Árið áður hafði ég verið á ferðalagi með fjölskyldunni og faðir minn, Ingvar Sigurgeirsson, hafði eindregið ráðlagt okkur að fara á Gestastofuna á Hellnum og bragða þar á fiskisúpunni, en hún var kynngimögnuð að hans mati.
Við höfðum upp á gestgjafanum, Guðbjörgu Gunnarsdóttur, sem gaf upp leyndarmál þess að matbúa bestu fiskisúpuna. Ást, umhyggja og pipar, mikið af pipar. Við stylltum okkur upp með hamrana í bakgrunni sem líta út eins og þeir séu að steypast út í sjóinn og það gerðu þeir líklega.
Kristján leikstjóri átti í mesta basli við að fljúga drónanum um svæðið þar sem tjaldurinn tók þeirri heimsókn síður en svo fagnandi. Við vorum ekki langt frá því að tapa drónanum í hafið í baráttu við líflegt fuglalífið. En fiskisúpu elduðum við og hún var alveg kynngimögnuð. Þið verðið bara að prófa.
Næsti áfangastaður var Flatey. Það er eflaust hægt að hafa mörg orð um þennan fallega litla bæ sem lúrir á lítilli eyju í miðjum Breiðafirði. Þarna var einu sinni ríkulegt mannlíf en núna hafa bara tveir þarna fasta vetursetu. Hafsteinn Guðmundsson hefur búið manna lengst í eynni og leysti okkur út með læri af Flateyjarlambi. Þegar við heimsóttum hann var hann að verka sel sem hafði fest í netum um morguninn. Elvari tökumanni var svo brugðið við sjónina að atriðið varð mun styttra en áætlað var.
Það var úrhelli þegar við hófum matseldina en við létum ekki veðrið stöðva okkur enda fullir innblæstri af fegurð Flateyjar. Og viti menn, það styttir alltaf upp og lygnir (eins og Raggi Bjarna syngur svo vel) og þegar kvöldaði gátum við haldið dásamlega veislu undir berum himni. Moðsoðið lamb eldað í náttúruofni - kryddað með skessujurt, borið fram með ekta rjómalagaðri sveppasósu, tabúleh með íslensku tvisti og smjörhjúpaðar kartöflur - algert sælgæti.
Stundum eru guðirnir með manni í liði. Og það voru þeir þennan fallega dag í Flatey.
Matreiðsluþættirnir Lambið og miðin eru sýnd í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans í kvöld. Allar uppskriftir úr þáttunum má finna á vefsvæði Læknisins í eldhúsinu.