Við vorum einstaklega heppin með veður síðastliðið sumar, trúi því hver sem vill, og fengum alltaf það veður sem við þurftum til að láta landið okkar skarta sínu fegursta í takt við matinn.
Við hófum ferðalagið að þessu sinni á Stokkseyri þar sem Elvar, yfirkokkur á Rauða húsinu, kenndi okkur hvernig best væri að verka og elda humar. Með þá þekkingu í farteskinu lá leið okkar suður á við þar sem við komum okkur fyrir hjá skipsflaki í miðri Bakkafjöru. Það var dágóður spölur og töluvert erfiði að koma sér þangað en auga Kristjáns Kristjánssonar leikstjóra var fullvisst um að þetta yrði erfiðisins virði. Það stóð heima. Þvílík fegurð sem svört ströndin með Vestmannaeyjar, tígullegar í bakgrunn, og Eyjafjöllin, kynngimögnuð í forgrunn, gaf okkur. Meðan öldurnar margbrotnuðu í fjörunni elduðum við eina mögnuðustu humarsamloku sem ég hef smakkað.
Leið okkar lá upp að Stóra-Dímon við Markánna. Þar var auðvelt að sækja sér innblástur. Náttúran lék á alla sína strengi og við fengum milda skúr, logn og svo eitt dásamlegasta sólarlag sem ég hef á ævi minni séð.
Við hófum eldamennskuna í bakgarði bústaðar sem nýverið hafði hýst tónlistarmanninn Sting en lukum eldamennskunni í botni Merkurgils sem ber sko nafn með rentu. Valdimar, ungi leiðsögumaðurinn okkar, teymdi okkur í gegnum mittisdjúpa á og metrabreiðar gjár í biksvörtu gilinu til að enda loks í falinni paradís þar sem við nærðumst á ljúffengu gúllasinu.
Matreiðsluþættirnir Lambið og miðin eru sýnd í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans í kvöld. Allar uppskriftir úr þáttunum má finna á vefsvæði Læknisins í eldhúsinu.