Miðaldra konan skrópar á sundæfingar og klúðrar Urriðavatnssundinu

Taumlaus gleði á æfingu í Elliðavatni. Ásdís ásamt þeim Guðjóni …
Taumlaus gleði á æfingu í Elliðavatni. Ásdís ásamt þeim Guðjóni og Birnu Íris. Ljósmynd/ÁÓV

Þegar ég skráði mig í FI Landvætti hefði ég getað talið upp milljón hluti sem virka notalegri.  Mantran mín, ekki hugsa, bara gera fór á yfirsnúning þegar kom að sundi.  Ég hafði engar áhyggjur af því að vera í þessu vatni í klukkutíma.  Ég er mjög vön að vera í allskonar sjó, vötnum og ám við ýmsar aðstæður.  Ég hafði meira að segja bæði synt, veitt píranafiska og klappað krókódílum í Amazon ánni, allt á sama degi.  Ég lærði köfun í Honduras og er með Advanced Open Water Diver réttindi frá PADI.  Ég er með réttindi til að kafa niður á allt að 24 m dýpi, held ég.  Ég lærði það reyndar 1993 og hef ekki kafað síðan en er þetta ekki bara eins og að hjóla?  Enga stund að rifja þetta upp?  Eini munurinn er kannski að ég hef alltaf verið í heitum sjó, aldrei köldu vatni, enda er ég annáluð kuldaskræfa. 

Ég ákvað því að leita í máltækið: „Það sem drepur þig ekki, styrkir þig.“  Ég hafði sem sagt engar áhyggjur af því að vera í þessu vatni í rúman klukkutíma.  Það var hitt smáatriðið sem ég hafði örlitlar áhyggjur af, ég er nefnilega algjörlega ömurleg í sundi.  Það eru 4 þrautir í FI Landvættir.  Af þessum 4 var sundið í 10 sæti yfir þá grein sem mér fannst skemmtilegust.

Er hægt að kenna miðaldra konu sem hatar sund að synda?

Ég hef alltaf verið ömurleg í sundi, ég og sund höfum einfaldlega ekki átt mikla samleið.  Þetta hef ég vitað alveg síðan ég byrjaði að læra sund í grunnskóla Dalvíkur í 12,5 m útilaug.  Ég skildi ekki skriðsund og við skulum ekki einu sinni ræða flugsund, ég næ ekki þessari samhæfingu.

Ef ég ætti að flokka sund eftir því hvað mér finnst flottast, þá kemur flugsund langefst og rétt á eftir skriðsund. Mér finnst mjög smart að vera góð í skriðsundi, það er bara ekki ég.  Ég hef oft reynt að læra flugsund en ég er alltaf eins og steypireiður sem hefur fengið sér of mikið í tána á meðan þeir sem kunna þetta svífa í loftinu eins og þokkafullir höfrungar.  Ég gefst alltaf upp rétt áður en ég drukkna.

Aðstæður til sunds í Urriðavatn voru einstaklega góðar þennan daginn.
Aðstæður til sunds í Urriðavatn voru einstaklega góðar þennan daginn. Ljósmynd/ÁÓV

Ég gat samt göslast áfram í bringusundi, var ekki mikið fyrir baksund því ég klessti alltaf á bakkann.  Þegar ég tók tarnir að hreyfa mig var bringusund oftast fyrir valinu, hvers vegna? jú vegna þess að það var sú hreyfing sem var léttust.  Ég gat hvorki hlaupið né hjólað og þetta var því eina hreyfingin sem hentaði.  Ef ég vildi virkilega taka langa og góða æfingu þá synti ég heilan kílómeter á svona klukkutíma og fannst það massíft afrek.  Þess vegna er það kannski pínu geðveiki að skrá sig í Landvættina og eiga að synda 2.5 km í köldu vatni í blautbúningi.  Enda fæ ég mjög reglulega spurninguna hvort að ég sé orðin algjörlega geðveik.  Ég ræddi við sérfræðinga í Urriðavatnssundi.  Það voru dæmi um fólk sem synti þetta á bringusundi og jafnvel einn sem fór þetta á baksundi.  Ég skoðaði tímana, ok klukkutími á kílómeter var ekki að gera sig, meira að segja í Urriðavatninu var hægt að lenda á tímamörkum.  Það eru menn á árabátum sem pikka upp hæga sundmenn.  Það var augljóst að það var ekkert annað í stöðunni en að skrá sig á skriðsundssnámskeið.  Ég hef oft farið á skriðsundssnámskeið en bara næ þessu ekki.  Núna var ekkert val, ég yrði að ná þessu.

Ég skráði mig á byrjendanámskeið og gat smá en það dugði engan veginn til að klára Urriðavatnssundið innan tímamarka.  Hvað svo, hvað er næst?  Ég var byrjuð að æfa innihjól hjá Þríþrautafélagi Kópavogs og það vildi svo heppilega til að sundæfingar voru innifaldar í æfingagjöldunum. Ég ákvað því að skella mér í djúpu laugina í orðsins fyllstu merkingu.  Sundæfingar í 50 m laug er hrikalega mikið mál fyrir lélega sundkonu og pottþétt líka sundmann.  Ég byrjaði í október 2018 og í desember var ég ekki ennþá farin að geta synt skammlaust yfir 50 m, andað rétt og gert allt eins og átti að gera.  Að byrja að synda í 50 m laug fannst mér ekkert ósvipað og að synda Ermasundið.  Það er óbærilega langt í land og gífurlega miklar líkur á því að drukkna.  Ólíkt Ermasundinu er samt enginn björgunarbátur sem bjargar þér.

Aumingja Hákon Jónsson sundþjálfari.  Hann er með viðurnefnið, sundhvíslarinn, því hann getur kennt öllum að synda, já sko öllum nema mér.  Þarna var ég pínu farin að panikka, ég gat ekki lært skriðsund.  Ég synti alltaf á byrjendabrautinni.  Það kom fólk sem flutti sig yfir á sterkari brautir, ekki ég, mér fór ekki fram.  Um jólin skellti ég mér til Miami með vinkonum, þar var 15 m sundlaug. Ég fór daglega í sund og synti að minnsta kosti 1 km.  Allt í einu kom þetta, ég gat synt yfir, jú þetta voru bara 15 m en ég gat klárað ferðina.  Mér leið eins og ég væri Michael Phelps að vinna Ólympíuleikana.  Þegar ég kom heim hélt ég áfram að æfa en það verður að játast að sundið er búið að vera grýlan mín.  Ég var alltaf á ömurlegum tíma, gat ekki synt hraðar hvað sem ég reyndi og ég setti því meiri fókus á gönguskíðin og hætti tímabundið í Garpasundi enda stönguðust æfingatímarnir alltaf á.  Þegar kona er að ströggla við eina íþrótt og getur valið á milli fjögurra greina til að æfa þá hefur hún tilhneigingu að æfa minna það sem henni leiðist mest.  Hilda vinkona skellti sér á skriðsundsnámskeið og við ákváðum að synda saman eftir eina Esjugönguna, hún stakk mig af.  Þarna var ég búin að vera að æfa í marga mánuði, hún tók nokkra tíma og ég átti ekkert í hana.  Þarna fékk ég verulegt panikk og sendi skilaboð á alla sundgarpana sem ég þekkti.  Fékk fullt af góðum ráðum, eins og það er miklu minna mál að synda í blautbúning en í sundlaug.  Þú syndir hraðar og svo þetta dæmigerða, einbeittu þér að því að ná inn sundkílómetrum, hraðinn kemur seinna. 

Hvernig er best að undirbúa sig undir kalt vatnasund?

FÍ Landvættir setja inn allskonar æfingaáætlanir og fyrir vatnasundið var t.d. sjósund og kaldir pottar settir inn á planið. Ég fór í mitt fyrsta sjósund og fór algjörlega eftir leiðbeiningum. Þú mátt vera að hámarki 30 sekúndur, það hentaði mér mjög vel.  Annað atriði var að prófa köldu pottana í sundlaugunum.  Það varð mun minna mál en ég reiknaði með og á stuttum tíma var ég komin í 5 mínútur.  Ég sá einn mjög stóran kost við sundið.  Ólíkt öðrum greinum þá er ekki dýr útbúnaður sem þarf að kaupa.  Ég átti bæði sundbol og sundgleraugu og vantaði því ekkert, eða svo hélt ég.  Það kom í ljós að það var ekki alveg nóg.   Það þarf blautbúning, sundhettu og margir fengu sér skó og hanska.  Ég var svo heppin að Fjallakofinn bauð verðandi Landvættum upp á tilboð á blautbúningi og ég fór því og græjaði mig á núll einni og var því fær í flestan sjó eða alla vegna vötn.  Svo var bara þetta klassíska að synda nógu mikið og koma inn í sig sundkílómetrum.   Þegar það snjóaði loksins á höfuðborgarsvæðinu í janúar 2019 og við gátum farið að æfa gönguskíði á fullu breytti ég aðeins planinu.  Fór að synda meira sjálf í hádeginu eða á kvöldin eftir vinnu.  Ákvað að setja smá kraft í sundið og synda alltaf alla vegna 2var í viku.  Ég byrjaði rólega með 500 m og á hraðanum 3.30 m á sek.  Það er ömurlegur hraði og allir voru hraðari en ég. 

Ásdís tekur á móti vinkonu sinni, Hrafnhildi Tryggvadóttur, eftir Urriðavatnssundið.
Ásdís tekur á móti vinkonu sinni, Hrafnhildi Tryggvadóttur, eftir Urriðavatnssundið. Ljósmynd/ÁÓV

Ég var dugleg að taka námskeið og ég mæli með því því þú lærir alltaf að minnsta kosti eitt trix á hverju námskeiði.  Ég lærði að beita löppunum réttar og hausnum og allt í einu var hraðinn kominn í 3.0 m á sek, ég gat samt aldrei náð Hildu vinkonu.  Svo komst ég að leyndarmálinu hennar. Hún var sko atvinnukona í sundi.  Hún missti þetta út úr sér í hádegisverði með Garpadeild Breiðabliks.  Hún hafði einu sinni farið til útlanda og keppt í boðsundi og komist á verðlaunapall.  Ég byrjaði að synda í Salalaug, hún er 25 m og það var miklu auðveldara en 50 m laug.  Svo lokaði hún vegna viðgerða, þeir tóku allt vatnið úr henni og það varð ómögulegt að synda.  Ég fór aftur í Kópavogslaugina sem er 50 m. Kosturinn við að synda í 50 m laug er að þú þarft bara 2 ferðir í staðinn fyrir 4 til að klára 100 m.  Gallinn er að þú ert svo miklu miklu lengur með hverja ferð.  Kona verður samt ekki fær í vatnasund í sundlaugunum einum saman og þann 1. júní 2019 fór ég í mitt fyrsta vatnasund.  Skellti mér í Elliðavatnið með 2 félögum úr Þríþrautinni, þeim Birnu Írisi Jónsdóttur og Guðjóni Karli Traustasyni.  

Ég prófaði nýja blautbúninginn minn og hann var algjör snilld.  Ég hafði heyrt miklar hryllingssögur af því hvernig það gengi að komast í blautbúning en þessi var lipur eins og jogginggalli og fullkomin þykkt á honum. Eini munurinn á mér og Birnu og Guðjóni er að þau eru alvöru þríþrautafólk og því örlítið betri en ég.  Guðjón stakk okkur af á núll einni og var búinn að synda yfir Elliðavatnið á meðan ég var ennþá að prófa að dýfa tánum ofan í. Birna var búin að lofa að passa mig og synti því í kringum mig.  Elliðavatnið er ferskvatn en ekki saltvatn.  Hitastigið var um 13 gráður og mikill gróður og því mátti þakka fyrir að vera ekki mjög klígugjörn. Ég þakka það öllum kakkalakkavinunum mínum frá Honduras.  Það er ein grunnregla í vatna- og sjósundi.  Aldrei fara ein/einn í sund, þú veist aldrei hvaða aðstæður skapast.  Mér fannst sundið algjör snilld.  Vatnið var passlega heitt, það var fáranlega auðvelt að komast í gallann og mér leið gífurlega vel í vatninu. Það sem ég hlakkaði til að fara á sameiginlegar æfingar hjá Landvættum og rústa þessu Urriðavatni. Daginn eftir datt ég á hjóli, handleggsbrotnaði EKKI og var óvart sett í gifs í 12 daga og datt út úr æfingum í heilan mánuð.

Miðaldra konan tekur óvart þátt í brimbrettamóti í Rio de Janeiro 

Þegar ég bjó í New York fór ég einu sinni í vatnagarð.  Það voru allskonar skemmtilegar rennibrautir, þrautir og laugar, ég fann eina mjög skemmtilega.  Þú áttir að sveifla þér yfir smá laug og synda svo í land.  Þetta virkaði rosalega sniðugt séð að neðan.  Þegar ég kom upp runnu á mig tvær grímur.  Fólk hélt utan um kylfu og stökk svo af stað og markmiðið var að hanga eins lengi á þessari kylfu og það gat og synda svo í land.  Þú gast nú ekki verið mjög lengi að þessu þar sem röðin var löng og margir sem vildu komast að.  Loksins kom röðin að mér, það var of seint að hætta við.  Ég spurði, hvernig er best að halda í þessa kylfu.  Bara alveg eins og hafnarboltakylfu var svarið, hafnarbolta hvað.  Ég er frá Evrópu, ég hef aldrei séð svona kylfu.  Starfsmaðurinn sýndi mér tökin og sagði svo, hanga eins lengi og þú getur svo að þú sért ekki lengi að synda í land og tefjir ekki röðina þar sem það næsti má ekki leggja af stað fyrr en þú ert komin upp úr.  Já, einmitt, ég hékk á þessari blessuðu kylfu í svona 3 millisekúndur, nýtt Evrópumet, pottþétt.  Mér fannst ég vera klukkutíma að synda þessa örfáu metra í land og reyndi að hunsa röðina sem var að verða pínu pirruð.

Ásdís ásamt Rebekku Gunnarsdóttur, vinkonu sinni á ferðalagi um Suður …
Ásdís ásamt Rebekku Gunnarsdóttur, vinkonu sinni á ferðalagi um Suður Ameríku.

Þetta var samt ekkert í samanburði við þegar við Rebekka vinkona tókum næstum því þátt í brimbrettamóti á Copacabana í Rio de Janeiro í Brasilíu.  Við vorum að klára 6 mánaða ferð um Suður Ameríku.  Okkur fannst tilvalið að vera nokkra daga á ströndinni áður en við færum heim.  Ég meina, hvað er betra þegar þú ert 21 en að vera að njóta á strönd í Ríó.  Við vorum í sjónum þegar við sjáum allt í einu að það eru allir komnir í land nema við tvær.  Það flugu allskonar hugsanir í gegnum kollinn á mér.  Hvers vegna voru allir komnir í land? var búið að senda út hákarla viðvörun og við misstum af henni því við tölum ekki tungumálið?  Hversu vont er að vera étin af hákarli?  Okkur fannst óþarfi að komast að því og fórum að synda í land.  Það gekk ekki neitt.  Það var frekar þungur straumur og við komumst hvorki lönd né strönd.  Nú voru góð ráð dýr.  Á Íslandi væri björgunarsveitin búin að sækja okkur.  Í Ríó var fullt af rosalega reiðu fólki á ströndinni, gargandi eitthvað á þessa heimsku túrista sem komu sér ekki uppúr.  Það hafðist á endanum og þá sáum við að allir voru bíðandi með brimbretti.  Jú, hvað gerir fólk þegar það er gott brim og frábærar öldur.  Skellir sér á brimbretti eða heldur hreinlega brimbrettamót.  Þetta er það sem ég hef komist næst því að keppa í brimbrettamóti.  Við sem sagt töfðum eitt stykki brimbrettamót og það vakti ekki mikla lukku.

Hver er munurinn á því að kafa í karabíska hafinu og synda í íslensku vatni?

Suður Ameríku ferðin með Rebekku var stórkostleg upplifun. Við vorum í hóp sem keyrði um í trukk og við sváfum í tjöldum, hengirúmum eða á ströndinni.  Þetta var frábær tími.  Við vorum marga daga á Amazon ánni þar sem við svömluðum í ánni að morgni til að kæla okkur niður, skelltum okkur svo á píranafiskaveiðar á árabát og „veiddum“ svo krókódíla um kvöldið, allt á svipuðum slóðum.  Það hvarflaði alveg að mér að ég gæti verið étin af annað hvort píranafiskum eða krókódílum en þú ert pínu ódrepandi þegar þú ert tvítugur þannig að við lifðum bara á brúninni.  Ári seinna bjó ég í New York þar sem var hvorki mikið um sjó né vatnasund.  Þriðja árið þá var ég skiptinemi í Honduras og þá hljóp nú heldur betur á snærið hjá litlu hafmeyjunni.  Ég var skiptinemi með ICYE samtökunum eða AUS á íslensku.  Það eru 2 höf í kringum Honduras, karabískahafið og kyrrahafið, fullt af allskonar eyjum og endalaus tækifæri til að njóta þess að vera út í sjó.  Það er meira að segja hægt að læra að kafa sem ég nýtti mér.  Það er gífurlega gaman að kafa í karabíska hafinu, þú ert í sundbol með kút á bakinu. 

Pistlahöfundur hefur alltaf verið ævintýramanneskja. Hér er hún að læra …
Pistlahöfundur hefur alltaf verið ævintýramanneskja. Hér er hún að læra köfun í Honduras. Ljósmynd/ÁÓV

Mér bauðst að halda áfram að kafa þegar ég kom aftur heim.  Fannst það ekki alveg vera minn tebolli að troða mér í blautbúning í ísköldu vatni.  Eins og máltækið segir, engin veit sína ævina fyrr en á reynir.  Ekki hefði mig grunað að tæpum þrjátíu árum seinna myndi ég skrá mig sjálfviljug í vatnasund í blautbúningi.  Það er ekki margt sem ég man úr köfunarnáminu en eitt stendur þó upp úr.  Það var hvað á EKKI  að gera ef þú lendir í vandræðum.  Uppáhaldið mitt var, ef þú festir þig í neðansjávarhelli og ert að verða loftlaus, ekki panika því þá eyðir þú loftinu hraðar.  Það virkar alveg rökrétt, ekki alveg viss um samt að ég myndi bregðast þannig við.  Sama átti við um ef þú mætir hákarli, hvað sem þú gerir, haltu ró þinni.  Það var alveg til meira en nóg af hákörlum þarna.  Ég hafði samt ekkert rosalega miklar áhyggjur af þessu.  Ég vissi að ég yrði alltaf étin fyrst af hópnum.  Hinir syntu einfaldlega hraðar en ég. 

Þegar hausinn fer, hvað er þá eftir

Þann 1.júní 2019 datt ég á hjóli og handleggsbrotnaði næstum því. Röngten sýndi brot og því var ég gifsuð í drasl en svo kom í ljós daginn eftir að ég var ekki brotin. Það gleymdist að vísu að láta mig vita þannig að ég var í gifsi í 12 daga að óþörfu.  Ég missti af Bláalónskeppni og þá datt út Fossavatnsgönguskíðakeppnin því þú hefur bara 12 mánuði til að klára Landvættinn.  Ég var vægt til orða tekið ekkert rosalega hress þegar ég komst að því að gifsið var óþarfi.  Þegar gifsið var tekið var ég alveg jafnslæm í hendinni og þegar ég datt og við tók endurhæfing hjá sjúkraþjálfara í nokkrar vikur.  Eftir 2 vikur og tilheyrandi úrillu, pirring og ergelsi að missa af æfingum af því að ég gat ekki notað hendina sem og stressið hvort og hvenær hendin yrði í lagi ákvað ég að hætta að hugsa um Urriðavatnið.  Ég lét miðann fara og einbeitti mér að því að finna gleðina aftur.  Næstum því handleggsbrotið dró hrikalega úr mér.  Ég var orðin fimmtug og vildi leyfa hendinni að jafna sig fullkomnlega áður en ég færi að synda aftur.  Ég var líka mjög stressuð hvort að hendin yrði yfirleitt aftur í lagi.  Helgina áður en ég lét miðann fara voru sundbúðir Landvætta. 

Mér fannst mjög erfitt að horfa á liðið mitt taka allskonar sundæfingar í hinum og þessum vötnum og gera sig klára fyrir Urriðavatnssundið og Pollýanna fór í sumarfrí.   Ég ákvað að núllstilla mig, hætta að pæla í þessu og horfa fram á veginn.  2 vikum fyrir sund var hendin loksins orðin góð og ég gat gert hvað sem er.  Auðvitað hefði ég getað einhent mér í stífar æfingar og sett allt annað á bið.  Ég var bara ekki stemmd í það.  Sundið hafði alltaf verið mín brekka og mér fannst ég hafa misst of mikið úr.  Stundum tekur lífið líka U-beygju og á sama tíma og ég fór í nauðbeygt æfingafrí datt í fangið á mér nýtt og gífurlega spennandi verkefni sem mig langaði að setja mikinn fókus á.  Kannski gerist allt af ástæðu. Kannski þurfti ég eftir allt saman að lenda óvart í gifsi og detta út.   Dóttir mín segir, þegar þér líður vel þá líður mér betur.  Ég er búin að læra hvar mín mörk liggja eftir að hafa verið korter í kulnun í ársbyrjun 2018.  Þegar ég finn að þetta er farið að hafa áhrif á orkuna mína og geðheilsu þá er eina leiðin að stíga eitt skref til baka og endurmeta allt saman.  Urriðavatnssundið er á hverju ári. 

Það er miklu minna mál að synda í blautbúning en …
Það er miklu minna mál að synda í blautbúning en á sundfötunum einum saman. Ljósmynd/ÁÓV

Ég þarf hvort sem er að endurtaka Fossavatnsgönguna og Bláalónsþrautina.  Það skiptir mig engu máli hvort að ég taki Urriðavatnssundið líka á næsta ári.  Ég vissi að ef ég tæki Urriðavatnssundið núna þá væri það ekki af því að mig langaði svo gífurlega til að gera það heldur af því að mér fyndist ég yrði að gera það.  Það er stór munur á þessu tvennu.  Málið er einfalt.  Það geta allir lent í mótlæti og brekku.  Eina sem þarf að muna að það er í lagi að taka pásu, það er ekki í lagi að hætta og gefast upp.

Aðstæður teknar út við Urriðavatnið og Bræðslan

Ég var hins vegar gallhörð á því að fara á Bræðsluna og taka lokaslúttið þar með FI Landvættum.  Ég skellti mér því í smá roadtrip og náði að kíkja á aðstæður við Urriðavatnið.  Það sló á allt stress.  Þetta virkaði bara hin besta skemmtun.  Það komu allir skælbrosandi uppúr og voru gífurlega ánægðir.  Að sjá vatnið og aðstæður tók út allt stressið hjá mér og ég hlakka til að klára þetta á næsta ári.  Mig langaði hins vegar ekki í sundið núna.  Ólíkt því hvað það var erfitt að mæta í Bláalónsþrautina og sjá félagana koma í mark og geta ekki tekið þátt þá naut ég þess að standa á bakkanum og fylgjast með aðstæðum.   Ég sá að miðinn minn lenti í 2. sæti í karlaflokki þannig að það var nú eitthvað.  Eftir sundið fórum við öll í nýopnað Vök Bath við Urriðavatnið. Glæsileg aðstaða sem ég hlakka til að prófa almennilega á næsta ári 

Um kvöldið skelltum við okkur svo á Bræðsluna.  Ég hafði ekki farið á útihátíð síðan 1986 þannig að þetta var virkilega skemmtileg upplifun og svo skemmdi nú ekki fyrir að Erla Ragnarsdóttir verðandi Landvættur rústaði sviðinu með Dúkkulísunum.

Hvað er framundan?  Ég er að fara að æfa með Þríþrautafélagi Breiðabliks.  Ég verð nýliði annað árið í röð.  Ég mun mastera sundið sem og Urriðavatnssundið.  Einnig mun ég skella mér í hálfan járnkarl, það er sund, hjól og hlaup.  Nema auðvitað ég finni sundlausan járnkarl.  Það væri kannski bara málið?  Ég er amk vel úthvíld og tilbúin að setja æfingaplan ágústmánaðar upp í excel.

Nokkur ráð við mótlæti

  1. Engin plön eiga að vera meitluð í stein
  2. Ef þú vilt breyta planinu þá er það í lagi. Álit annara skiptir engu máli
  3. Ef þú ert þreyttur þá má taka pásu.
  4. Við eigum bara eitt líf og það á að vera gaman ekki kvöð

Fyr­ir þá sem vilja fylgj­ast með Ásdísi Ósk má fylgja henni á In­sta­gram: as­disoskvals

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert