Hvert komast Íslendingar án áritunar?

Þetta handhæga kort má finna á Wikipediu. Bláu löndin fara …
Þetta handhæga kort má finna á Wikipediu. Bláu löndin fara ekki fram á áritun, en það gera aftur á móti þau gráu. Ljósbláu, ljósu og ljósgráu löndin veita ýmist áritun við komu eða gefa áritunina út rafrænt.

Íslenska vegabréfið er svo sterkt að stundum gerist það að heimshornaflakkarar hreinlega gleyma að huga að því hvort þeir þurfi áritun áður en haldið er af stað til útlanda. Samkvæmt nýjasta lista vefsíðunnar Passport Index eru vegabréf frá Íslandi í sæti 23 til 27. yfir þau sem hleypa fólki greiðlega inn í flest lönd. Má Íslendingurinn ferðast án áritunar, eða fá útgefna áritun við komu, í 165 löndum, og á það sama við um þá sem framvísa vegabréfi frá Bretlandi, Litháen, Kanada og Nýja Sjálandi.

Svíar hafa ögn meira ferðafrelsi, Danir líka, og komast Finnar inn í 168 lönd án áritunar. Sterkasta vegabréf heims er aftur á móti gefið út af Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Fá þeir sem veifa einu slíkuað komast með lítilli sem engri fyrirhöfn í gegnum landamæraeftirlit 176 þjóða.

Það kann að koma lesendum á óvart hvaða lönd er flóknara fyrir Íslendinga að heimsækja. Þannig krefjast Rússar vegabréfsáritunar og Kínverjar líka – en Hong Kong ekki. Þarf líka áritun áður en haldið er til Kúbu og merkilegt nok líka áður en stigið er upp í vél á leið til Gvæjana í Suður-Ameríku.

Á Wikipediu má finna handhæga síðu sem að fer rækilega í saumana á því hvert Íslendingar geta ferðast án áritunar, eða fengið áritun við komu, og þá hve lengi þeim leyfist að dvelja í hverju landi fyrir sig. Er meginreglan að dvölin megi vara í allt að 90 daga en á því má finna mikilvægar undatekningar, eins og í ferðamannaparadísinni Taílandi þar sem stimpill við komu gildir aðeins í 30 daga.

Ef ætlunin er að fara í mjög langt ferðalag getur hjálpað að sækja um áritun, og má t.d. dvelja í Bandaríkjunum í 6 mánuði með ferðamannavísa, en bara þrjá mánuði án áritunar. Svipað er uppi á teningnum í Taílandi og hægt að fá langa ferðamannaáritun hjá ræðismanninum á Íslandi.

Það hve erfitt er að sækja um áritun getur síðan verið mjög breytilegt eftir löndum: Umsóknarferlið fyrir Kúbu er allt rafrænt en Rússar og Kínverjar vilja fá ferðalanginn í heimsókn í sendiráðið sitt þegar hann sækir um. Í sumum tilvikum má senda umsóknina í pósti, og gæti þurft að senda vegabréfið út í heim með ábyrgðarpósti ef umrætt land er ekki með fyrirsvar á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert