Þetta eru kannski fullfleyg orð þegar lýsa á fjölskylduævintýri á jökli. En jöklar eru einfaldlega alveg mögnuð fyrirbæri; fallegir þar sem þeir liggja eins og hvítur marens ofan á fjöllum og eldfjöllum landsins, stórhættulegir því þeir geta gleypt fólk og heilu flugvélarnar en eru alltaf sagðir skila því sem þeir taka, oft áratugum síðar. Svo virka þeir staðfastir og óumbreytanlegir en eru í raun í sífelldri breytingu. En þeir eru ekki aðgengilegir og öruggast er að fara alltaf með fagfólki á jökul, hvort sem fólk ætlar að ganga eða eins og við ákváðum að prófa; að fara á vélsleða á með börnunum okkar.
Það er nefnilega staðreynd að á ferðalögum erlendis höfum við oft verið tilbúin að eyða heilmiklum peningum í dagspassa í Tívolí eða ýmsa skemmtigarða en skirrumst við að borga fyrir skemmtilega afþreyingu innanlands. Langjökull er annar stærsti jökull landsins, ríflega 950 km2 og einna aðgengilegastur frá Skálpanesi að sunnanverðu eða frá Jaka austur af Húsafelli vestan til. Ferðalagið okkar hófst við Gullfoss. Julian hinn belgíski, leiðsögumaður Fjallamanna, sótti okkur við Gullfoss og varaði við rysjóttum akstri upp að skála og var ekkert að ýkja með það. Börnunum mínum fannst það stuð að hossast svona yfir holóttan veginn í grýttu jökullandslaginu en við foreldrarnir hugsuðum með samúð til dempara smárútunnar sem þræðir þessa leið reglulega.
Þegar komið var í skála Fjallamanna fóru allir í galla og hjálma og litu út eins og 15 manna stubbahópur að því loknu. Við héldum svo upp á jökul að sleðunum á jöklatrukki sem er með svo stór dekk að fólk þarf að klifra upp sjö þrep til að komast inn í hann. Þessi trukkur ein og sér er upplifun út af fyrir sig, ekki síst fyrir börn. Síðan var haldið áfram yfir ruðninga, jökulleir og að lokum upp á jökulinn þar sem sleðarnir biðu. Hópurinn fékk námskeiðið „Hvernig á að aka vélsleða á jökli 101“ beint í æð og svo var haldið af stað og brunað um víðáttur jökulsins á slóða sem búið að er tryggja og þétta til að ferðalagið verði sem allra öruggast.
Þegar við tókum pásu upp á jöklinum til að njóta stórfengslegs útsýnisins spurðum við krakkana hvernig þeim líkaði. Andlit þeirra ljómuðu, eins og sólin sem braust stundum fram úr skýjunum, og þau svöruðu: „æði“. Það var ekkert flókið. Julian leyfði krökkunum að keyra sjálfum smá hring undir vökulu eftirliti og fyrir vikið er hann nú orðin ein helsta fyrirmynd drengjanna minna sem ætla báðir að verða jöklaleiðsögumenn þegar þeir vaxa úr grasi. Pásan upp á toppnum endaði eins og hún hlaut að enda – með snjókasti - í júlí - áður en brunað var niður jökulinn með víðáttur Suðurlandsins í augsýn