Þessi fyrrverandi höfuðborg Íslendinga er frábær heim að sækja og ekki er verra ef fjölskyldan er öll með í för því borgin er mjög hentug fyrir börn. Ekki aðeins er margt hægt að gera heldur eru vegalengdir stuttar og auðvelt að ferðast um á hjóli og strætó eða lestum.
Ferðalag til Kaupmannahafnar hefur þann kost að þangað er stutt að fara, tímamismunur er lítill, verð á flugmiða með því hagstæðasta sem gerist frá Íslandi og framboð á flugi er mikið. Þetta er því góður áfangastaður til að taka börnin með sér í ferðalagið. Núna eru skólafrí bæði á haustönn og vorönn og er til dæmis kjörið að heimsækja þessa einstaklega fjölskylduvænu höfuðborg á þeim tíma þó líka sé gott að fara til borgarinnar á sumrin.
Með appinu „DOT mobilbilletter“ er þægilegt að kaupa miða í strætó og lestir og leita að ferð. Athugaðu að hver fullorðinn má taka með sér tvö börn undir 12 ára án aukagjalds. Fyrir þá sem ætla að heimsækja mörg söfn og skemmtigarða í fríinu má athuga með að kaupa svokallað „Copenhagen Card“ en þá fæst afsláttur af miðaverði og almenningssamgöngur eru innifaldar.
Þeir sem fara til borgarinnar með börn ættu endilega að leigja hjól að minnsta kosti einn dag. Það er besta leiðin til að sjá borgina en maður kemst yfir svo miklu stærra svæði og er engum háður. Börn yngri en tíu ára geta til dæmis setið í kerru framan á hjóli en svona flutningahjól eru algeng í borginni, ekki síst hjá fjölskyldum þar sem þau koma hreinlega í staðinn fyrir fjölskyldubílinn. Ofan í kassann er hægt að koma bæði börnum og farangri. Þegar hjólað er á svona hjóli er best að fara ekki of hratt yfir og halda sig hægra megin á hjólastígum.
Mikilvægt er líka að nota hendurnar til að láta vita hvað maður ætlar sér í umferðinni; höndin upp þýðir stopp og svo er bent með hægri eða vinstri hendi í þá átt sem stefnt er en hendurnar koma í stað beygjuljósa.
Það getur verið dýrt að borða hverja einustu máltíð úti og gerðu því eins og Danirnir og taktu með þér nesti. Hægt er að stoppa víða við leikvelli og fá sér nesti þar og foreldrarnir geta setið lengur á meðan börnin leika sér.
Nestisaðstaðan er stundum innandyra eins og í vísindasafninu Experimentarium, sem fjallað er um hér til hliðar. Líka eru mörg nestisborð í dýragarðinum fyrir gesti svo þar er algjör óþarfi að kaupa mat. Hægt er að heimsækja smurbrauðsstofur og taka með ekta smurbrauð í nesti en líka er möguleiki að kíkja bara í næstu matvöruverslun eða pizzastað í nágrenni við nestisstaðinn og grípa bita þar.
Þegar fjölskyldur eru á ferð, sérstaklega þegar börnin eru lítil, ætti að takmarka tímann í búðum eins og kostur er, sérstaklega í fatabúðum. Úthald barna er almennt ekki mikið í verslunum og búðaráp getur því skapað heilmikla togstreitu. Ef það þarf að versla þá er um að gera að gera það skipulega og á stað sem börnin geta sest niður eða haft eitthvað annað að gera.
Tveir af þeim stöðum sem fjallað er um hér til hliðar, Experimentarium og Tivoli, eru á lista tímaritsins Time yfir hundrað mögnuðustu staði í heimi árið 2018, fyrsta árið sem listinn er birtur. Ennfremur er Kaupmannahöfn í fyrsta sæti yfir þær borgir sem ferðatímaritið fræga Lonely Planet mælir með að fólk heimsæki árið 2019.
Vísindamiðstöðin Experimentarium hefur verið starfrækt frá 1991 en var nýverið opnuð í endurbættri og stærri mynd í Hellerup. Áherslan er lögð á vísindi og tækni og er safninu skipt niður í mörg svæði á þremur hæðum auk útisvæðis á þaki. Þarna er hægt að kanna áhrif loftslagsbreytinga og skoða viðbrögð við þeim, rannsaka flutningsmiðlun með því að senda varning um allan heim í formi kúlna sem ferðast um í loftinu, sápukúlusvæðið er heilt ævintýri og ekki má gleyma svæðinu þar sem áhersla er lögð á hreyfingu og samvinnu en þar geta hópar skráð sig sem lið og tekið hinum ýmsu áskorunum.
Á einum báseru heilabylgjur rannsakaðar þar sem tveir geta keppt í því að vera sem allra rólegastir, sem er meira spennandi en það hljómar. Síðan er heilt svæði tileinkað ströndinni þar sem hægt er að mynda öldur og leika sér í vatni. Leikur að ljósi og litum er á einum stað þar sem til dæmis er hægt að spila á leysigeislahörpu og rannsaka skuggamyndun. Á þessu safni má snerta, það er hreint og beint nauðsynlegt. Allt sem er þarna inni byggist á því að leika og læra.
Safnið í heild sinni er kjörið fyrir börn á grunnskólaaldri en einnig er þarna að finna sérstök svæði sem eru ætluð yngstu börnunum, m.a. á neðstu hæð og á byggingaleikvelli á efstu hæð þar sem eldri krakkar eru spurðir hvort þeir séu örugglega nógu litlir til að fara þangað inn. Yngstu börnunum á því ekki að finnast þau vera útundan þó þau ráði ekki við allt þarna. Hér er alls ekki allt upp talið sem hægt er að gera eins og margmiðlunarkvikmyndahús en það er þó hægt að gera sér grein fyrir því að það er hægt að vera þarna allan daginn, eða marga daga ef því væri að skipta.
Dýragarðurinn í Frederiksberg er virkilega heillandi. Hann er á skemmtilegum stað við Frederiksberg-almenningsgarðinn sem gaman að heimsækja. Maður getur verið heppinn og séð fílana úr garðinum, án þess að heimsækja dýragarðinn. Heimsóknin er samt sannarlega þess virði. Dýragarðurinn var stofnaður 1859 og er einn af elstu dýragörðunum í Evrópu. Í garðinum er sífellt verið að breyta og bæta. Það sem heillar gesti hvað mest er nýja fílahúsið sem hannað var af Sir Norman Foster.
Nýtt svæði tileinkað norðurskautinu er líka mjög skemmtilegt en þar er hægt að sjá ísbirni bæði ofan í vatni og uppúr auk þess sem hægt er að fræðast um dýr á norðurslóðum í gegnum margmiðlun. Í dýragarðinum eru öll möguleg heimsins dýr en ekki missa heldur af gíröffunum, þeir fara kannski heldur ekki framhjá manni, svo hávaxnir eru þeir. Svo er líka húsdýragarður þar sem hægt er að klappa geitum, sem slakar á jafnvel stressaðasta fólki.
Flestir hafa heyrt um Tivoli í Kaupmannahöfn en ef til vill vita ekki allir að þar er nú opið stóran hluta ársins. Sérstakt hrekkjavökuþema ríkir til dæmis í garðinum í kringum skólafrí á haustin. Garðinum er svo lokað um tíma og hann settur í jólabúning. Í ár bættist síðan við að nú er Tivoli opið í kringum skólafrí í febrúar.
Þetta er þriðji elsti skemmtigarður í heimi en Tivoli var opnað 1843. Garðurinn er samt langt í frá staðnaður og mörg ný tæki hafa verið tekin í notkun á síðustu árum. Ef ætlunin er að fara í mörg tæki er best að kaupa „turpas“ með aðganginum inn í Tivoli því þá er hægt að komast í öll tæki án þess að borga meira. Mörg tæki eru þarna fyrir yngstu kynslóðina, til dæmis eru fallturnar fyrir stóra og smáa.
Tivoli þykir mörgum einhver fallegasti skemmtigarður heims og tekur hann á sig nýja mynd þegar dimma tekur og því gaman að vera þarna eftir myrkur. Veitingastaðirnir eru ótalmargir og því er ekki mikið mál að dvelja þarna allan daginn með góðum pásum inni á mili. Fólk á ferð til Kaupmannahafnar með börn ætti endilega að stíla inná að ferðast til borgarinnar þegar Tivoli er opið.