Svo þú brjótir engar reglur í japanskri baðlaug

Richard Chamberlain og Yoko Shimada í hlutverkum sínum í kvikmyndinni …
Richard Chamberlain og Yoko Shimada í hlutverkum sínum í kvikmyndinni Shogun frá 1980. Japanskar baðlaugar geta virst mjög framandi í augum vestrænna gesta.

Á meðan Evrópubúar voru grútskítugir upp fyrir haus, lúsugir og ógeðslegir, voru Japanir löngu búnir að temja sér gott hreinlæti og byrjaðir að stunda regluleg böð í heitum laugum. Og þegar þjóð býr að mörghundruð – og jafnvel mörgþúsund – ára baðlaugahefð þarf ekki að koma á óvart að alls kyns fastmótaðar reglur gildi um það hvernig má nota baðlaugina.

Þeir sem sækja Japan heim þurfa endilega að heimsækja baðlaug, enda ein af meginstoðum japansks samfélags, og líka góð leið til að slaka á, hvíla líkamann eftir lýjandi ferðalag, og komst í skjól frá ys og þys stórborgarinnar.

Íslenskir ferðalangar ættu ekki að eiga svo erfitt með að aðlagast japönsku baðlaugunum, enda hafa skiltin í íslensku sundlaugunum fyrir löngu kennt okkur að þvo kroppinn hátt og lágt áður en farið er ofan í, og svo eiga sundlaugarnar okkar líka sinn þátt í að Íslendingum þykir ekki mikið tiltökumál að striplast fyrir framan annað fólk.

Ólíkar gerðir baðlauga

Fyrst af öllu þarf þó að hafa hugtökin á hreinu. Onsen er orðið sem notað er yfir ekta japanska baðlaug þar sem vatnið kemur upp úr heitri lind. Lögum samkvæmt þarf vatnið að vera a.m.k. 25°C heitt og innihalda ákveðið magn heilsubætandi steinefna. Sento myndum við svo kalla „baðhús“, þar sem gestir baða sig upp úr hituðu kranavatni. Stundum líta onsen og sento eins út en oft eru onsen þannig hönnuð að hefðbundinn japanskur arkitektúr og fagurfræði fær að njóta sín á meðan mörg sento hafa á sér nokkuð sundlaugarlegt yfirbragð.

Svo eru ryokan ákveðin tegund hótela – sem kalla mætti hefðbundin japönsk heilsuhótel – og hafa gestir þar alla jafna aðgang að baðhúsi eða náttúrulegri laug, og stundum að herbergin hafa hvert sína einkalaug.

Kynin aðskilin

Þegar farið er í japanska baðlaug þarf fyrst af öllu að þær eru nær allar kynjaskiptar. Ýmist hafa karlarnir sína laug og konurnar aðra, ellegar að þil aðskilur kynin ofan í sömu lauginni. Þá hafa sumar baðlaugar þann háttinn á að konur fá aðgang á einum tíma dags en karlar á öðrum. Á stöku stað má enn finna baðlaugar þar sem haldið er í þá fornu hefð að karlar og konur geti baðað sig saman án þess að nokkur kippi sér upp við nektina.

Gestir afklæðast alveg í búningsklefanum og þeir sem hafa sítt hár ættu að setja á sig teygju því það er ekki vel séð að hárið komist í snertingu við vatnið ofan í lauginni. Í búningsklefanum má finn lítið handklæði sem á að hafa meðferðis út að lauginni.

Þvínæst er farið í sturtu, og sturturnar yfirleitt hannaðar þannig að fólk þarf að þvo sig sitjandi á þar til gerðum plastkolli. Fylgja þarf vissum siðareglum, s.s. að reyna að láta vatn ekki slettast á aðra og skola kollinn eftir notkun.

Er þá loksins hægt að ganga út að sjálfri baðlauginni, og vissara að muna að hvers kyns læti og hávært tal eru ekki vel séð í baðlaugunum. Litla handklæðið úr búningsklefanum má leggja á laugarbarminn, eða brjóta saman og geyma ofan á höfðinu. Hvorki handklæði, andlit né hár má blotna og stranglega bannað að reyna að synda.

Í sento er hægt að fara beint í búningsklefann að baðinu loknu, en í onsen er ráðlegast að skjótast aftur í stutta sturtu til að hreinsa steinefni af húðinni. Hér má nota litla handklæðið til að þurrka kroppinn eins og frekast er unnt svo að gesturinn skilji ekki eftir sig blauta slóð á leið sinni aftur í búningsklefann.

Fyrir þá sem vilja fræðast meira um japönsku baðlaugarnar, sögu þeirra og siði, má mæla með myndbandi Kanadamannsins Greg Lam sem heldur úti vandaðri YouTube-rás um lífið í Japan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert