Í undraveröld Universal

Það þyrfti einbeittan vilja til að láta sér leiðast í …
Það þyrfti einbeittan vilja til að láta sér leiðast í Universal í Orlando. Ljósmynd/Universal Studios

Fyrir lofthrædda, bílveika og rússíbanafælna móður á fertugsaldri eru skemmtigarðar ekki endilega draumaáfangastaðir í fríinu. En hvað gerir maður ekki fyrir börnin?

Átta manna hópur, fjórir fullorðnir og fjögur börn, ákvað í sinni fyrstu Flórídaferð að fjárfesta í tveggja daga miðum í Universal-garðinn. Reyndar er ekki rétt að tala um Universal í eintölu, því þetta eru í raun tveir garðar. Við keyptum miða í garðana tvo sem tengdir eru saman með lest – Hogwarts-lestinni. Það var góð ákvörðun að taka tveggja daga passa, minna stress þegar þarf ekki að „klára“ að fara í öll helstu tæki á einum degi.

Garðarnir heita Universal Studios og Islands of Adventure og það þarf að vera með sérstakan tveggja garða miða til að komast í þá báða. Reyndar líka hægt að kaupa þriggja garða passa og fara þá í vatnsrennibrautargarðinn Volcano Bay, en við slepptum honum.

Græni Hulk-rússíbaninn er ægilega stór. Þau hugrökkustu úr hópnum fóru …
Græni Hulk-rússíbaninn er ægilega stór. Þau hugrökkustu úr hópnum fóru margar ferðir en ég lét mér nægja að horfa á og hlusta á æsingsöskrin. Ljósmynd/Universal Studios

Harry Potter alltumlykjandi

Universal hefur passað vandlega uppá að aðdráttarafl Harry Potters nýtist báðum skemmtigörðum því hlutar galdraveraldarinnar eru í hvorum garði fyrir sig. Vilji fólk upplifa það að ganga eftir strætum Hogsmeade líkt og þeim er lýst í verkum J.K. Rowling en líka heimsækja Skástræti (e. Diagon Alley) og sjá drekann á toppi Gringott-banka spúa eldi (í alvöru) af þakinu dugar því ekki að kaupa miða í annan garðinn.

Í grunninn er væntanlega sama hugmyndin á bak við alla skemmtigarða – að skemmta fólki. Universal tekur þessa hugmynd inn í aðra vídd því hvert einasta tæki er ákveðin upplifun. Hvert tæki hefur sitt ákveðna þema sem er tengt t.d. kvikmynd, teiknimyndafígúrum eða skálduðum persónum. Þarna er til dæmis að finna The Mummy-rússíbana (sem ég lét mig hafa en var þó heldur mikið af hinu góða), Simpsons-reið (e. ride), Hulk-rússíbana, Harry Potter-rússíbana, Spiderman upplifun í þrívídd og svo mætti lengi telja.

Fyrir fólk sem fær ekkert nema ógleði út úr því að fara í hraðskreið tæki þá er E.T. reiðin tilvalin. Þar er hægt að lifa sig inn í söguna, fá skilaboð frá Steven Spielberg og láta eins og maður sé í miðri kvikmynd með því að svífa yfir sögusviðið á nokkurs konar reiðhjóli. Enginn rússíbani, heldur bara þægileg ferð.

Harry Potter-svæðin í görðunum tveimur eru stórbrotin, ekki bara vegna þess að þar líður fólki sem það stígi inn í galdraveröldina heldur ekki síst fyrir mannlífið. Þar má sjá gesti í fullum skrúða; galdraskikkjum og með sprotann á lofti. Víða er líka hægt að stoppa og sveifla galdrasprota. Þá t.d. kvikna ljós í gluggum, fígúrur fara að syngja, vatn skýst úr gosbrunni og fleira. Allt útbúið með hreyfiskynjurum sem virkjast þegar sprota er sveiflað á réttum stað.

Það er ekki annað hægt en að bera virðingu fyrir ástríðunni sem einkennir einlæga Harry Potter-aðdáendur. Að vera í síðri, svartri skikkju í 30 stiga hita og steikjandi sól er alvöru! Í það minnsta hefði ég ekki treyst mér til þess, valdi þess í stað hefðbundnari Flórída-klæðnað: stuttbuxur, bandaskó og hlýrabol. Samt var kærkomið að kæla sig í Stjána bláa bátsferðinni þar sem óhjákvæmilegt var að blotna frá toppi til táar.

Heimur kvikmynda er svo óendanlega umfangsmikill og ferð í Universal sýnir vel hvernig góðar bíómyndir, teiknimyndir, sjónvarpsþættir eða bara eftirminnilegar skáldaðar persónur geta átt eilíft framhaldslíf.

Í Universal má víða sjá börn og fullorðna í fullum …
Í Universal má víða sjá börn og fullorðna í fullum galdramannaskrúða. Heitustu Harry Potter-aðdáendur láta steikjandi Flórída-hita ekki stoppa sig í að klæðast skósíðri galdraskikkju og trefli af sinni uppáhalds heimavist í Hogwarts. Ljósmynd/Universal Studios

Bláber og krókódílar

Orlando-svæðið er svo pakkað af afþreyingu að maður gæti upplifað flugeldasýningu (bókstaflega) dag hvern. Skemmtigarðar af öllum stærðum og gerðum lúra meðfram hraðbrautunum og þess vegna er svo kærkomið að finna líka eitthvað lágstemmt að gera sem allir njóta. Bláberjatínsla hjá Late Bloom Blueberry Farm (lbbfarm.com) var til dæmis alveg sérstök upplifun. Allir fengu fötur til að hengja framan á sig og gátu staðið við bláberjarunna sem náðu um eða yfir metra á hæð og tínt dýrindis bláber.

Af sama toga var upplifunin af CaptainFred's Airboat Nature Tours. Þar kynntumst við krókódílum í návígi og fuglalífinu í fenjunum.

Það er alltaf gott að tengjast náttúrunni á ferðalögum, líka í mekka afþreyingarferðamennskunnar í Flórídaríki.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert