Flórens á Ítalíu er án efa ein fallegasta borg í heimi og því ekki að undra að hún hafi stundum verið nefnd Fagurborg upp á íslensku. Þegar komið er til Flórens er sem tíminn hafi stöðvast upp úr miðöldum, maður yrði ekki hissa á því að mæta einhverjum úr Medici-fjölskyldunni, Leonardo Da Vinci eða sjálfum Machiavelli á förnum vegi. Borgin er frekar smá miðað við aðrar ítalskar borgir og búa einungis tæplega 400 þúsund íbúar í henni en fjöldi ferðamanna og erlendra nemenda fer létt með að tvöfalda íbúafjöldann á góðum degi. Það er ekki spurning um hvað hægt sé að gera í Flórens heldur hvort nægur tími sé fyrir hendi til að komast yfir allt það sem er í boði. Ferðavefurinn mælir þó með að byrja á því að skoða eftirfarandi sex staði.
Frábært fyrsta stopp þegar komið er til borgarinnar. Þarna er að finna besta útsýnið yfir borgina og ágætt að staðsetja sig í upphafi ferðarinnar, njóta fegurðarinnar og finna helstu kennileiti Flórens eins og Dómkirkjuna og Ponte Vecchio-brúna.
Það er nánast bannað að fara ekki að skoða Dómkirkjuna þegar komið er til Flórens og ekki úr vegi að skella sér í messu sé það á annað borð í boði en upplýsingar um tímasetningar er að finna í kirkjunni. Einnig er tilvalið að skella sér í laufléttan tröpputíma og rölta upp allar þær 463 tröppur sem leiða þig á toppinn þar sem við tekur afskaplega fallegt útsýni.
Rétt norðan við Piazza del Duomo er San Lorenzo-markaðurinn en þar er að finna ýmiss konar vörur sem hægt er að fá á hlægilegu verði. Markaðurinn samanstendur af litlum búðum sem eru á tilteknum kerrum, þær eru svo teknar saman á kvöldin og dregnar í geymslu og þannig gengur það fyrir sig dag eftir dag, ár eftir ár.
Ponte Vecchio eða gullbrúin eins og margir kalla hana var lengi vel eina brúin yfir ána Arno eða allt til ársins 1218. Undir lok 16. aldar var það fyrirskipað af yfirvöldum í Toskana að á brúnni mætti einungis reka skartgripaverslanir og er það enn gert í dag. Brúin er geysilega fögur og einn fjölfarnasti staðurinn í Flórens.
Dásamlega fallegt listasafn sem geymir fjöldann allan af listaverkum frá endurreisnartímanum. Þarna er meðal annars að finna Fæðingu Venusar eftir Botticelli og Díonýsos eftir Caravaggio. Um höllina liggja leynigöng sem ná yfir Ponte Vecchio-brúna og endar í hertogahöllinni Palazzo Pitti.
Aftan við Palazzo Pitti er að finna fallegan garð sem upplagt er að eyða fögrum sumardegi í og njóta þess sem hann hefur upp á að bjóða. Jafnvel finna sér góðan stað, lesa og láta sig dreyma.