Flugvélakurteisi: Að taka tillit til annarra í flugvélum

Kurteisi á við í flugvélum eins og alls staðar þar …
Kurteisi á við í flugvélum eins og alls staðar þar sem fólk kemur saman. Ljósmynd/Colourbox

Það getur tekið á að vera í flugvél hvort sem er í löngu flugi eða stuttu. Kurteisi á við í flugvélum eins og alls staðar þar sem fólk kemur saman. Hin gullna regla að taka tillit til annarra til þess að öllum líði sem best er jafn mikilvæg í háloftunum og á jörðu niðri. Það er þröngt í vélunum og þær eru vinnusvæði flugliða, sem við köllum flest dags daglega flugfreyjur og flugþjóna. Nokkur atriði verða talin upp hér sem gott er að hafa í huga.

Fyrir brottför

Förum á klósettið áður en gengið er um borð í flugvélina, svo að pissuferðirnar byrji ekki um leið og búið er að slökkva á sætisbeltaljósum. Klósett í flugvélum eru „neyðarbrauð“. Takið ykkur sem minnstan tíma á salernunum til að koma í veg fyrir biðraðir. Þið vitið hvað þær geta verið óþolandi. Muna að hafa lyf alltaf hjá sér í flugvél, ekki setja þau með farangrinum við innritun. Töskur eiga til að vera með sjálfstæðan vilja og lenda á allt öðrum áfangastað.

Gengið í vélina

Göngum frá farangri og yfirhöfnum hratt og örugglega, þannig að næsti farþegi komi sínum farangri líka fyrir, og fáum okkur sæti, en dólum okkur ekki meðan farþegar bíða fyrir aftan, til að komast til sæta sinna. Svo er alltaf vel þegið, og flýtir brottför, að rétta barnafólki og eldra fólki hjálparhönd með farangur sinn, en reyndar gera flugliðar það líka. Undirbúið það sem þið ætlið að hafa hjá ykkur í sæti og í sætisvösum; sími, bók, peninga, kreditkort, tölvu, vatn, púði, teppi… Góð hugmynd er að setja þetta í sérveski eða -poka sem settur er í sætið og stærri taska sett í farangursgeymslu fyrir ofan sætið.

Fyrirgefðu

Við biðjum fólk afsökunar og þökkum því fyrir að standa upp fyrir okkur. Þegar farið er til sætis framhjá öðrum er reglan ávallt sú að snúa að þeim sem stendur upp fyrir okkur. Í flugvél getur þetta verið afar óþægilegt og best er að hafa samráð um hvernig best sé að bera sig að. Sumir vilja síður standa upp og þess vegna þurfum við stundum að viðhafa dálítið klifur og kannski ekki alveg kórrétta líkamsburði. Ef við vöknum með hálft andlitið á öxl ókunnra er betra að biðjast afsökunar en láta sem ekkert sé. Svona lagað fer ekki framhjá neinum. Eins ef gripið er af skelfingu í læri annarra farþega, eða líkamshluta, í ókyrrð.

Afþreying

Undirbúum flugferðina með því að taka með það sem styttir okkur stundir, svo sem krossgátur, Sudoko, bækur, tölvuna eða græju til að horfa á myndir. Munum eftir heyrnartólunum

Skellt upp úr

Forðumst allt ráp um vélina, þó svo að við séum að ferðast með skemmtilegum hópi fólks, svo við teppum ekki gangana fyrir flugliðunum. Vörumst að tala hátt eða hlæja með miklum hávaða þó svo að samferðafólkið sé óskaplega fyndið eða myndin sem við horfum á skemmtileg. Sumir nýta flugið til að vinna á meðan aðrir vilja slaka á og helst sofna.

Sterk lykt

Konur sleppa því að naglalakka sig í vélinni og ilmvötnin bíða betri tíma. Lyktsterkur matur eins og harðfiskur, hákarl og sterkur ostur á heldur ekki heldur við. Það er ekki til fyrirmyndar að fara úr skónum á flugi ef fólk á við fótsvita að glíma. Gleymum ekki að fara í sturtu áður en haldið er af stað, fátt er eins óþægilegt og að sitja hið hliðina á illa lyktandi farþega í margar klukkustundir.

Hófdrykkja

Höldum drykkju í hófi, bæði áfengisog annarri drykkju svo að klósettferðir fari ekki úr hófi fram, en ekki síst til að koma í veg fyrir að við missum sjálfsvirðingu vegna ölvunar og „skandaliserum“ sem birtist strax eftir lendingu á samfélagsmiðlum. Fullir farþegar eru engum til ánægju, hvorki sjálfum sér né öðrum.

Spjallið

Spjall við ókunnuga getur leitt okkur bæði til óvænts fróðleiks og almennrar skemmtunar. Gefum okkur á tal við þá sem sitja við hliðina á okkur en virðum strax ef fólk vill vera án þess að spjalla.

Myndir af flugliðunum

Þó svo að flugfreyjur og flugþjónar séu upp til hópa fagurt fólk skulum við láta vera að mynda það eða taka myndbönd. Rassaköst. Gerum hvað við getum til að reka okkur ekki í sitjandi farþega þegar við göngum eftir ganginum. Verum líka meðvituð um að beina ekki olnbogum eða fótum út á ganginn, svo við bregðum ekki fæti fyrir þá sem ganga um farþegarýmið. Notum tækifærið þegar flugliðar fara með þjónustuvagna eða ýtum á þjónustubjölluna ef okkur vanhagar um eitthvað, alls ekki pota í handleggina (eða aðra líkamsparta) á flugliðum!!! Hvort sem við þekkjum þann sem situr innan við okkur eða ekki, erum við tilbúin að rétta eða taka við hlutum sem fara á milli þeirra og flugliða og bjóða þeim að rétta þeim handfarangur úr farangurshólfinu.

Flugleikfimin

Í flugferðum getur verið gott að gera einfaldar teygjuæfingar með höndum og fótum. Á lengri flugferðum er það allt að því nauðsynlegt. Þessar æfingar er auðvelt að gera í sætinu. Allir sem fara í langt flug ættu að klæðast flugsokkum. Þeir draga út hættu á að fólk fái blóðtappa.

Sætisarmarnir

Tökum tillit til þeirra sem deila sætisörmunum með okkur. Við „eigum“ ekki armana. Það sama á við um gluggana og gluggaskermana. Farþegar sem sitja við gluggann „eiga“ hvorki gluggann né gluggaskerminn.

Að lokinni lendingu

Það getur verið hressandi að standa á fætur strax eftir lendingu og teygja aðeins úr sér, sérstaklega eftir langt flug. Hins vegar flýtir það ósköp lítið fyrir að ryðjast á fætur í von um að komast sem fyrst út úr flugvélinni. Það er aldrei of oft kveðin vísa að muna eftir að taka allt með sér, bæði úr sætisvasanum, hólfinu fyrir ofan og ef eitthvað var geymt undir sætinu. Að lokum þökkum við flugliðum fyrir þegar við förum út úr vélinni með bros á vör. – Réttum ekki flugliðum notaðar barnableyjur. – Sleppum því að setja fæturna á sætisarma hjá farþegunum fyrir framan. – Flughræddir farþegar ættu að láta flugliða vita af því. Flugliðar aðstoða og veita ómetanlegan stuðning.






Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert