Svífandi göngustígur

Svífandi göngustígur í Hveradölum.
Svífandi göngustígur í Hveradölum. Ljósmynd/Aðsend

Með mikilli fjölgun ferðamanna hér á landi á síðustu árum hefur myndast þörf fyrir að vernda þá ferðamannastaði sem illa mega við átroðningi. „Við sáum mikla þörf fyrir stíga þar sem náttúran er undir miklu álagi og umhverfið er slíkt að maður vill ekki hrófla við því líkt og gerist þegar lagðir eru stígar sem eru til dæmis malbikaðir eða úr timbri,“ segir Birgir Þ. Jóhannsson arkitekt sem, ásamt brúarverkfræðingnum Laurent Ney, hefur hannað svokallaða svífandi göngustíga sem eiga að koma í veg fyrir ágang ferðamanna á viðkvæmum svæðum í náttúru Íslands.

Svokallaðar jarðvegsskrúfur eru notaðar sem undirstöður fyrir álplötur sem á þeim liggja og lágmarka þannig snertipunkta vegarins við jörðina. Birgir segir burðargetu platnanna mikla og geta verið allt að sex metrar á milli skrúfna. Stígurinn er því upplyftur og hefur lágmarksáhrif á þann jarðveg sem liggur undir. „Auðvelt er að breyta stígnum eða færa hann eftir þörfum og þegar slíkt er gert er jörðin nánast ósnert undir,“ segir Birgir. Hann segir ennfremur að álplöturnar séu mjög endingargóðar, framleiðsla þeirra hagkvæm og þær endurvinnanlegar.

Stígurinn nýtist vel þegar hann er lagður yfir ójafnt landssvæði þar sem álplöturnar eru sléttar og auðvelt að ganga á þeim. „Stígurinn býður upp á aðgengi fyrir hjólastóla að náttúruperlum auk þess sem áloxíð hálkuvörn er borin á stíginn sem kemur í veg fyrir hálku. Hann er því öruggari en til dæmis timburstígur.“

Ennfremur gerir hönnun stígsins mönnum kleift að leggja hann á svæðum þar sem að öðrum kosti væri erfitt eða ekki hægt að ganga. Birgir segir tilvalið að leggja stíginn yfir hraun, mýrlendi eða við hveri og segir hann ýmis svæði á landinu henta vel í því skyni.

Frumgerð stígsins var lögð í Hveradölum og þar var hægt að leggja hann í nálægð hvers þar sem dæmi voru um að fólk hefði meiðst vegna virkni hans og svæðið því hættulegt, að sögn Birgis.

Hægt er að leggja handrið við stíginn auk þess að lýsa hann upp. Þá geta snjómokstursvélar nýst við að hreinsa stíginn ef þess þarf. „Stígurinn fellur vel inn í umhverfið svo inngripið sem fylgir lagningu hans er lítið útlitslega séð,“ segir Birgir. Hann segir stíginn byggjast á hönnun sem eigi sér engan líka.

Fengu styrk til verksins

Upphaflega var verkefni Birgis og Ney styrkt af Tækniþróunarsjóði til tveggja ára. Styrkurinn var nýttur til að þróa hönnun stígsins og prófa mismunandi útgáfur hans. Afraksturinn var 20 metra langur stígur sem lagður var í Hveradölum síðasta sumar.

Landeigendur í Hveradölum voru ánægðir með afraksturinn og sóttu því um styrk hjá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að bæta aðgengi á svæðinu með lagningu svífandi stíga. Styrkurinn var veittur í mars síðastliðnum og hljóðar upp á 29,8 milljónir króna. Styrkinn er hægt að nýta til að leggja u.þ.b. 100 metra langan stíg á svæðinu og hægt að nýta sérstaka eiginleika hans til að komast nær hverunum en hægt væri með hefðbundnum stígum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert