Afþreying fyrir fjölskylduna á Tenerife

Snæfríður ásamt dóttur sinni í Siam Park.
Snæfríður ásamt dóttur sinni í Siam Park. Ljósmynd/úr einkasafni

Hún gefur hér fimm fjölskylduvænar hugmyndir af  afþreyingu á eyjunni en fjölskylda hennar var búsett á eyjunni síðasta vetur. 

Siam Park

„Það er eiginlega skylda að heimsækja þennan vatnsrennibrautargarð. Þetta er mjög vandaður og flottur garður með rennibrautir fyrir alla fjölskylduna. Til að mynda er í garðinum á sem liggur um allan garðinn sem gaman er að fljóta eftir á kút en leiðin liggur meðal annars í gegnum fiskabúr með hákörlum. Einnig er góð sólbaðsaðstaða í garðinum svo ef einhver í fjölskyldunni vill frekar slaka á heldur en að fá adrenalínið til að flæða þá má auðveldlega koma sér vel fyrir og njóta sólarinnar.“

Vísindasafn

„Ef þið leigið bíl og eruð orðin leið á strandlífinu þá er kjörið að keyra til borgarinnar La Laguna.  Þessi borg er mjög falleg og það er gaman að ganga um miðbæinn og dást af litríkum húsunum, en miðbærinn er á heimsminjaskrá Unesco. Í La Laguna er mjög skemmtilegt vísindasafn, MCC,  sem allir krakkar hafa gaman af. Þar er hægt að prófa allskonar tryllta hluti, týnast í speglavölundarhúsi og taka myndir í grænu tökuherbergi.“ 

Vísindasafnið er spennandi staður að vera á.
Vísindasafnið er spennandi staður að vera á. Ljósmynd/Úr einkasafni

Fjölskylduvæn gönguleið

„Ef þið viljið fara með krakkana í göngu þá mæli ég með leið sem liggur á milli bæjanna Las Galletas og Palm Mar. Gangan hefst við Rauða kross húsið í útjaðri Las Galletas og liggur stígur meðfram sjónum alla leið í Palm Mar. Leiðin liggur framhjá bananabúgörðum, vita, kaktusagróðri og hraunmyndunum.  Þegar komið er til Palm Mar er tilvalið að  stoppa á Bahia Beach og fá sér að borða. Þar er líka flott leikhorn fyrir krakka og strandblaksvöllur. Takið sundföt með því það er lítil strönd í Palm Mar, auk þess sem að á leiðinni eru margar litlar sætar víkur sem hægt er að baða í. Þessi leið er öll á jafnsléttu en ef stemming er fyrir því þá er líka hægt að ganga frá Palm Mar og yfir til Los Cristianos en þá er leiðin um 10 km löng í heildina, en parturinn frá Palm Mar til Los Cristianos er erfiðastur, hann er upp í móti og stígurinn er bæði brattur og grófur svo sá hluti leiðarinnar hentar ekki öllum.“

Kvöldmatur í kastala

Við fjölskyldan höfðum mjög gaman af því að eyða kvöldi í kastalanum í San Miguel. Þar er boðið upp á riddarasýningu þrisvar í viku og kvöldmat. Um leið og stigið er inn í kastalann fara gestir í raun aftur til miðalda því þeir eru látnir klæðast skikkjum og heilsa konunginum og drottningunni. Það má ganga um kastalann og skoða sig um áður en sýningin byrjar en þá tekur við hin besta skemmtun. Kvöldið var svo æsilegt að það var lítið borðað af matnum, hann gleymdist hreinlega! Ég mæli þó ekki með þessarri sýningu fyrir börn yngri en 6 ára, dóttir okkar fimm ára var pínu hrædd á köflum því riddararnir eru að berjast upp á líf og dauða.“

Skemmtileg kvöldstund í kastala.
Skemmtileg kvöldstund í kastala. Ljósmynd/Úr einkasafni

Spennandi leiksvæði

„Það þarf ekki alltaf að vera að fara með krakka í rándýra skemmtigarða, oft dugar að heimsækja nýtt leiksvæði með spennandi leiktækjum. Uppáhaldsleiksvæðin okkar á eyjunni eru í miðbæ Las Galletas og í miðbæ Playa San Juan. Spánverjarnir leggja mikinn metnað í leiksvæðin sín og þau eru oftar en ekki þannig uppbyggð að stutt er í veitingahús eða bar. Það er mikil hvíld fólgin í því fyrir foreldra með börn á ferðalagi að geta sest niður með kaffi eða bjór og fylgst með börnunum leika. Ef þið eruð búin að fá nóg af hitanum og þurfið að fá örstutta hvíld frá börnunum þá er líka sniðugt að keyra í Diverlandia eða Nikki Parque. Báðir þessir leikjagarðarnir eru í Las Chafiras.“

Tenerife Krakkabókin er ómissandi í ferðalag fjölskyldunnar.
Tenerife Krakkabókin er ómissandi í ferðalag fjölskyldunnar. Ljósmynd/Úr einkasafni

Fleiri fjölskylduvænar hugmyndir  má finna í bókinni “Tenerife krakkabókin - Geggjað stuð fyrir hressa krakka. Bókin fæst á vefsíðunni lifiderferdalag.is og í Eymundsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert