Jóhanna Ragnheiður Lárusdóttir eða Hanna Heiða eins og hún er kölluð og Steindór Sigurgeirsson eru úr Garðabænum og frá Patreksfirði. Þau búa nú hins vegar langt frá heimahögunum þar sem þau reka hótelið La Meridana Montieri í Toskanahéraði á Ítalíu. Þau tóku við rekstrinum af fyrri eigendum í september 2018 og eftir endurbætur opnuðu þau hótelið 1. apríl síðastliðinn.
Hvernig kom það til að þið tókuð við rekstri hótels á Ítalíu?
„Steindór var nýfluttur heim frá Asíu þar sem hann hafði búið síðastliðin 20 ár. Honum hugnaðist ekki að setjast að á Íslandi og leitaði því annað að viðverustað. Fyrsta hugmynd var hús í Frakklandi en eftir að hafa „rekist“ á La Meridiana á ferð sinni um Ítalíu með börnin sín fjögur varð ekki aftur snúið. Útsýnið er engu líkt og var ákveðið þar og þá að þetta skyldi vera næsta stopp,“ segir Hanna Heiða í viðtali við mbl.is.
„La Meridiana hafði áður verið sveithótel en ekki starfrækt tvö síðustu árin áður en við tókum við. Fyrrverandi eigendur voru ítölsk hjón sem voru komin á aldur og vildu hætta svo mikilli vinnu. Þau höfðu rekið hótelið sem hið týpíska ítalska „agriturismo“-hótel með veitingastað sem snýr að því að nota vörur úr héraðinu og leggja þannig til samfélagsins. Við Steindór höfðum ferðast talsvert um sveitir Ítalíu og prófað ýmis sveitahótel til að athuga hvernig þau væru og til að fá betri hugmynd um hvernig við vildum reka þetta. Upplifun okkar var sú að Ítalir eru ekki endilega að endurnýja hlutina og laga ef eitthvað lætur á sjá heldur hafa þeir hlutina upprunalega sem hefur auðvitað sinn sjarma en svo eru aðrir sem vilja örlítið meiri þægindi. Við lögðum því upp með að hótelið byði upp á nútímaþægindi og gestir kæmu endurnærðir úr fríum sínum. Við skiptum út öllum rúmum, öllu líni, keyptum stór sjónvörp, bættum nettenginguna, létum gera glæsilega nýja sundlaug með öllu tilheyrandi og huguðum að hlutum sem skipta máli fyrir gott frí án þess að víkja frá Toskana-venjum. Hótel La Meridiana er því fyrsta flokks sveitahótel með 13 herbergjum og einni íbúð og veitingastað þar sem gestir geta fengið mat úr héraði með aðeins öðruvísi ívafi en fæst annars staðar,“ segir Hanna Heiða.
Hvernig hefur reksturinn gengið?
„Reksturinn er búinn að ganga vonum framar og eiginlega þannig að við vorum alls ekki tilbúin í törnina sem sumarið er búið að vera. Við bjuggumst við að eitt og eitt herbergi myndi leigjast út og veitingastaðurinn yrði hálftómur. Svo var aldeilis ekki og hefur hótelið verið stútfullt frá júní og 10-15 manns á hverju kvöldi á veitingastaðnum. Við lentum þó í talsverðum vandræðum þegar nýráðni kokkurinn okkar hætti skyndilega og við neyddumst til að standa vaktina á veitingastaðnum sjálf. Hvorugt okkur er mjög sleipt í þeim efnum og hafði ég til að mynda aldrei soðið pasta áður. Einhvern veginn reddaðist þetta þó eftir að hafa horft á yfir 100 youtubemyndbönd og signt okkur fyrir opnun hvert kvöld. Engu munaði þó að við kyrktum hvort annað með sósu í hárinu á þessum álagstímum og mælum við ekki með þessu fyrir pör.“
Hvernig hafa heimamenn tekið ykkur?
„Heimamenn hafa verið dásamlegir og fengum við heimsókn frá mismunandi aðilum úr litla sveitabænum Montieri sem er 2,5 km frá okkur á hverjum degi eftir að við komum út í september fyrir ári. Þeir komu alltaf færandi hendi með vín sem þeir sjálfir höfðu bruggað eða kökur og annað þvíumlíkt. Þá kom lögregluforinginn einnig í heimsókn og hefur hann verið fastagestur síðan og kíkir reglulega við í eitt vínglas og heldur svo rúnti sínum áfram. Hjálp frá heimamönnum hefur verið ómetanleg og hefðu endurbætur á hótelinu aldrei tekið svona stuttan tíma hefði það ekki verið fyrir hjálp þeirra og foreldra Steindórs. Vegna tungumálaörðugleika okkar megin hjálpuðu þau okkur að fá samband við réttu aðilana fyrir öll verkefnin sem þurfti að inna af hendi við uppbygginguna. Við vorum einnig hrædd um að finna ekkert fólk í vinnu en það varð alls ekki raunin og höfum við varla undan að taka við atvinnuumsóknum þrátt fyrir að hafa aldrei auglýst eftir starfsfólki svo það er ekki annað hægt að segja en okkur hafi verið tekið vel.“
Fáið þið marga Íslendinga í heimsókn?
„Við erum svo heppin að hafa fengið nokkra gesti frá Íslandi sem kunna vel að meta þægilegu rúmin og stærri sjónvörpin fyrir börnin sem geta sofnað yfir enskumælandi sjónvarpsefni. Við vonumst til að þeir verði miklu fleiri því Íslendingar eru frábærir gestir og þægilegir í umgengni og munum við dekra vel við þá.“
Hvað er hægt að gera í grennd við hótelið?
„Alveg heilan helling. Allt um kring eru pínulitlir sveitabæir sem hafa allir sinn sjarma og er gaman að heimsækja. Þar tala fæstir stakt orð í ensku og maður upplifir ekta ítalska stemningu þar sem hægt er að fá dásamlegan mat og fylgjast með bæjarbúum í hlutverkum sínum. Við leigjum út rafmagnshjól og eru þau mjög vinsæl til að rúnta um á milli bæjanna og skoða umhverfið.
Þá eru frægustu vínhéruðin skammt frá okkur líkt og Bolgheri og Chianti og er dásamlegt að eyða eftirmiðdegi í vínsmökkun. Næsti strandbær er 35 mínútur í burtu svo ef fólk vill fara á strönd er það lítið mál. Margir stærri bæir eru í aðeins meiri fjarlægð og því nauðsynlegt að vera á bíl til að heimsækja þá. Í Piombino og Castiglione Della Pescaia færðu besta ís á Ítalíu sem er framleiddur úr hráefni frá bæjum í kring og smakkast hann guðdómlega.
Á staðnum La Pergola færðu svo bestu pítsur á Ítalíu og svo eru pítsurnar í litla bænum rétt hjá okkur afar ljúffengar. Fyrir þá sem vilja fara mjög fínt út að borða þá er Michelin-staðurinn Meo Modo í 15 mínútna fjarlægð frá La Meridiana en sá staður er á hótelinu Borgo Santo Pietro en ekki ómerkari menn en Obama og Clooney ásamt spúsum gistu þar um daginn. Flórens, Písa og Síena eru allir í um klukkustundar fjarlægð en þar upplifir maður mikinn túrisma og eru þetta eins og tveir heimar – Toskanasveitin og stærri nöfnin.
Allt um kring eru fallegar gönguleiðir sem hægt er að fara og svo er auðvitað hægt að heimsækja Elbu og ganga það fjall ef það er í rónni. Ítalska sveitin er endalaus uppspretta afþreyingar og munu bragðlaukarnir dansa hvert sem farið er,“ segir Hanna Heiða.