Lesendur muna eflaust vel hversu gaman það var fyrir Íslending að vera í útlöndum þegar gengi krónunnar var hvað sterkast. Máti lifa hátt úti í heimi þegar dollarinn kostaði allt niður í 60 kr, og evran rétt rúmar 70 kr. Sveiflur í verði gjaldmiðla geta heldur betur haft áhrif á hvað það kostar að ferðast.
En rétt eins og það er ánægjulegt fyrir íslenska ferðalanga þegar krónan er sterk, þá getur líka verið gaman að heimsækja lönd þar sem gjaldmiðillinn hefur verið á niðurleið, og má segja að t.d. 10% veiking gjaldmiðils jafngildi því að allt sem lagt er út fyrir á ferðalaginu sé með 10% afslætti, eða þar um bil.
Naskir heimshornaflakkarar fylgjast því vel með þróun gjaldmiðlamarkaða og grípa gæsina þegar eitthvað veldur því að gjaldmiðlar áhugaverðra landa taka dýfu.
Af þeim löndum sem núna er mjög hagstætt að heimsækja vegna gengisþróunar má fyrst nefna Argentínu. Þangað er langt og dýrt að fljúga, en unaðslegt að lenda í Buenos Aires, dansa tangó, borða nautasteikur með rauðvíni í hvert mál, og ramba um slóðir Evu Perón, Diego Maradona og Che Guevara. Efnahagsstjórn Argentínu hefur ekki gengið vel og fyrir vikið kostar pesóinn í dag rúmlega 60% minna en í ársbyrjun 2017.
Tyrkirnir hafa heldur ekki átt sjö dagana sæla. Hagfræðingar og fjárfestar eiga erfitt með að botna í því sem stjórnvöld þar hafa tekið upp á að undanförnu og líran í dag um þriðjungi ódýrari en hún var í upphafi árs 2017. Þó beint flug sé ekki í boði þarf ekki að vera dýrt að skjótast til Istanbúl, leita ævintýra í hlykkjóttum götum þessarar ævafornu borgar, panta te og baklava á fallegu kaffihúsi og heyra heillandi bænakallið óma frá mínarettunum.
Gleðiþjóðin Brasilía er ekki þekkt fyrir ábyrga efnahagsstjórn, og sést það á gengi realsins. Gjaldmiðillinn hefur sótt í sig veðrið undanfarna mánuði en er samt um 16% ódýrari í dag en þegar gengið var óhagstæðast snemma árs 2017. Þarf nokkuð betri afsökun en það til að bóka flug á karníval, eða einfaldlega skreppa til Ríó upp á grínið?