Sigurður Andrean Sigurgeirsson, dansari Hatara og Íslenska dansflokksins, ferðast reglulega vinnu sinnar vegna. Andrean, eins og hann er kallaður, fór til Ísrael í vor með Hatara og er meðal annars á leið til Hong Kong í nóvember með Íslenska dansflokknum og til Brussel að hitta kærasta sinn sem starfar þar í borg. Fyrsta stopp er þó Borgarleikhúsið en þar frumsýnir Íslenski dansflokkurinn dansverkið Þel eftir Katrínu Gunnarsdóttur á föstudaginn.
Ferðavefur Mbl.is fékk að forvitnast um það sem staðið hefur upp úr á ferðlögum Andreans. Oftar en ekki eru það ferðalögin til Indónesíu sem standa upp úr en Andrean er hálfíslenskur og hálfindónesískur.
Eftirminnilegasta ferðalagið?
„Ég hef farið í ótalmörg skemmtileg ferðalög og oftar en ekki eru þau eftirminnalegustu frá hinu heimalandinu mínu, Indónesíu. Það er mjög þægilegt að ferðast um land þar sem þú kannt tungumálið,“ segir Andrean.
„Sú ferð sem ég hef hugsað mest til undanfarið er þegar ég fór til Suður-Kalimantan, en það er Indónesíuhluti Borneó-eyjunnar. Ég fór ásamt vinkonu minni Elísu eftir að hafa verið með dansvinnustofu í Jakarta. Við fórum í ferðalag í gegnum þéttan regnskóginn í Kalimantan þar sem við kynntumst frumbyggjum af Dayak-ættbálknum. Á leiðinni þangað þurftum við að klífa lítið fjall. Á leið minni upp fjallið varð ég allt í einu ótrúlega veikur en ég beit á jaxlinn og komst svo að lokum til þeirra og skyndilega hurfu veikindin en þá varð Elísa allt í einu ótrúlega veik. Eins og það hefði einfaldlega færst yfir á hana.
Dayak-fólkið sem við gistum hjá sagði þá við okkur að andarnir í skóginum hefðu tekið mig í sátt en ekki Elísu. Helgisiðir voru framkvæmdir þetta kvöld í þeirri von að henni myndi batna en hún varð bara veikari og veikari. Leiðsögumaðurinn sagði að þetta kæmi mjög oft fyrir og oftar en ekki þyrfti hann að snúa við, sem honum þótti leiðinlegt vegna þess að þetta átti víst að vera fallegasti staðurinn. Elísu hafði ekkert skánað morguninn eftir og tókum við því þá ákvörðun að snúa við.
Um leið og við komust yfir fjallið leið Elísu betur og veikindin hurfu með öllu stuttu seinna. Þetta var allt mjög furðulegt. En restina af ferðinni sigldum við á fallegum húsbát upp árnar í Tanjung Puting-þjóðgarðinum og sáum stórbrotið lífríki þar. Við sáum meðal annars sækýr, krókódíla, langnefja Proboscis-apaketti, Rhinoceros hornbill-fuglinn og að lokum órangútan-apa. Það var eitt það magnaðasta sem ég hef upplifað.“
Uppáhaldsborg í Evrópu?
„Amsterdam.“
Uppáhaldsstaður á Íslandi?
„Það er erfitt að gera upp á milli allra fallegu staðanna á þessu landi. Í fyrra fór ég í ótrúlega skemmtilega ferð með góðum vinum til Vestfjarða. Við sigldum fyrst til Flateyjar og eyddum góðu kvöldi þar, fórum meðal annars á sjókajak og horfðum á sólina setjast. Stoppuðum á mörgum fallegum stöðum þar sem við nutum heitra lauga, böðuðum okkur í fossum, gengum krefjandi gönguleiðir, heilluðumst af náttúrunni og skemmtum okkur svo konunglega á hátíðinni Skjaldborg á Patró.“
Besti maturinn á ferðalagi?
„Matur er eitt af því besta við að ferðast til nýrra landa. Stundum held ég að ég ferðist til þess að borða og oftar en ekki hefur þyngdaraflið ögn sterkari áhrif á mig eftir ferðalögin mín. En ef ég á að nefna nokkra uppáhaldsrétti þá fæ ég mér alltaf gott Masakan Padang þegar ég fer heim til Indónesíu, var sjúkur í Okonomiyaki þegar ég var í Osaka og svo fékk ég mér guðdómlegan Sichuan-rétt á kínverskum stað í New York sem ég er enn þá að hugsa um.“
Mesta menningarsjokkið?
„Ég hef alltaf verið með annan fótinn í Indónesíu og er því afar erfitt að koma mér úr jafnvægi en mesta sjokkið upplifði ég fyrr á árinu þegar ég fór til Ísraels með Hatara-teyminu. Ég varð vitni að hræðilegu aðskilnaðarstefnunni þar gagnvart Palestínumönnum, ólöglega landnáminu, hernáminu og hvernig litið var á Palestínumenn sem annars flokks samfélagsþegna. Það er vitað um hin fjölmörgu mannréttindabrot Ísraelsmanna en eftir að sjá og heyra sögur um raunveruleika þeirra Palestínumanna sem ég kynntist úti sá ég hvað mannvonskan getur verið mikil. Ég mæli því með því að sem flestir hér á landi gerist félagar í Íslandi-Palestínu vegna þess að mannréttindi varða okkur öll og þessu hernámi verður að ljúka.“
Hefur þú lent í einhverju hættulegu á ferðalagi í útlöndum?
„Eitt af því versta sem ég hef upplifað var þegar ég var stunginn af eiturskötu hjá eyjunum Pulau Seribu rétt fyrir utan strendur Jakarta. Atvikið átti sér stað rétt fyrir myrkur og þegar eitrið var farið að dreifa úr sér og sársaukinn jókst, þá var ekki lengur hægt að sigla til Jakarta á spítala vegna myrkurs og fjöru. Ég var því fluttur á aðra eyju rétt hjá sem var með lítilli heilsugæslu.
Ég var fluttur á hjólbörum og mér var neitað um öll lyf vegna þess að ég hafði fengið mér einn bjór fyrr um daginn. Ég þurfti að liggja þarna alla nóttina í versta líkamlega sársauka sem ég hef upplifað í mínu lífi. Það var eins og verið væri að stinga mig með hnífum um allan líkamann. Ég hélt að ég væri að deyja. Kvaddi kærasta minn og allt saman þegar ég fann að hjartað fór að slá hægar. Allt mjög dramatískt. Það fyndna var samt að rétt áður en þetta gerðist þá hafði hugsað, hversu kúl það væri að vera bitinn af eiturslöngu eða könguló og lifa af til þess að segja frá því. Karma.“
Hvað er ómissandi í flugvélinni?
„Þolinmæði og að eiga auðvelt með að sofna. Ég er eins og köttur, get sofnað alls staðar. Ég mæli líka eindregið með því að fólk kolefnisjafni ferðalögin sín með því að fara á Kolvidur.is eða Votlend.is. Það er fátt skemmtilegra en að ferðast en það er því miður líka mjög mengandi.“
Hvert dreymir þig um að fara?
„Mig hefur lengi langað að sjá slétturnar í Mongólíu en líka lífríkið í Namibíu og Rúanda.“
Hvaða ferðalög eru á dagskrá?
„Þau eru þó nokkur. Ég mun fara oft til Brussel þar sem að kærasti minn starfar þar. Íslenski dansflokkurinn er einnig í mikilli útrás enda frægur utan landsteinanna. Við munum sýna verkið Best of Darkness í HongKong í byrjun nóvember og förum svo til Bilbao á Norður-Spáni. Eftir áramót sýnum við svo uppáhaldsverkið mitt Black Marrow í London og endum svo ferðalagið í Harstad í Noregi með verkið Aion.“