbragð. Á markaðnum er hægt að kaupa fínustu krydd og minjagripi á borð við teppi og skartgripi á sæmilegu verði, með prútti að sjálfsögðu.“ Þeir sem eru miklir aðdáendur Sex and the city-bíómyndarinnar ættu ekki láta Mondarin Oriental Jnan Rahma-hótelið fram hjá sér fara en hluti myndarinnar var tekinn þar upp. „Svo er það veitingastaðurinn Chez Ali sem enginn má missa af en þar er hægt að borða heimatilbúinn mat að hætti marokkóbúa, upplifa fjölbreytta menningu landsins og kynna sér mismunandi hefðir í klæðnaði og tónlist, allt á einu kvöldi,“ segir Mia og bætir við að það sé ómissandi að fara á Marrakesh-safnið að ógleymdri Hammam spa-meðferð eða tyrknensku baði sem þykir afskaplega gott fyrir líkama og sál.
Rúmlega 600 einstaklingar sem eiga rætur sínar að rekja til Marokkó búa á Íslandi og helmingur þeirra börn sem hafa fæðst hér á landi. Mia segir að flestir þeirra sem hér búa séu komnir til að vera en mikið sé lagt á innflytjendur af hálfu Íslendinga. „Það þarf að læra tungumálið undir eins, græja húsnæði, vinna meira en 100% til að geta borgað leigu og framfleytt fjölskyldunni. Svo þarf að auki að spara nægilega mikinn pening til að geta heimsótt ættingja í heimalandinu við og við og svo margt fleira. Það er því miður skortur á tækjum og tólum til að hjálpa innflytjendum að aðlagast samfélaginu hraðar en nú er gert og á öruggan hátt. Það er ekki komin það mikið reynsla á Íslandi í innflytjendamálum svo það er brýnt að koma með áætlun um aðlögun sem fyrst til að forðast vandamál sem kynnu að skapast í framtíðinni.“
Mia er ein þeirra kvenna frá Marokkó sem tóku sig saman og stofnuðu Félag kvenna frá Marokkó en félagið er hugsað til að opna dyr menningarheima bæði fyrir Íslendinga og Marokkóbúa þannig að báðar þjóðir njóti góðs af. „Félagið var einnig stofnað til að gefa marokkóskum konum sem búa á Íslandi rödd, vettvang til að hittast og leggja áherslu á þessa fjölbreytni og þá sérstaklega til að byggja upp menningarbrú milli Marokkó og Íslands.“ Félagið hefur nú þegar skipulagt viðburði þar sem bæði samfélögin hittast og gleðjast saman. Gestum er þá boðið að kynnast marokkóskri matargerð, tónlist og menningu. Einnig hefur verið boðið upp á fyrirlestra um Marokkó fyrir hóp íslenskra ferðamanna sem var á leið til Marrakech. Í haust er svo stefnan tekin á að halda hátíðlega upp á sjálfstæðisdag Marokkó en landið fékk að hluta sjálfstæði frá Spánverjum og Frökkum 18. nóvembert árið 1956. „Það er spennandi að kynnast sögu Marokkó og ég sjálf hlakka til að kynnast henni betur á þessum degi. Hugsunin er að bjóða bæði Marokkóbúum og Íslendingum að gleðjast með okkur og halda upp á þennan dag með dansi, tónlist, kynningum og að sjálfsögðu mintute og henna-húðflúri fyrir börn og áhugasama. Þetta verður bara hollt fyrir Ísland vegna þess að ég tel það mikilvægt að Íslendingar læri aðeins um sögu og menningu innflytjendanna sinna til að byggja upp heilbrigt nútímasamfélag.“