Best að búa í Vín

Vín er besta borgin til að búa í samkvæmt The …
Vín er besta borgin til að búa í samkvæmt The Economist. AFP

Vín, höfuðborg Austurríkis, er besta borgin til að búa í samkvæmt ársúttekt Economist. Vín náði aftur að komast á topp listans, en Melbourne í Ástralíu vermdi toppsætið í fyrra. Fyrir það hafði Vín verið á toppi listans sjö ár í röð fyrir það. 

Melbourne var í öðru sæti og á eftir henni eru Sydney í Ástralíu, Osaka í Japan og Calgary í Kanada. 

Á hverju ári gefur Economist 140 borgum einkunn á bilinu 0 upp í 100 og spila þar inn í glæpatíðni, samgönguinnviðir, aðgengi að menntun og heilbrigðisþjónustu sem og stöðugleiki stjórnmála og hagkerfisins. 

Vín hlaut 99,1 í einkunn, en borgin er þekkt fyrir sitt hreina vatn, góðar almenningssamgöngur og fjölbreytt menningarlíf. Evrópa og Norður-Ameríka eiga flestar borgirnar á lista Economist. 

Átta evrópskar borgir eru í efstu 20 sætunum og borgir í Japan, Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Kanada verma hin sætin.

París féll niður um 25 sæti á listanum vegna mótmæla þar í borg. London var í 48. sæti og New York í því 58. en það kemur til vegna hárrar glæpatíðni og hræðslu við að hryðjuverk verði framin þar.

Borgirnar sem vermdu botnsæti listans eru Karachi í Pakistan, Trípólí í Líbýu, Dakka í Bangladess, Lagos í Nígeríu og Damaskus í Sýrlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert