Það er þó óhætt að segja að í borginni sé líklega eitt fjölbreyttasta úrval lúxushótela í heiminum og eru eftirfarandi hótel ein þau eftirsóttustu í þeim flokki.
The Surrey
Þetta hótel er einstaklega vel staðsett á Manhattan en Central Park garðurinn er rétt hjá sem og Madison Avenue verslunargatan, þar sem flestar lúxusverslanirnar eiga heima. Byggingin sem hýsir hótelið er tæplega hundrað ára gömul og skartar fögrum nýlistaverkum að innan sem togar hönnunina og andrúmsloftið nær nútímanum. Rúsínan í pysluendanum á hótelinu er að á efstu hæðinni er að finna bar sem einungis er opinn fyrir gesti hótelsins, þar er því hægt að njóta samveru og útsýnis í friði og ró.
Four Seasons hótelin
Hótelkeðjan Four Seasons taldi það ekki nóg að vera með eitt hótel í þessari stóru borg og býður því upp á tvo möguleika fyrir gesti, Four Seasons Hotel New York og Four Seasons Hotel New York Downtown. Það fyrrnefnda er eldra en það síðarnefnda er staðsett í fjármálahverfinu. Bæði hótelin státa af framúrskarandi góðum heilsulindum og veitingastöðum en frægi matreiðslumaðurinn Wolfang Puck rekur veitingahús á því sem staðsett er í fjármálahverfinu.
1 Hotel Central Park
Einstakur lúxus og umhverfisvitund fer vel saman á þessu hóteli sem leggur mikla áherslu á vistvæna hönnun og lífrænar vörur, til að mynda eru öll rúmfötin á hótelinu úr 100% lífrænni bómull. Á hótelinu er svo spennandi veitingastaður þar sem veitingamaðurinn Jonathan Waxman færir gestum brot af því besta sem gerist í Kaliforníu.
Gramercy Park Hotel
Þegar mörg hótel fóru í þá átt að velja látlausa innanhúshönnun fór hönnuðurinn Julian Schnabel í gjörólíka átt og hannaði seiðandi bóhemískt hótel, ólíkt öllum öðrum. Djúprauður litur, flauel og furðulegar ljósakrónur einkenna hótelið sem er einstaklega skemmtilegt.